Fara í aðalinnihald

Færslur

Sýnir færslur frá 2007

Áramót og geymslan

Nú árið er liðið í aldanna skaut en ég ætla nú ekki að rifja það upp hér og eina áramótaheitið sem ég ætla að gefa er að ég vona að ég eigi jafn skemmtilegt ár árið 2008 eins og árið 2007 var. Annars flæddi inn í geymsluna hjá okkur í gær og eiginmaðurinn varði frídeginum sínum í það að laga til í geymslunni og þurrka upp bleytu. Sem betur fer flæddi ekki mikið og það skemmdist ekki mikið. Það hefur staðið til í hálft ár að laga til í geymslunni þannig að þetta var svona lán í óláni en alltaf fúlt að svona komi fyrir.

Jólaboð

Jæja, núna eru jólin næstum búin. Við einkasonurinn bökuðum eina köku í dag fyrir jólaboð sem haldið var í pabbafjölskyldu og drifum okkur svo í jólaboðið. Þetta verður líklega eina jólaboðið hjá stórfjölskyldunum þessi jól þannig að það mætti segja að jólin séu að mestu búinn hjá okkur núna eða svona hér um bil. Fékk þrjár bækur í jólagjöf í ár, er hálfnuð með bókina Þúsund bjartar sólir sem mér finnst mjög spennandi, veit samt ekki hvort hún er betri en Flugdrekahlauparinn sem er eftir sama höfund. Ætla að skila einni bók sem ég fékk frá vinnunni og þá er bara að lesa þriðju bókina sem er á ensku. Úti eru spengjuglaðir Íslendingar byrjaðir að sprengja og einkasonurinn sver sig í kynið og er heldur betur spenntur yfir öllum þessum sprengjum. Spennandi að sjá hvernig hann verður á gamlárskvöld þ.e.a.s. ef við komumst út fyrir rigningu enda spáin fyrir það kvöld ekki spennandi.

Jólasnjór

Jólin voru fín eins og alltaf, skemmtilegast var að eyða í fyrsta skipti aðfangadagskvöldi heima hjá okkur. En auðvitað var líka skemmtilegt að hitta alla ættingjana, borða góðan mat og fá pakka og gefa pakka. Ég er samt mest hissa yfir þessum jólasnjó og kuldanum, alveg steinhissa enda langt síðan svona snjór og kuldi var síðast á landi elds og ísa. Samt bara skemmtilegt, miklu skemmtilegra en rigning og rok. Hef svo sem ekkert mikið að segja svona á síðustu dögum ársins, maður er eitthvað svo andlaus og að spá í eitthvað annað en að skrifa hér, en koma tímar, koma ráð.

Gleðileg jól

Litla fjölskyldan í hólmanum óskar öllum sem lesa þessa síðu gleðilegra jóla og vonum að þið hafið átt eins skemmtileg jól og við.

Þorláksmessa

Við settum upp jólatréið í gær og ó boj, ó boj. Jólatréið sem við keyptum er svo stórt að það tekur alla stofuna. Ég held bara að ég hafi aldrei séð eins "feitt" jólatré. Einkasonurinn var þó himinlifandi þegar hann sá jólatréið í morgun og byrjaði strax að raða pökkunum undir jólatréið. Hann er heldur betur kominn í jólaskap, skruppum í eina búð í dag og þegar við vorum búinn að versla þakkaði móðir hans fyrir sig og óskaði afgreiðslumanninum gleðilegra jóla. Kristófer Óli þurfti auðvitað líka gera það og kallaði hátt og snjallt yfir alla búðina gleðileg jól þannig að öllum viðskiptavinunum fannst þeir líka þurfa að óska okkur gleðilegra jóla. Annars mæli ég með því að Þorláksmessa sé alltaf á sunnudegi, miklu minna stress þegar ég fór í bæinn um hádegisbilið þá var umferðin bara mjög þægileg minnti ekkert á neitt jólastress. Annars held ég bara að jólin séu alveg að koma, hér á bæ á bara eftir að laga smá til og skreyta jólatréið.

Jólaskap

Ef þið eruð ekki ennþá komin í jólaskap, þá er hérna ein tilraun til að koma ykkur í jólaskap. Þetta er eitt af tveimur lögum sem ég kann að spila á píanó , hitt er Gamli Nói.

Afmæli, jarðaför og jólatré

Eiginmaðurinn átti afmæli í gær og við, litla fjölskyldan, héldum uppá það með því að fara saman út að borða á Ruby Tuesdays þegar hann var loksins búinn að vinna kl. 20.00 en þetta var langur og erfiður dagur þar sem það var einnig jarðaför Möggu ömmu hans Sigga. Einkasonurinn fékk að vaka sérstaklega lengi í gærkvöldi því eftir kvöldmat fórum við og kláruðum það sem einkasonurinn hefur beðið eftir alla vikuna. Við fórum og keyptum eitt stykki jólatré. Einkasonurinn hafði einhverjar áhyggjur af því að við myndum kaupa svo stórt jólatré að það kæmist ekki inn í íbúðina okkar þar sem ég lofaði honum stóru jólatréi en þær áhyggjur voru óþarfar. Einnig hafði hann hugmyndir um að kaupa nokkur lítil jólatré, t.d. eitt sem ætti að vera inni í herberginu hans og annað inni í herberginu okkar. Sem betur fer var bara keypt eitt meðalstórt jólatré og einkasonurinn bíður núna spenntur eftir því að það verði sett upp svo að hann geti hafist handa við að skreyta jólatréð.

Jólastress?

Ákvað að skella mér aftur út í brjálæðið eftir kvöldmat, já ég er Íslendingur í húð og hár. Ég fór í Smáralind og fattað þá að þangað hef ég ekki komið í örugglega tvo mánuði eða áður en ég fór út til USA. Komst að því að ein jólagjöfin sem ég var búin að ákveða er uppseld og hef ekki hugmynd um hvað ég á að kaupa í staðinn þannig að ég get byrjað að verða smá stressuð með öllum hinum.

Allt að verða brjálað

Ég fór um kl. sjö og sótti eiginmanninn í vinnuna og fyrst að ég var nú á ferðinni ákvað ég að kíkja í nokkrar búiðir í leiðinni. Hefði betur sleppt því, kolniðamyrkur í rigningunni þannig að maður varla sér út um rúðuna þúsund bílar á hverju bílastæði sem eru sko ekki að gefa manni neinn séns! The icelandic way og svo kílómetralangar raðir í búðunum og Íslendingar útúrstressaðir eftir því. Ég er ekkert smá feginn að vera búinn að kaupa flest allar jólagjafir en ég þarf víst að hafa fyrir þessum fáeinu sem ég á eftir.

Ýmislegt

Vöknuðum aftur í morgun um klukkan hálfsex þar sem einkasonurinn gerði það sama og síðustu nótt þannig að hann fór ekki í leikskólann í dag. Það var frekar þreytt móðir sem steinsofnaði með syninum eftir hádegi. Í gær vorum við að ræða hvar einkasonurinn ætti heima bæði götuheitið og að það væri í Kópavogi. Kristófer Óli fór þá að velta þessu fyrir sér. Ég útskýrði hvað gatan héti og að gatan væri í Kópavogi. Kristófer Óli hugsaði sig aðeins um en sagði svo "Nei, mamma þú ert eitthvað að ruglast, gatan heitir gata!" Í nótt kemur svo hurðaskellir. Kristófer Óli er viss um að hann kemur með stórt dót handa honum enda er hann búinn að vera voðalega góður, segir hann sjálfur. Passið þið bara hurðirnar.

Í skóinn

Ekki skemmtiegt að vera vakinn upp um kl. fimm að morgni til við það að einkasonurin sem var búinn að skríða uppí fyrr um nóttina fékk illt í magann og kastaði upp yfir allt. Þegar einkasonurinn vaknaði svo í morgun þá beið hans kartafla frá jólasveininum. Jólasveininn hafði greinilega tekið eftir frekjukasti sem einkasonurinn tók í klukkustund í gær. Hann var nú samt þokkalega ánægður með kartöfluna, vildi bara fá 10 í viðbót og var viss um að ef hann borðaði kartöfluna þá hætti honum að vera illt í maganum. Þegar á leið morguninn þá fór hann samt að sleikja okkur upp og er búinn að vera voða góður og sagði að honum langaði nú frekar í dót í skóinn en kartöflu. Ég vona að jólasveininn hafi heyrt það. Hér kemur svo vinsælasta lagið á heimilinu í dag, sungið daginn út og daginn inn. Jólasveinar einn og átta (Þjóðvísa) Jólasveinar einn og átta, ofan komu af fjöllunum, í fyrrakvöld þeir fóru að hátta, fundu hann Jón á Völlunum. Andrés stóð þar utan gátta, það átti að færa hann tröllunum....

Aðventan

Gerð heilmikið jólalegt í dag, fór m.a. og skoðaði jólalandið í Hafnarfirði en hápunktur dagsins voru jólatónleikar í Langholtskirkju . Ég held að ég hafi aldrei gert jafn mikið á aðventunni eins og í ár enda hefur þetta verið mjög skemmtilegur tími og ekki allt búið enn. Held að ein ástæðan sé að ég var búinn að kaupa flestar jólagjafir 1. desember þannig að ég hef bara getað dúllað mér og gert eitthvað skemmtilegt þó svo að mér finnist nú líka skemmtilegt að kaupa jólagjafir. Í gær var svo velheppnuð jólagleði eða litlu jólin í vinnunni með dýrindis hlaðborði og svo kom Magga Stína og söng nokkur lög fyrir okkur.

Kemur ekki á óvart...

Which Friends Character Are You? You are Monica. You have a go-all-out nature. Your friends better watch out, because you play to win. Also, when it comes to order and cleanliness, you're a bit obsessive compulsive. Your best trait, however, is your thoughtfulness. You go to great lengths to care for your friends. Find Your Character @ BrainFall.com

Óveður

Það er bara brjálað verður dag eftir dag. Öllu skólahaldi aflýst í dag á höfuðborgarsvæðinu, held að það hafi ekki gerst síðan ég var lítil en það eru mörg ár síðan ég var lítil. Ég þorði ekki annað en að halda einkasyninum inni þar sem hann er "leik"skólabarn þannig að hann er í góðu yfirlæti heima hjá mér, a.m.k. fyrir hádegi.

Piparkökur

Við einkasonurinn bökuðum nokkrar piparkökur í dag, svona frekar uppá sportið en að borða þær. Einkasonurinn er upprennandi piparkökudrengur og tók baksturinn aðeins alvarlegra en móðir hans. Hafði miklar áhyggjur af því þegar hún skrapp aðeins úr eldhúsinu og enginn var til að fylgjast með piparkökunum í ofninum. Kristófer Óla finnst nú samt piparkökur óskaplega góðar og að hans mati eru sko engin jól án þess að það séu piparkökur. Við fórum um daginn í heimsókn til vinkonu minnar og þar komst hann í piparkökuskál. Nokkrum dögum seinna vorum við að keyra heim og þá sagði einkasonurinn eitthvað á þessa leið "Mamma, eigum við ekki að hafa svona jólaskraut og piparkökur eins og hjá Gunnhildi, það er svo jólalegt".

Út á hvað ganga jólin?

Þessi vika er aðeins rólegri heldur en sú síðasta og ég er búinn að vera heima hjá mér að kvöldi til þrjá daga í röð og það er bara nokkuð næs. Í kvöld kemur Stekkjastaur í bæinn og einkasonurinn bíður spenntur eftir honum þó svo að hann sé ekki alveg 100% á þessu. Heldur t.d. að jólin komi þegar jólasveinninn kemur og hann er nú kannski ekki alveg viss um hvað þessi jól eru eiginlega en veit þó að þau hafa eitthvað með pakka að gera og jólanammi og jólaskraut og piparkökur.

Jólalegt í Heiðmörk

Þar sem við erum að mestu búinn að kaupa jólagjafir þá þurftum við ekki að vera í búðum í dag. Í staðinn fórum við í Heiðmörk og kíktum þar á jólamarkað. Það var virkilega fallegt og jólalegt þar sem snjórinn lá á gróðrinum og hægt var að kaupa m.a. lopapeysur, kakó og jólatré. Einkasonurinn hlustaði skíthræddur á sögu um skrímsli þar sem við vorum svo heppin að það var einmitt sögustund þegar við litum við.

Rómó

Þegar dimma tók fór ég að verða duglegri að kveikja á kertum. Eitt skipti sagði ég einkasyninum að það væri nú frekrar rómó hjá okkur með kveikt á kertum og slökkt ljósið. Hann greip það og eftir það segir hann iðulega við móður sína. "Mamma, eigum við að hafa rómó". Hleypur til og finnur sprittkerti handa mér sem ég kveiki svo á og svo slekkur hann ljósið og þá setjumst við í sófann og höfum við það heldur betur rómó. Sumir eiga eftir að verða góðir einhvern daginn.

Jólatónleikar

Hátið aðventunnar heldur áfram. Í kvöld fór ég á jólatónleika hjá Neskirkju þar sem ein samstarfskona mín er í kór Neskirkju. Á tónleikunum voru kórinn, einsöngvarar og barrokkhljómsveit og verkið var Oratorían L'Allegro, IL Penserose ed il Moderato eftir Händel. Virkilega skemmtilegt verk og ég naut þess að hlusta á það. Held bara að ég geti ekki komist í meira jólaskap.

Jólahlaðborð

Ég og eiginmaðurinn ákváðum að það væri kominn tími til að njóta aðventunnar og fórum í kvöld á jólahlaðborð á Lækjarbrekku með góðum vinum. Þetta var virkilega gaman, jólahlaðborðið var glæsilegt og maturinn góður og svo höfðum við að sjálfsögðu góðan félagsskap til að njóta þess með. Þetta var því hin skemmtilegasta kvöldstund sem vonandi verður endurtekin að ári. Ég er ekki frá því að ég sé bara kominn í nokkuð gott jólaskap.

Aðventukaffi

Fyrsti í aðventu í gær og að því tilefni bauð stjórn starfsmannafélagsins uppá kakó og með því í 10 kaffinu í morgun. Einnig var kveikt á fyrsta kertinu á aðventukransi vinnustaðarins sem ég frétti í vikunni að héti Spámannskerti. Þetta var kærkomin tilbreyting og minnir mann á hvað það er alltaf gaman á aðventunni. Ég er búinn að plana heilmargt á aðventunni og það er bara í þessari viku.

Sörur

Í dag voru bakaðar smákökur í tonnatali. Sigurborg og Þórunn vinkona hennar komu til mín og við bökuðum hátt um 600 Sörur sem við skiptum svo bróðurlega á milli okkar og tók þetta tæplega sex tíma, geri aðrir betur. Enda var góð yfirumsjón með bakstinum, það getur ekki klikkað þar sem sú sem með það fór er þekkt fyrir kvennlegar dyggðir og súperefni í kvenfélagskonu. Getið þið nú! Að sjálfsögðu eru þetta bestu Sörur í heimi, nú er best að koma sér í mjúkinn hjá mér til að fá að smakka.

Desember

Jólin eru á næsta leiti og það er ekki frá því að maður finni smá jólastress í loftinu. Ég er hinsvegar búinn að kaupa allar jólagjafir og þarf ekkert að gera fyrir jólin nema pakka þeim inn. Fannst smá skrítið að þurfa ekki að fara og leita á fullu að jólagjöfum í dag. Ég á nú reyndar líka eftir að skrifa jólakort og baka og laga til og, og, og... Alltaf nóg að gera fyrir jólin en ég er nú ekkert voðalega stressuð, a.m.k. ennþá. Það eru sumir sem eru ekki mikið að spá í jólastressi. Fór í Hagkaup með einkasoninn í dag og hann var svo afslappaður og ánægður (eins og í rauninn nánast allaf) með að fá að skoða allt dótið að hann trallaði hástöfum svo mikið að konunni á undan okkur í röðinni varð að orði að það væri nú gott að vera svona lítill og hafa engar áhyggjur. Hann brosti bara og hélt áfram að syngja og tralla.

Vel plönuð bíóferð

Hvað er skemmtilegra en að rifja upp gömul kynni við gamla vini. Fór í vikunni í bíó með vinkonu minni sem hefur örugglega tekið þrjú ár að skipuleggja, en okkur tókst að fara í bíó og ég hafði gaman að því, svo mikið að það er plönuð önnur bíóferð í janúar.

Mykur

Vá, hvað það er erfitt að vakna á morgnanna. Ég barasta hef mig ekki á fætur á morgnanna þannig að ég hef mætt aðeins seinna í vinnuna frá því að ég kom heim frá Florida, kemst ekki út úr húsi fyrr en rúmlega átta. Það hefur kannski eittthvað með það að gera að mét tekst ekki að fara upp í rúmmið fyrr en í fyrsta lagi uppúr kl. 00.00. Í kvöld LOFA ég að fara fyrr að sofa.

Svefntíminn

Feðgar fóru að sofa í kvöld eftir að hafa farið í bað. Þegar mér fannst faðrinn hafa verið frekar lengi inni hjá einkasyninum ákvað ég að vekja hann nokkuð viss um að hann væri sofnaður. Þegar ég kem inn í svefnherbergið okkar liggja þeir báðir í rúmminu okkar og líta út fyrir að vera sofandi en einkasonurinn opnar augun og segir "Usss, pabbi er sofnaður". Ég labbaði glottandi út aftur og leyfði þeim að kúra saman.

Rafmagnsleysi

Ég var heldur betur búinn að koma mér vel fyrir framan sjónvarpið að horfa á danskan sakamálaþátt, nýbúinn að poppa og meira að segja komin með sængina fram. Púff!!! þá fór rafmagnið í rúmlega háfltíma. Sem betur fer var ég búinn að kveikja á kertum og tölvan er með batterí. Ég lagaði aðeins til í myndunum á tölvunni og svo kom rafmagnið aftur en uppgötvaði að hvað nútímamanneskjan ég er háð rafmagninu.

Enn og aftur afmæli

Héldum loksins uppá afmæli einkasonarins . Við buðum fjölskyldunni og svo kíktu tvær vinkonur mínar auk frænku minnar. Bara lítið og létt en að sjálfsöguð Ingals-style. Súpa, þrjár kökur og svo auðvitað pylsubrauð auk ávaxtabakka. Gleymdi Rice crispies inni í frysti eins og vanalega. Ætla bara að slappa af í kvöld fyrir framan sjónvarpið... ...og hafa það næs.

Brúðkaupsafmæli

Við hjónin eigum sex ára brúðkaupsafmæli í dag og þar sem ég hef ekki hugmynd um hverju sex árin tengjas ákvað ég að "googla" það og fékk bæði upp að sex ár væri járnbrúðkaupsafmæli eða sykurbrúðkaupsafmæli. Við höldum uppá það við að undirbúa smá afmælisveislu handa einkasyninum sem átti afmæli 2. nóvember sl. en þá var í flugvélinni á leiðinni út til Ameríku og enginn tími til að halda afmæli. Ákváðum að halda samt afmæli þar sem það er hundleiðinlegt að fá enga afmælisveislu. Þetta verður bara lítið afmæli í ár, aðeins nánasta fjölskylda en ef einhver sem les þetta langar að kíkja á okkur þá er það velkomið. Við ætlum að hafa súpu og kökur á morgun milli 14-16. Ég er einmitt að baka eina köku núna. Áðan hljóp einkasonurinn fram og til baka úr eldhúsinu og inn í stofu nokkrum sinnum. Ég spurði hann hvað hann væri eiginlega að gera. Svarið sem ég fékk var: "Ég er að finna lyktina af kökunni".

Amma Sigga

Amma Sigga hefði orðið 82 ára í dag hefði hún lifað. Hún var dugnaðarforkur og kjarnakvendi þó svo að það færi oft lítið fyrir henni. Hún eignaðist hvorki meira né minna en 15 börn og kom þeim öllum til manns og það er sko stórt afrek út af fyrir sig. Reyknaði einhvern tíma út að hún hefði verið ófrísk í 11 ár og mér fannst 9 mánuðir mikið! Ég var svo heppin að fá að kynnast henni betur en mörg önnur barnabörn þar sem ég fékk að búa hjá henni þegar ég var í menntaskóla og að hluta til þegar ég var í Háskóla Íslands. Ég man þegar ég flutti til hennar 1989 og byrjaði í menntaskóla þá fannst mér hún orðin voða gömul en þá var hún bara 64 ára sem mér finnst í dag, enginn aldur. Ég man hvað henni fannst gaman að fá okkur frænkurnar inná heimilið og hve okkur fannst fábært að fá að vera hjá henni. Við gátum spilað saman félagsvist kvöld eftir kvöld og alltaf var jafn gaman hjá okkur. Það var alltaf fjör við matarborðið og í rauninni alltaf enda brölluðum við margt saman, Sunnubrautargegnið....

Fyrst ég er byrjuð...

...á svona Internetprófum er bara best að halda þeim áfram. Ekkert merkilegt að blögga um hversdagsleikann þegar maður er búinn að vera hálfan mánuð úti á Florida. Þú fellur fyrir proskum (prins + froskur). Sé karlkynið flokkað í prinsa, froska, proska og frinsa er ljóst að þú fellur fyrir proskum . Líklegt er þó að þú mótmælir þeirri niðurstöðu. "Nei, ég fell fyrir prinsum," kanntu að hugsa. Ástæðan er sú að þú ert í afneitun! Við fyrstu sýn virðist proskur nefnilega prins. Hann lokkar til sín dömurnar með breiðu, skjannahvítu brosi og gljáfægðri kórónu. Hann heldur dyrum opnum fyrir þér, færir þér blóm og leggur afmælisdaginn þinn á minnið. En þegar proskurinn hefur veitt þig í gildruna kemur hans innra eðli í ljós. Einn daginn tekurðu eftir því að skítugir táfýlusokkar prosksins liggja á stofugólfinu. Þann næsta tekur hann yfir völdin yfir sjónvarpsfjarstýringunni og hækkar í iPodinum sínum og þykist ekki heyra í þér þegar þú biður hann um að fara út með ruslið. Það kemur ...

Raunveruleikinn

Gengur eitthvað erfiðlega að koma sér í gírinn aftur eftir hið ljúfa líf í sól og hita í Florida. Tímamismunurinn eitthvað að stríða mér, sofna seint á kvöldin og vakna seint á morgnanna dauðþreytt. Ég fattaði það í dag að það eru að koma jól þannig að maður getur farið að hlakka til þeirra og njóta aðventunnar. Já, það er alltaf eitthvað. Nota svo tækifærið og óska vinkonu minni henni Möggu í Hveragerði til hamingju með daginn.

Slagorð

Nothing Comes Between Me And My Lilja. Enter a word for your own slogan: Generated by the Advertising Slogan Generator , for all your slogan needs. Get more Lilja slogans .

Ó Florida, ó Florida

Það var frábært í Florida, 25°C hiti og sól ALLA dagana. Við nutum þess að vera í sumarfríi í yndislegu hverfi og sumir spiluðu golf, aðrir prófuðu golfbíla. Að sjálfsöguð var verslað og verslað og verslað og verslað... og þar se við vorum í Orlando þá gátum við ekki sleppt því að heimsækja nokkra skemmtigarða eins og Disney Magic Kingdom, Universal Studios og Sea World. En þar sem ég er myndasjúk þá læt ég nokkrar fylgja...

Þrjú ár

Í dag eru þrjú ár síðan ég átti einkasoninn, já ótrúlega fljótt að líða. Að sjálfsögðu er ég eins og flestar mæður og segi það hiklaust að þetta sé stærsta upplifun lífsins og besta og mesta afrek sem ég hef gert. Á þessum tíma fyrir þremur árum var ég búin að vera með hríðir í rúmlega sólahring og búið að sprengja belginn, komin með dripp í æð og ljósmóðirin sem var að fara að vakt var hálf svekkt yfir því að þurfa að fara þar sem hún var viss um að barnið væri að koma. Hann leit dagsins ljós sex tímum seinna.

Vinkonukvöld

Í gærkvöldi fór ég út að borða og í bíó með vinkonu minni sem kærkomin tilbreyting og mjög skemmtilegt. Reyndar var svolítið fyndið að við höfðum ætlað okkur að sjá allt aðra mynd í bíó en þegar í bíóið var komið tókum við alveg svakalega áhættu og prófuðum að fara á mynd sem við vissum ekkert um. Ég hélt fyrst að við hefðum gert algjör mistök þar sem fyrstu atriði myndarinnar eru frekar ógeðsleg en skipti fljótlega um skoðun og þetta var góð mynd og ég get alveg mælt með henni. Fór út af myndinn hugsandi hvað ég hefði það nú gott.

Saman

Við mæðginin áttum ágætis dag saman í dag. Heimilisfaðirinn var að vinna þannig að höfðum það bara rólegt saman þar sem við m.a. löguðum til saman, tókum miðdegislúrinn saman og fórum í göngutúr út í Bónus saman. Nauðsynlegt að "gera ekki neitt" stundum og vera bara saman. Ég fékk a.m.k. heilmikið út úr deginum þó svo að það hafi ekki verið neitt prógram í gangi og við vorum tvö ein saman allan daginn. Ótrúlegt hvað litli strákurinn minn er orðinn stór og hægt að rabba við hann um heima og geima. Að hans sögn er hann ekki lítill strákur heldur stór strákur eða jafnvel bara kallinn enda er hann að verða þriggja ára í vikunni.

Sköllóttur?

Einkasonurinn fór í klippingu í dag enda um að gera að vera sem flottastur fyrir sína fyrstu utanlandsferð. Hann hafði þó miklar áhyggjur af því að hann kæmi sköllóttur úr klippingunni en þegar bæði ég og hárgreiðslukonan höfðum fullvissað hann um að svo myndi ekki verða róaðist hann þó að honum þætti nú öruggara að halda í hendina á mér allan tímann sem hann var í klippingu.

Vegabréf og önnur mál

Náði í vegabréf feðganna í dag og ég get nú ekki sagt að myndirnar af þeim séu uppá margar fiska. Annar bítur í neðri vörina á sér og hinn svolítið krimmalegur með hálflokuð augun. Einkasonurinn er búinn að vera bleyjulaus alla vikuna í leikskólanum þannig að ótrúlegt en satt, hann er eiginlega hættur með bleyju og það áður en hann varð þriggja ára. Það þarf reyndar aðeins að ýta á eftir honum en það varð ekkert slys í leikskólanum nema einu sinni fyrsta daginn. Númer 2 er reyndar smá vandamál ennþá og næturnar en við tökum við öllum sigrum og höldum uppá þá.

Níu dagar

Það eru níu dagar þangað til að ég fer til Florida og ég er sko fyrir löngu byrjuð að telja niður. Það verður ágætt að yfirgefa þetta verður og fara í sólina í Orlando, Florida. Ég get ekki beðið...

Ég er kallinn...

Við fórum á foreldrafund í leikskólanum í gær, sem sagt sameiginlegan fund starfsmanna og foreldrafélagsins sem var nú alveg ágætt. Gott að fylgjast með hvað barnið manns er að gera í "hinu" lífinu sínu. Einn leikskólakennarinn kom að mér og sagði ég verð nú bara að segja þér hvað Kristófer Óli var að tala um í dag. Þegar við vorum að drekka í drekkutímanum segir Kristófer Óli við mig "Ég er kallinn, ég er í rafmagnsrúmminu, ég er kallin ég drekk bjór". Drekka bjór!!!! Ég var náttúrulega eins og auli og reyndi eitthvað að útskýra þetta en tókst auðvitað ekki. Það er ekki eins og við séum að drekka bjór á hverjum degi. Reyndar fann hann bjór í morgun sem er búinn að vera inni í skáp í fjóra mánuði, já fjóra mánuði og vildi endilega drekka hann. Við sögðum honum að þetta væri bara karlar sem að drekka bjór og þaðan hefur hann þetta örugglega. Ó, já það er eins gott að passa sig hvað maður segir, það fer allt lengra.

It can happen to you

Undur og stórmerki gerðust um helgina. Við hjónin fórum út að borða og í bíó á eftir og að lokum í smá heimsókn. Ekki var verra að við vorum ánægð með matinn og veitingarstaðinn og líka bíómyndina sem við ákváðum snögglega að fara að sjá og heimsóknin var skemmtileg að vanda. Skemmtilegt og velheppnað kvöld og minnir mann á að gera þetta oftar.

Pönnukökur

Undur og stórmerki gerðust í hólmanum í dag. Húsfrúin bakaði pönnukökur í morgun en það hef ég ekki gert í mörg ár ef ekki áratugi. Einkasonurinn bað móður sína um að baka pönnukökur, var reyndar með einhverjar hugmyndir um að kasta þeim upp í loft eins og Lína langsokkur en mér tókst að skjóta mér undan því. Pönnukökubaksturinn tókst ótrúlega vel þó ég segi sjálf frá. Reyndar voru þær alltof þykkar þannig að húsmæður sjöunda áratugarins hefðu skammast sín fyrir þær pönnukökur. Ég er hinsvegar húsmóðir á nýju árþúsundi og hrikalega stollt yfir því að takast að baka nokkrar pönnukökur þó svo að þær væru þykkar og já nokkrar voru í dekkri kantinum. Hins vegar gæti verið að ég þurfi að endurskoða ákvörðun mína því við erum ekki búinn að borða eina pönnuköku af þeim sem ég bakaði. Einkasonurinn smakkaði eina pönnuköku en kláraði hana ekki og ég hef nú reyndar aldrei verið neitt sérstaklega hrifin af pönnukökum þannig að ég er ekki búinn að fá mér neina. Sjáum til hvað gerist þegar húsbónd...

Afmæli nálgast

Einkasonurinn á afmæli eftir nákvæmlega tvær vikur. Foreldrarnir hafa notað það óspart og þegar hann biður um eitthvað hefur honum verið bent á að það þýði ekkert að gefa honum það núna því hann fái það kannski í afmælisgjöf. Borvél, gítar, sverð, veiðistöng, byssa og ég veit ekk hvað. Í dag var hann hinsvegar búinn að fá nóg af því og sagðist bara ekkert vilja eiga afmæli, þá fengi hann kannski eitthvað dót strax.

Tommi og Jenni

Það eru fleiri en ég sem eru byrjaðir að telja niður. Við höfum aðeins verið að útskýra fyrir einkasyninum að við séum að fara í flugvélina til útlanda og þar geti hann m.a. hitt góðvin sinn Mikka mús. Í morgun var einkasonurinn að horfa á nýfundna vini sína Tomma og Jenna í veikindunum en við keyptum spólu (dvd disk) með þeim félögum fyrir um tveimur vikum. Þegar myndin var um hálfnuð og hann búinn að hlæja nokkuð að þeim félögum þá spyr hann mig voða fallega hvort að við getum ekki líka hitt þá Tomma og Jenna í útlöndum. Það var bara sætt. Annars er einkasonurinn víst búinn að bjóða öllum leikskólakennurunum með sér til Florida eða að minnsta kosti búinn að lofa að skila kveðju til Mikka mús.

Eyrnabarn

Er heima í dag með strákinn minn en hann er ennþá veikur. Hef sterkan grun um að eitthvað sé komið í eyrun aftur. Eigum ekki tíma fyrr en á föstudaginn hjá HNE-lækninum (háls, nef og eyrna), þá kemur þetta betur í ljós. Er nú samt að vona að honum verði batnað fyrir þann tíma. Maður má vera bjartsýnn. Skemmtilegri fréttir... ...tvær og hálf vika eða 17 dagar þangað til við förum út til Florida, USA og ég er sko byrjuð að telja niður.

Veikindi

Einkasonurinn ennþá veikur og lítið gert að viti í dag nema okkur hjónunum tókst að skreppa aðeins út í rúmlega klukkutíma í kvöld í smá afmælisboð. Takk kærlega fyrir okkur og takk kærlega fyrir pössunina.

Gengið niður Laugaveginn

Gekk niður Laugaveginn í dag með vinkonu minni frá Selfossi og það er örugglega í fyrsta skiptið á árinu sem ég geri það og nú er langt liðið á árið. Það var virkilega skemmtilegt og ég skil ekki af hverju ég fer ekki oftar. Nú þegar maður er orðin svona úthverfamús þá á ég ekki oft erindi niður á Laugaveginn og ætli úthverfamúsinni finnist það ekki of mikið fyrirtæki að setja kerruna í bílinn og klæða sig eftir veðri, utanbæjarvinkonu minni fannst það ekkert mál. Það er helst í hádeginu sem ég fer stundum með samstarfskonu minni að kíkja í einhverjar skemmtilegar búðir. Við fórum reyndar einmitt í gær í hádeginu (áður en ég fékk símtalið ) þar sem hún var að kaupa sér lopa og garn til að prjóna. Ég hef ekki prjónaði í mörg ár og jafnvel marga áratugi en ég fékk nú bara smá kitl í fingurna. Það er aldrei að vita nema ég taki upp prjónana aftur. Í öðrum fréttum var það að ég sofnaði kl. 20.00 í gær með einkasyninum og hann er ennþá veikur.

Veturinn er kominn

Það var hringt í mig í dag úr leikskólanum og mér tilkynnt að einkasonurinn væri kominn með yfir 39°C hita. Ég tók því eins og veturinn væri kominn og ný veikindahrina að byrja hjá einasyninum. Nú er ég öllu sjóvaðri í veikindum en það er nú samt alltaf erfitt að horfa á barnið sitt svona veikt. Ætla að fara að sinna barninu mínu.

Ljósmyndabók

Pantaði á netinu ljósmyndabók hjá mypublisher og fékk hana loksins í hendurnar í vikunni. Mig hefur lengi langað til að panta svona bók. Það er hægt að panta svona bók hér heima en þá er hún miklu dýrari og hugbúnaður sem fylgir því frekar stirður. Ég prófaði fyrst hjá öðru fyrirtæki í Bandaríkjunum en það kom í ljós að þeir tóku ekki íslenska stafi þannig að ég bara beið eftir betra tækifæri. Ég hélt að það hefði komið þegar ég kynntist mypublisher og gerði umrædda ljósmyndabók í júní. Þegar ég ætlaði að senda hana tók hugbúnaðurinn ekki við henni og þrátt fyrir að fá leiðbeiningar frá þjónustuborði gekk það ekki þannig ég beið róleg áfram. Í september tók ég þó eftir að það var búið a uppfæra hugbúnaðinn og viti menn ég gat loksins pantað ljósmyndabókina sem ég hafði búið til í sumar og látið senda hana af stað. Fyrir smá klaufaskap skráði ég inn vitlaust götunúmer þannig að það gekk smá erfiðlega að koma bókinni til mín. Síðan kom í ljós að það var ekki Pósturinn sem bar þetta út h...

Miðvikudagur

Þetta er búinn að vera erfiður dagur. Fundir og fundir og fundir. Þetta er einn af þeim dögum sem maður á bara að vera heima hjá sér og kveika á kertaljósum og horfa kannski á Americas Next Top Model . Ég ætla að gera það.

Ljósmyndanámskeið

Byrjaði á ljósmyndanámskeiði í dag og það besta við það er að ég fæ það frítt í gegnum stéttarfélagið. Námskeiðið stóð frá 16:30-19:30 og ég var þokkalega þreytt eftir það sérstaklega andlega. Tekur á þegar maður er orðinn óvanur að vera í skóla, jæja bæði orðin eldri og svo var ég auðvitað að vinna allan daginn. Í dag lærði ég um ljósop, hraða og white balance sem er notað til að stilla lithita. Einnig lærði ég um samspil ljósops, hraða og ISO. Hafði heyrt flest öll þessi hugtök áður en vantaði tengslin á milli. Vona að ég hafi lært eitthvað af því í dag. Á tvö skipti eftir á námskeiðinu sem verður næstu tvo þriðjudaga. Eftir þann tíma verð ég að sjálfsöguðu orðinn heimsklassa ljósmyndari eða svona næstum því.

Sunddrottning

Fór í sund í kvöld og það minnti mig á hvað ég mér finnst gaman í sundi. Nú er ég búinn að lofa sjálfri mér að fara í sund einu sinni í viku og þá á ég ekki við sundkennslu einkasonarins. Það var einnig gaman að koma aftur í "gömlu sundlaugina mína" í Kópavogi sem ég stundaði grimmt fyrir um tíu til fimmtán árum síðan. Það hafði ekkert breyst nema konurnar í afgreiðslunni voru núna pólskar. Ok, reyndar er líka verið að byggja nýja búningsklefa. Hinir voru bara til bráðabirgða sem voru byggðir fyrir um 15 árum.

Labbi labbi labb

Ég var eiginlega labbandi í allan dag. Byjaði á því að ég fór í góðan göngutúr með frænku minni fyrirhádegi um Elliðaárdalinn í frábæru veðri. Eftir hádegi fór ég í tveggja tíma göngutúr í Smáralindinni með vinkonu minni og tókst að kaupa mér einn bol. Svo seinni partinn þá skelltum við okkur fjölskyldan á Þingvelli og löbbuðum þar einn hring í haustlitunum. Enda er ég þreytt í löppunum núna.

Hvað á að hafa í matinn?

Það er alltaf jafn erfitt að ákveða hvað á að vera í matinn og hugmyndaflugið ekki uppá marga fiska. Ákvað í kvöld að prófa nýja aðferð með því að spyrja einkasoninn í bílnum þegar við vorum á leiðinni heim en bjóst svo sem ekkert við því að fá svar frá tæplega þriggja ára barni. Móðirin: "Hvað langar þig í matinn í kvöld, Kristófer?" Kristófer Óli: "Eitthvað gott." (Hugsar sig um) Kristófer Óli: "Mig langar í plokkfisk. Plokkfiskur er góður". PLOKKFISK!!! Það er eitt af því sem fer ekki inn fyrir mínar varir þó svo að mér finnist fiskur alveg ágætur þá get ég ekki sagt að plokkfiskur sé á meðal þess. Fengum okkur reyndar bara skyr og rúgbrauð en hann fær plokkfisk fljótlega. Ég ætla að fá mér eitthvað annað í matinn það kvöld.

Tagl

Ég er komin með svo sítt hár að ég get látið í tagl. Held að það hafi bara ekki gerst í 20 ár eða svo enda kann ég varla að láta hárið í tagl og finnst ég vera stórfurðuleg í útliti þegar ég prófa að setja hárið upp. Ætli það sé ekki bara kominn tími til að klippa hárið stutt.

Gönguklúbbur

Fór í þennan líka fína göngutúr í kvöld með nýstofnuðum gönguklúbb í vinnunni. Um 17% af vinnufélögunum mættu og það var sko engin rigning í kvöld heldur fínasta veður þannig að þeir sem mættu ekki misstu af miklu. Ætlunin er að labba vikulega og það var sko kraftganga og ég mátti hafa mig alla við að halda í við gönguforingjana. Bíð spennt eftir næsta miðvikudegi. Svo fyrir þá sem ekki vissu.. það er komið haust!

K eins og Kristófer Óli

Ég fór með einkasoninn í Hamraborg í dag til að láta taka passamynd af honum. Fattaði svo eftir á að ég hefði nú kannski alveg getað gert það sjálf. En í því sem við vorum að leggja bílnum í Hamraborg þá kallar einkasonurinn steinhissa. "Mamma, mamma þarna er K eins og Kristófer Óli" Ég lít í kringum mig og sé þá hvar stendur Kaupþing, loksins eftir margar vikur hefur lestur Stafakarlanna borgað sig.

Letidagur

Við fjölskyldan erum búinn að gera nákvæmlega ekki neitt í allan dag. Húsmóðirin er greinilega ennþá að jafna sig eftir magakveisuna miklu, eiginmaðurinn fór út að djamma í gær og einkasonurinn er yfir sig ánægður að hafa óskipta athygli frá báðum foreldrunum. Stundum verður maður bara að taka smá letidag.

Storyteller

Það verður seint sagt að einkasonurinn tali lítið, hann á yfirleitt svar við öllu og oftar en ekki verða til hinar ýmsu sögur úr einni setningu. Oftast erum við að ræða við hann og hann býr til söguna út frá því sem við erum að ræða um. Svo var ekki í kvöld. Í kvöld vorum við á leiðinni heim úr sundi þá sat einkasonurinn afturí bílnum einn með sjálfum sér og sagði sögu og foreldrarnir hlustuðu á og brostu: "Ég var að elda kjúkling og þá komu ormarnir og borðuðu kjúklinginn. Þá kom úlfurinn og bítti í, bítti í, bítti í..... úlfurinn kom með byssu og skjótaði á ormana. Þá varð áðnamaðkurinn voða hissa"

Hversdagsleikinn

Æ, ég er veik. Náði mér í einhverja pest sem er víst að ganga. Telfdi skák við páfann stóran hluta síðustu nætur og er svo bara búinn að liggja í móki í dag með hita. Ég sem ætlaði að fara í vinnuna um hádegisbilið en það varð nú lítið úr því. Tókst í staðinn að liggja svo lengi í bælinu að ég fékk í bakið og horfa á tvær stelpumyndir. Kannski ekki skemmtilegasti dagurinn en það kemur dagur eftir þennan dag.

Vafið um fingur...

Við vorum að keyra framhjá Smáralindinni í dag og þá sá einkasonurinn plagat af hákörlum sem er ný teiknimynd í bíó. Einkasonurinn hefur einungis einu sinni farið í bíó og það var ekki í Smáralindinni. Einkasonurinn: "Það er ný mynd í bíó" Móðirin: (Frekar hissa) "Nú langar þig í bíó?" Einkasonurinn: "Já" Móðirin: "Með hverjum?" Einkasonurinn: "Mömmu Lilju krúsímús" Hvað getur maður sagt við þessu? Það er plönuð bíóferð næstu helgi. Hann kann á alla veiku punktana hjá móður sinni.

Flugferðir

Ég hef ekki talið mig mjög flughrædda en helst flogið í millilandaflugi en ekki mikið í innanlandsflugi þar sem meira um óeirð í lofti og maður verður óneitanlega meira var við flugið í minni vélum. Gleymi því þó aldrei þegar ég flaug frá Bakka yfir til Vestmannaeyja í lítilli rellu, ágætt að það var stutt flugferð. Í gær varð mér hinsvegar í fyrsta skipti flökurt þegar ég flaug til Akureyrar. Fattaði það þó ekki fyrr en mér var bent á það. Hélt að ég væri veik og skildi ekkert af hverju mér var svona flökurt, það fór þó ekki illa og ég var fljót að jafna mig og alveg til í aðra flugferð og komst klakklaust heim. Mynd af góða veðrinu á Akureyri. Eina myndin sem ég náði af höfuðborgarsvæðinu. Drulluléleg mynd en varð að láta hana fylgja með þar sem myndefnið er svo fagurt. Getið þið nú bara hvar þessi mynd er tekin.

Akureyri

Fór á ráðstefnu á Akureyri í dag og ég verð að viðurkenna að það er alltaf gott veður á Akureyri eða a.m.k. í dag þegar það hellirigndi í höfuðborginni. Ágætis ráðstefna en frekar löng þannig að þegar ég var búinn að sitja allan daginn á ráðstefnunni þá ákváð ég ásamt samstarfskonu minni að fá mér smá ferkst loft. Við löbbuðum því úr háskólanum og niður í bæ og síðan alla leið út á flugvöll, og ég komst að því eftir á að það eru 3,1 km frá miðbænum að flugvellinum þannig að þetta var ágætis göngutúr. Það er reyndar svolítið fyndin saga við þá gönguferð en hún verður ekki höfð eftir hér. Við háskólann á Akureyri. Leikfélag Akureyrar. Heimildarmynd: Á leiðinni út á flugvöll.

Í sund á sunnudegi

Litla fjölkyldan dreif sig í sund á sunnudagsmorgni og skemmti sér að sjálfsögðu mjög vel eins og alltaf. Fórum að þessu sinni í nýju laugina í Mosfellsbæ sem við mæðginin prófðuðum í fyrsta skipti í síðustu viku og líkaði svo vel þannig að við fórum nú aftur viku seinna. Húsbóndinn á heimilinu gerði sér lítið fyrir og hljóp héðan og upp í Mosó ásamt systur sinni, rúmlega 13 km. Við mæðginin hittum þau við sundlaugina og þegar var komið ofaní þá plataði Magga frænka Kristófer Óla með litla hjartað að fara í allar rennibrautirnar. Þegar hann var einu sinni búinn að prófa þá gat hann ekki hætt. Seinna í dag nýttum við góða veðrið og fórum í göngutúr, að sjálfsögðu fékk guli bílinn að fara með og Kristófer Óli tók nokkra montrúnta á honum. En það er ekki frá því að um leið og rigningin fer og það verður heiðskýrt þá kólnar all verulega, já það er komið haust. Feðgarni klæða sig skóna eftir sundferðina. Í lok sundferðar. Litla fjölskyldan í göngutúr og einkasonurinn að sjálfsögðu með gula ...

Morgunstund gefur gull í mund

Hvað er betra en að drífa sig snemma morguns með einkasyninum til Reynis bakara og kaupa þrjár heilhveitiskonsur, setjast síðan niður við matarborðið öll fjölskyldan og borða saman morgunverð áður en heimilisfaðirinn fer að vinna.

Veraldarvefurinn

Bendi fólki á þessa snilldargrein um teiknimyndir. Kannski fyrir aðila sem eru aðeins yngri en ég því ég man eftir því að bróðir minn horfði á margar af þessum teiknimyndum og þá ég líka stundum með honum. Ég er líklega það gömul að "þegar ég var ung" þá var auðvitað bara Stundin okkar eða svona hér um bil.

Nýtt í dag

Ég hélt að ég hefði nú ekki gert neitt óvenjulegt eða nýtt í dag en svo fattaði ég að í morgun vaknaði ég klukkan sex og var kominn í vinnuna klukkan átta. Það verður að teljast harla óvenjulegt, sérstaklega þar sem ég vil helst sofa eins lengi og ég get. Ástæða þess er líklega sú að ég sofnaði kl. 20.15 í gær, ó já. Einkasonurinn var svo þreyttur eftir allan æsinginn í íþróttaskólanum að hann bað um að fara upp í rúm kl. 19.30 sem gerist nánast aldrei. Ég fór og svæfði hann og sofnaði óvart svona snemma með honum. Eiginmaðurinn reyndi að vekja mig en að hans sögn gekk það ekki vel enda fannst mér óskup næs að sofna. Einnig hlustaði ég í fyrsta skipti á fleiri en eitt lag í einu með Megasi í morgun. En það var fyrirlestur um þann listamann á starfsmannafundi í morgun. Ég er bara ekki frá því að ég muni hlusta meira á hann í framtíðinni.

Íþróttaskóli

Í dag fórum við einkasonurinn í íþróttaskóla HK í fyrsta skipti. Einkasonurinn hefur nú ekki verið þekktur fyrir að prófa eitthvað nýtt enda með eindæmum lítið hjarta en við foreldrarnir höldum áfram að prófa. Hann varð nú heldur betur smeikur þegar við komum inn í búningsklefann og við sáum inn í leikfimissalinn þar sem var fullt af krökkum í tímanum á undan og nóg að gera. Minn maður rak bara upp öskur og vildi fara heim. Hann var alveg óhuggandi þangað til ein vinkona hans úr leikskólanum kom óvænt inn í búningsklefann þá sá hann að þetta var nú kannski ekki svona agalegt fyrst að hún væri nú kominn þangað líka. Þegar búið var að tala hann aðeins til fékkst hann til að fara inn í leikfimissalinn en hélt fast í hendina á mér. Hann þorði svo alltaf meira og meira og fyrst gat hann bara hlaupið ef ég hélt í hendina á honum en svo þorði hann að sleppa hendinni. Hann varð nokkuð spenntari þegar kom að þrautahringnum og að lokum hljóp hann óreglulega hringi út um gólfi og tók nokkur ...

Lifðu fyrir daginn í dag

Á leiðinni heim úr vinnunni hlusta ég oft á Reykjavík síðdegis á Bylgjunni og á hverjum degi eru hlustendur hvattir til að hringja inn og segja frá því sem var rætt á kaffistofunni þann daginn. Mér hefur nú aldrei dottið í hug að hringja en mér verður oft hugsað til samræðna á kaffistofunni þann daginn. Ótrúlegustu hlutir eru ræddir og hin ýmsu vandamál leyst svo sem fermingagjafir, hvað á að hafa í matinn, utanlandsferðir, gömul húsráð og það mætti lengi telja. Í dag ræddum við hinsvegar um það hvað það væri mikilvægt að lifa fyrir daginn í dag, þar sem lífið væri svo stutt. Eða eins og ein orðaði það "mánudagur, föstudagur, mánudagur, föstudagur og jól". Daganir þjóta framhjá og mitt mottó er því að gera alltaf eitthvað nýtt eða öðruvísi á hverjum degi og muna að njóta dagsins í dag. Ekki hugsa um hvað gerðist í gær eða hlakka til yfir því sem gerist á morgun. Hvað gerði ég svo örðuvísi í dag? Ég keyrði foreldra mína út á flugvöll, fór í rúmfatalagerinn og dreif mig í leikf...

Sund og grasekkja

Kíkti á nýju sundlaugina í Mosfellsbæ í dag með vinkonu minni og syni hennar og á örugglega eftir að fara þangað aftur. Fínasta aðstaða fyrir barnafólk og fullt af rennibrautum þó svo að einkasonurinn hafi aðeins þorað að fara í þá minnstu sem var í barnalauginn þá grunar mig að það sé ekki langt í það að hann prófi stærri rennibrautir. Annars er ég grasekkja þessa helgina þar sem eiginmaðurinn fór í golfferð sem er reyndar með styttra mót þetta árið. Frétti af honum þar sem hann var nýbúinn að spila 18 holur í grenjandi rigningu.

Klaustur

Gleymdi alveg að minnast á einn helsta viðburð síðustu vikna. Það var frábært á Kirkjubæjarklaustri. Nokkrar myndir hér að neðan og fleiri myndir hér .

Tíminn flýgur

Það hrjáir mig blöggleti en það er svo sem allt í lagi þar sem ég blögga nú bara þegar ég er í stuði til þess eins og síðustu ár sýna, hef verið langduglegust á þessu ári. Hinsvegar finnst mér ótrúlegt að það sé komið haust, er eiginlega ekki kominn í haustgírinn. Ætli ég sé ekki alltaf að bíða eftir sumarfríinu sem fór nú fyrir ofan garð og neðan þetta sumarið. Jæja, ég fæ smá sumaruppbót í nóvember. Það er þó nokkuð ljóst að það er komið haust, brjálað að gera í vinnunni, eins og líklega alltaf en einhvern veginn verður pressan meiri á haustin og ég er rétt að fatta það núna. Einkasonurinn er ekki orðinn þriggja ára en samt er prógrammið að fyllast hjá honum; íþróttaskóli á miðvikudögum og sundámskeið á fimmtudögum. Og svo er orðið dimmt klukkan níu, já það er komið haust og mér finnst það frekar notalegt.

Afmæli og ferðalag

Ég átti afmæli í gær og varð árinu eldri. Þetta var nú þokkalega skemmtilegur afmælisdagur, með tvöfaldri afmælisveislu í vinnunni þar sem ein samstarfskona mín á afmæli sama dag og ég. Ég hætti svo snemma í vinnunni og svo héldu hátíðarhöldin áfram þegar heim var komið, langt fram á kvöld. Takk kærlega fyrir allar afmæliskveðjurnar, þakka einnig öllum sem komu og áttu með mér skemmtilega kvöldstund og takk kærlega fyrir pakkana en ég fékk óumbeðna hjálp við að opna þá frá einkasyninum en hann var viss um að í hverjum einasta pakka væri bíll. Er á leiðinni til Kirkjubæjarklausturs snemma í fyrramálið og hlakka bara nokkuð til.

Klipping

Fór í klippingu í dag sem er nú ekki frásögu færandi en þá fór ég að hugsa hvað klipping hefur hækkað mikið undanfarið og að þetta sé nú eiginlega bara orðið munaðarvara að fara á fína stofu í klippingu og strípur. Ég fór reyndar ekki á dýra stofu í dag og bara í klippingu en náði þó að eyða um fimm þúsund krónum með því að kaupa einnig eina hárvöru. Á hinn bóginn var mér bent á það að ég eyðin nú ekki miklum pening í áfengi, sígarettur og leigubíla. Æ, ég hugsa að best sé að eyða þessum peningum í hárið á mér enda hafið þið ekki séð hvernig ég lít út á morgnanna þegar ég vakna, hahahahaah!!!!

Sögur af afkvæminu

Við einkasonurinn fórum í göngutúr í dag í góða veðrinu og rákumst þá á sveppi sem voru að sögn einkasonarins "ógilegir". Hann var frekar smeikur við þá og vildi taka stóran sveig fram hjá. Hins vegar var hann alveg viss um að í sveppunum bjuggu Strumpar. Þetta var bara svo sætt. Það var nú líka ágætt að fá svona gott veður, svona nokkurs konar framlengingu á sumrinu sem er líklega alveg að verða búið.

Í flugvélinni

Amma hans Kristófers Óla var að koma heim í gær eftir að hafa dvalið viku erlendis. Við vorum búinn að segja honum frá því að amma kæmi heim þann daginn í flugvélinni. Við vorum svo að koma úr í Bónus seinnipartinn þegar amma hans var nýkomin heim. Allt í einu öskar barnið: "þarna er amma, þarna er amma". Við lítum í kringum okkur en komum ekki auga á ömmu hans þá sjáum við hvar hann bendir á flugvél sem var að fljúga yfir okkur. Já, maður er nú ekki svo vitlaus.

Plantað í Heiðmörk

Við einkasonurinn fórum í Heiðmörk í dag með nokkrum vinnufélögum að lundi fyrirtækisins og plöntuðum nokkrum plöntum; lerki, birki og furu. Ég var þó mest í því að hlaupa á eftir einkasyninum. Það var mjög gaman og við vorum þarna í um tvo tíma, að planta trjám, labba uppá hóla og týna bláber upp í okkur. Starfsmannafélagið kom meira að segja með borð og stóla og glæsilegar veitingar. Að lokum fékk einkasonurinn nóg og akraði af stað að bílastæðinu og ég rétt náði honum þegar hann var kominn að bílnum okkar. Eins gott að drífa sig og taka saman draslið þegar yfirvaldið á heimilinu segir að það sé kominn heimferðartími. Hugurinn var þó hjá vinkonu minni sem fylgdi ömmu sinni til grafar í dag. Skrítið þegar maður á ekki lengur neina ömmu eða afa og foreldrar manns eru teknir við því hlutverki. Ég kynntist öfum mínum nú ekki mikið en sakna þess ennþá að geta ekki farið og heimsótt ömmur mínar og spurt þær um gátur lífsins.

Ágústkvöld

Ég held alltaf uppá ágústkvöldin. Þá er tekið að rökkva svolítið og orðið dimmt áður en maður fer að sofa. Finnst spennandi að geta kveikt á kertum í rökkrinu og það er samt frekar hlýtt úti, og ég fæ ákveðna tilfinningu sem erfitt er að skilgreina. Það er líka allt eitthvað svo rómantískt. Ætli það hafi ekki einnig eitthvað með það að gera að ég er fædd í lok ágúst en mér finnst þetta oft vera kjörinn tími uppgjörs þar sem hægt erð að klára eitthvað sem hefur lengi staðið til, byrja á einhverju nýju og skipuleggja eitthvað spennandi. Ég ætla sko að gera allt þetta, mér verður nefnilega ýmislegt úr verki á ágústkvöldum. Síðan er haustið, uppáhaldsárstíðin mín handan við hornið.

Á bókasafnið

Við keyrðum framhjá bókasafninu um daginn og einkasonurinn bað um að fá að fara þangað. Ég lofaði honum því að fara daginn eftir þegar hann væri búinn í leikskólanum. Það fyrsta sem hann spurði þegar ég kom og sótti hann á leikskólann daginn eftir var hvort við ætluðum ekki á bókasafnið. Já, barnið er með stálminni þegar kemur að loforðum. Eins gott að standa við það sem lofað er. Við skelltum okkur því á bókasafnið og tókum nýjar bækur til að lesa fyrir svefninn í raun bæði fyrir foreldrana og soninn. Nú höfum við skipst á að lesa fyrir einkasoninn Snuðru og Tuðru og Stafakarlana og fær hann aldrei nóg af þeim. Við skellum okkur svo aftur á bókasafnið þegar öllum langar í nýjar bækur til að lesa á kvöldin.

Reykjavíkurmaraþon

Skellti mér niður í bæ í morgun til að fylgjast með mínu fólki hlaupa 10 km í Reykjavíkurmaraþoni. Óska þeim bara innilega til hamingju með áfangann enda náðu þau glæslilegum tíma. Ætli það hafi nokkuð verið hægt að vera betra veður og það var hin besta skemmtun hjá mér og einkasyninum að standa við hlaupabrautina og hvetja fólki áfram.

Stutt vinnuvika

Þá er fyrsti vinnudagurinn liðinn og ég er bara voða þreytt. Það er nokkuð ljóst að ég er ennþá að jafna mig eftir veikindin. Ágætt að það er kominn helgi. Einkasonurinn grét eins og stunginn grís þegar við skildum hann eftir í leikskólanum í morgun og hann var voða glaður að sjá mig, kappaði mér allri og knúsaði þegar ég kom að sækja hann. Það er nefnilega líka erfitt að byrja í leikskólanum eftir sumarfrí. Kristófer Óli fékk núna að horfa á spólu strax eftir leikskólanns sem gerist ekki oft en móðirin er of þreytt til að fara í göngutúr eða leika sér með bíla, en samt ekki of þreytt til að vera í tölvunni. Hann er að horfa Söngvaborg eða Sigurborg eins og hann kallar það. Er voða spenntur yfir öllum barnalögum núna og á leiðinni í sumarfríinu okkar hlustuðum við t.d. 100x á lagið og söguna um Sælgætisland með Glám og Skrám .

Vinna á morgun

Já, það er bara komið að því. Sumarfrí mínu sem ætti kannski frekar að kallast veikindafrí er lokið. Á morgun byrja ég aftur að vinna eftir um fjögurra vikna sumarfrí, þar af a.m.k. tvær vikur rúmliggjandi og hinar tvær vikurnar meira og minna slöpp. Það er svo sem ágætt að fara að vinna aftur, þá byrjar rútínan og ég get farið að hlakka til að fara aftur í frí. Lofa samt að lifa fyrir daginn í dag.

Hvert fór sumarið?

Ég skil ekki alveg hvert sumarið fór en nú er ágúst hálfnaður og ég er bara ekki frá því að haustið sé handan við hornið. Þá fara skemmtilegir tímar í hönd, fljótlega afmæli og svo finnst mér nú haustið líka alltaf eitthvað svo þægileg árstíð. Haustið er eiginlega uppáhaldsárstíðin því maður vill ekki að það taki enda og reynir að njóta hvers dags til hins ítrasta.

Ekki drasl

Við erum að reyna að kenna tveggja ára barninu okkar að taka til í herberginu sínu og höfum því meðvitað ekki lagað til þegar hann er sofnaður. Frekar fáum við hann til að hjálpa okkur við það. Það hefur kannski ekki alveg komist til skila ennþá hvernig það er gert eða hvað er álitið drasl og hvað ekki. Draslþröskuldurinn hans er greinilega aðeins hærri en okkar. Nú er herbergið hans alveg á hvolfi og amma hans kom í heimsókn í kvöld og þá átti eftirfarandi samtal sér stað: Amma: "Er drasl í herberginu þínu?" Kristófer Óli: "Nei, bara dót og bílar. " Er hægt að svara þessu?

Framlengt frí vegna veikinda

Jæja, kominn á annan lyfjakúrinn á rétt innan við þremur vikum. Núna ætla ég bara að njóta þess að vera í fríi þessa þrjá daga sem ég á eftir af Nota bene framlengdu fríi vegna veikinda. Hefði átt að byrja að vinna í dag en var veik í dag og fyrir löngu búinn að ákveða að framlengja fríið mitt aðeins. Þarf reyndar að fara aðeins upp í vinnu á morgun en fríinu mínu líkur formlega á föstudaginn þegar ég mæti galvösk til vinnu. Ég segi nú bara eins gott að ég var búinn að ákveða að taka mér vetrarfrí annars hefði verið eitthvað lítið um frí í ár þar sem ég er búinn að vera meira og minna veik frá því á öðrum frídeginum mínum. Alltaf gaman að vera í Pollýönnuleik og ég sé fram á bjartari tíma.

Göturnar í lífi mínu

Var að lesa færslu hjá fyrrverandi samstarfskonu minni og fór þá að velta fyrir mér götunum í lífi mínu, eftir smá stund að telja þær upp í huganum gafst ég upp og sá fram á að best væri að setja þær niður skriflega svo að ég myndi ekki gleyma neinu. Þinghólsbraut, Kópavogur - 1973: Bjó fyrsta árið í litlu húsi sem er fyrir löngu búið að rífa. Amma mín og afi byrjuðu sinn búskap þar en voru flutt úr því þegar ég bjó þar. Reynihvammur, Kópavogur - 1974 til1978: Var ennþá Kópavogsbúi en man ekki mikið eftir því. Man þó eftir því að ég fékk kartöflu í skóinn þar og þar átti ég líka minn fyrsta og eina páfagauk sem dó og var víst jarðaður á flugvellinum en einhverra hluta vegna mátti ég ekki fara og sjá hvar það var. Mávahlíð, Reykjavík - 1978 til 1979: Eignaðist lítinn bróður og hóf skólagöngu mína í Ísaksskóla. Man að strákurinn fyrir ofan okkur átti svakalegan flottan legokastala. Miðvangur, Hafnarfjörður - 1979 til 1980: Helstu minningarnar eru þegar ég reif glænýjan joggingalla í hr...

Kominn heim

Sumarfríið styttist að eins í annan endann vegna veikinda, það eru sem sagt 2/3 fjölskyldunnar búinn að taka út veikindi í sumarfríinu. Þetta verður því þekkt sem veikindasumarfríið mikla 2007. Þegar heilsan var sem best skemmtum við okkur vel og sumarfríð stóð sko alveg undir nafni og við gerðum allt sem skemmtilegt er að gera í sumarfríinu. En myndir segja meira en 1000 orð. Við... ...fengum góða gesti ...borðuðum góðan mat ...fórum í siglingu, þar sem sumir urðu sjóveikir ...heimsóttum nýja staði, þ.á.m. Flatey ...fórum í fjöruferð ...og héngum í pottinnum daginn út og daginn inn