Við keyrðum framhjá bókasafninu um daginn og einkasonurinn bað um að fá að fara þangað. Ég lofaði honum því að fara daginn eftir þegar hann væri búinn í leikskólanum. Það fyrsta sem hann spurði þegar ég kom og sótti hann á leikskólann daginn eftir var hvort við ætluðum ekki á bókasafnið. Já, barnið er með stálminni þegar kemur að loforðum. Eins gott að standa við það sem lofað er. Við skelltum okkur því á bókasafnið og tókum nýjar bækur til að lesa fyrir svefninn í raun bæði fyrir foreldrana og soninn. Nú höfum við skipst á að lesa fyrir einkasoninn Snuðru og Tuðru og Stafakarlana og fær hann aldrei nóg af þeim. Við skellum okkur svo aftur á bókasafnið þegar öllum langar í nýjar bækur til að lesa á kvöldin.
Í dag eru þrjú ár síðan ég átti einkasoninn, já ótrúlega fljótt að líða. Að sjálfsögðu er ég eins og flestar mæður og segi það hiklaust að þetta sé stærsta upplifun lífsins og besta og mesta afrek sem ég hef gert. Á þessum tíma fyrir þremur árum var ég búin að vera með hríðir í rúmlega sólahring og búið að sprengja belginn, komin með dripp í æð og ljósmóðirin sem var að fara að vakt var hálf svekkt yfir því að þurfa að fara þar sem hún var viss um að barnið væri að koma. Hann leit dagsins ljós sex tímum seinna.
Ummæli
Magga frænka