Við einkasonurinn bökuðum nokkrar piparkökur í dag, svona frekar uppá sportið en að borða þær. Einkasonurinn er upprennandi piparkökudrengur og tók baksturinn aðeins alvarlegra en móðir hans. Hafði miklar áhyggjur af því þegar hún skrapp aðeins úr eldhúsinu og enginn var til að fylgjast með piparkökunum í ofninum. Kristófer Óla finnst nú samt piparkökur óskaplega góðar og að hans mati eru sko engin jól án þess að það séu piparkökur. Við fórum um daginn í heimsókn til vinkonu minnar og þar komst hann í piparkökuskál. Nokkrum dögum seinna vorum við að keyra heim og þá sagði einkasonurinn eitthvað á þessa leið "Mamma, eigum við ekki að hafa svona jólaskraut og piparkökur eins og hjá Gunnhildi, það er svo jólalegt".
Í dag eru þrjú ár síðan ég átti einkasoninn, já ótrúlega fljótt að líða. Að sjálfsögðu er ég eins og flestar mæður og segi það hiklaust að þetta sé stærsta upplifun lífsins og besta og mesta afrek sem ég hef gert. Á þessum tíma fyrir þremur árum var ég búin að vera með hríðir í rúmlega sólahring og búið að sprengja belginn, komin með dripp í æð og ljósmóðirin sem var að fara að vakt var hálf svekkt yfir því að þurfa að fara þar sem hún var viss um að barnið væri að koma. Hann leit dagsins ljós sex tímum seinna.
Ummæli