Í gærkvöldi fór ég út að borða og í bíó með vinkonu minni sem kærkomin tilbreyting og mjög skemmtilegt. Reyndar var svolítið fyndið að við höfðum ætlað okkur að sjá allt aðra mynd í bíó en þegar í bíóið var komið tókum við alveg svakalega áhættu og prófuðum að fara á mynd sem við vissum ekkert um. Ég hélt fyrst að við hefðum gert algjör mistök þar sem fyrstu atriði myndarinnar eru frekar ógeðsleg en skipti fljótlega um skoðun og þetta var góð mynd og ég get alveg mælt með henni. Fór út af myndinn hugsandi hvað ég hefði það nú gott.
Í dag eru þrjú ár síðan ég átti einkasoninn, já ótrúlega fljótt að líða. Að sjálfsögðu er ég eins og flestar mæður og segi það hiklaust að þetta sé stærsta upplifun lífsins og besta og mesta afrek sem ég hef gert. Á þessum tíma fyrir þremur árum var ég búin að vera með hríðir í rúmlega sólahring og búið að sprengja belginn, komin með dripp í æð og ljósmóðirin sem var að fara að vakt var hálf svekkt yfir því að þurfa að fara þar sem hún var viss um að barnið væri að koma. Hann leit dagsins ljós sex tímum seinna.
Ummæli