Fara í aðalinnihald

Göturnar í lífi mínu

Var að lesa færslu hjá fyrrverandi samstarfskonu minni og fór þá að velta fyrir mér götunum í lífi mínu, eftir smá stund að telja þær upp í huganum gafst ég upp og sá fram á að best væri að setja þær niður skriflega svo að ég myndi ekki gleyma neinu.

Þinghólsbraut, Kópavogur - 1973: Bjó fyrsta árið í litlu húsi sem er fyrir löngu búið að rífa. Amma mín og afi byrjuðu sinn búskap þar en voru flutt úr því þegar ég bjó þar.

Reynihvammur, Kópavogur - 1974 til1978: Var ennþá Kópavogsbúi en man ekki mikið eftir því. Man þó eftir því að ég fékk kartöflu í skóinn þar og þar átti ég líka minn fyrsta og eina páfagauk sem dó og var víst jarðaður á flugvellinum en einhverra hluta vegna mátti ég ekki fara og sjá hvar það var.

Mávahlíð, Reykjavík - 1978 til 1979: Eignaðist lítinn bróður og hóf skólagöngu mína í Ísaksskóla. Man að strákurinn fyrir ofan okkur átti svakalegan flottan legokastala.

Miðvangur, Hafnarfjörður - 1979 til 1980: Helstu minningarnar eru þegar ég reif glænýjan joggingalla í hrauninu og fékk gat á hausinn þegar einhver villingur henti stærðarinnar hnullungi í hausinn á mér.

Hléskógar, Reykjavík - 1980 til 1982: Fékk hlaupabóluna í annað skiptið og við eignuðumst hund sem nefndur var Týri. Hann var svo sendur í sveit til Hveragerðis, hvað sem það nú þýðir.

Sunnubraut, Kópavogur - 1982 til 1983: Kominn aftur í Kópavoginn og í næsta nágrenni við hænsnahús fjölskyldunnar. Amma og afi áttu þetta hús en bjuggu þá í nýju húsi við Skjólbrautina sem afi byggði, vissi þó ekki að þarna átti ég eftir eyða þó nokkrum tíma seinna meir. Mamma og pabbi prófðuðu að reka þarna gistihús en það varð ekki langlíft.

Stóragerði, Hvolsvöllur - 1983 til 1984: Pabbi fékk vinnu við sitt hæfi í Húsasmiðju KR á Hvolsvelli þannig að öll fjölskyldan flutti búferlum austur fyrir fjall og leigðum kennarabústað í eitt ár. Vissum ekki að við ættum eftir að eyða mörgum árum í viðbót í sveitinni.

Hvolsvegur, Hvolsvöllur - 1984 til 1997: Foreldrar mínir keyptu sér hús á Hvolsvelli og gerðu það upp sjálf frá A-Ö. Ætli ég hafi ekki fengið dálæti á gömlum húsum á þeim tíma. Alltaf eitthvað nýtt og spennandi að gerast. Við bjuggum við þau forréttindi að alast upp í litlu þorpi þar sem allt er einhvernveginn miklu einfaldara. Allir hittast heima í hádeginu og stutt er í allt. Þegar ég varð eldri eyddi ég þó alltaf meiri og meiri tíma í höfuðborginni.

Sunnubraut, Kópavogur - 1989 til 1997: Ég ákvað að fara til Reykjavíkur í framhaldsskóla og flutti því á vissan hátt að heiman 16 ára. Ég fékk að búa í stóru húsi hjá ömmu minni þar sem einu sinni bjuggu 15 börn, amma og afi. Ég tel það hafa verið forréttindi að fá að kynnast henni svona vel. Bjó meira og minna hjá henni öll mín skólaár með þó með nokkrum hléum. Frænkur mínar bjuggu líka þarna þannig að manni leiddist aldrei og einhvern veginn hafði maður allan félagsskap sem maður þurfti heima hjá sér. Það gerði það að verkum að ég kynntist ekki samnemendum mínum í framhaldsskólma mjög vel. Það var bara svo gaman heima hjá ömmu.

Playa de el Ropido 30, Boadilla del Monte, Madrid - 1994: Bjó í hálft ár í úthverfi Madrid á Spáni sem Au-Pair. Ótrúlega þroskandi, mjög erfitt en líka skemmtilegt en ég verð þó að segja að sunnudagarnir hafi verið skemmtilegastir, þegar ég átti frí. Ferðaðist þó nokkuð um Spán en hef ekki komið þangað aftur frá því 1994. Þarf víst að drífa mig í ferðalag.

Hjarðarhagi, Reykjavík - 1994 til 1995: Við systkynin leigðum okkur íbúð með aðstoð foreldranna þennan vetur. Ég hóf nám mitt í háskólanum og bróðir minn í menntaskóla. Var stundum í tímum í húsi sem var á móti íbúðinni og því ekki langt að fara í skólann sem mér fannst bara æði. Bróðir minn lenti þó í kennaraverkfalli þannig að ég var oft ein í íbúðinni. Lilju myrkfælnu fannst það ekki spennandi.

Álftamýri, Reykjavík - 1997 til 1998: Þegar þarna kom við sögu var ég búinn að kynnast tilvonandi eiginmanni mínum og foreldrar mínir nýfluttir aftur til Reykjavíkur. Við leigðum eitt herbergi í íbúðinni hjá foreldrum mínum á meðan við vorum að safna okkur fyrir Danmerkurferð. Hélt að það væri miklu verra að búa við Kringlumýrarbrautina en þetta var þægilegur staður og stutt í alla þjónustu.

Vestervold, Randers - 1998: Bjó í þrjá mánuði með tilvonandi eiginmanni í Randers í Danmörku á 5. hæð með engum stiga. Einn nágranni okkar, ungur strákur sem var greinilega í ástarsorg en hann spilaði lagið Truly Madly Deeply með Savage Garden á hæðsta daginn út og daginn inn. Fannst mjög fallegt í Randers og það var stutt í miðbæinn frá íbúðinni. Komst seinna að því að Randers er einn mesti dóp- og glæpabær í Danmörku.

Skejbyparken, Århus - 1998 til 2001: Við fengum loksins inn á stúdentagörðum í Århus og fluttum þangað um leið og við gátum. Í þessum 30 fermetrum reyndi fyrst á búskap okkar og í hverjum mánuði löbbuðum við í Ikea og keyptum eitthvað sætt í búið, mér varð að orði í hvert skipti að það væri bara að verða nokkuð heimilislegt. Þarna kynntist ég tilvonandi mákonu minni, dönsku samfélagi, lærði í dönskum skóla og gifti mig.

Hörgatún, Garðabær - 2002: Við fengum að búa í rúmlega fjóra mánuði hjá foreldrum mínum þegar við fluttum heim frá Danmörku. Vorum að leita okkur að vinnu og íbúð.

Holtsgata, Reykjavík -2002 til 2005: Keyptum okkar fyrstu íbúð í Vesturbænum og ég sé ennþá eftir henni þó ég sakni ekki nágrannans, sjómanns sem hélt partý á virkum dögum fram til kl. 6.00. Lítil tæplega 50 fermetra kjallaraíbúð sem við gerðum upp frá A-Ö með hjálp frá foreldrum mínum. Áttum þarna frábæran tíma, stutt í allt og þar eignaðist ég einkasoninn.

Kjarrhólmi, Kópavogur - 2005 til???: Við tókum þátt í lífsgæðakapphlaupinu og stækkuðum við okkur þar sem fjölskyldan hafði stækkað og orðið nokkuð þröngt í litlu íbúðinni enda voru lán á hverju strái. Toppurinn var auðvitað 9 fermetra geymsla sem var nokkur breyting frá þeim hálfum fermetra sem við höfðum áður og já, geymslan er orðinn full. Hefði aldrei trúað því hvað það er rólegt og gott að búa hérna með Fossvogsdalinn alveg við dyrnar og ekki spillir útsýnið fyrir. Svo er ég loksins orðinn Kópavogsbúi aftur eins og ég á kyn til.

Þetta er orðin nokkuð löng færsla með alltof mörgum götum og ég hef örugglega gleymt einhverju, ég læt þó numið hér. Hvet ykkur til að skrifa niður göturnar í ykkar lífi.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Þrjú ár

Í dag eru þrjú ár síðan ég átti einkasoninn, já ótrúlega fljótt að líða. Að sjálfsögðu er ég eins og flestar mæður og segi það hiklaust að þetta sé stærsta upplifun lífsins og besta og mesta afrek sem ég hef gert. Á þessum tíma fyrir þremur árum var ég búin að vera með hríðir í rúmlega sólahring og búið að sprengja belginn, komin með dripp í æð og ljósmóðirin sem var að fara að vakt var hálf svekkt yfir því að þurfa að fara þar sem hún var viss um að barnið væri að koma. Hann leit dagsins ljós sex tímum seinna.

Níu dagar

Það eru níu dagar þangað til að ég fer til Florida og ég er sko fyrir löngu byrjuð að telja niður. Það verður ágætt að yfirgefa þetta verður og fara í sólina í Orlando, Florida. Ég get ekki beðið...

Mikilvægasta heimilistækið

Við endurnýjuðum mikilvægasta heimilistækið í dag eftir miklar vangaveltur um hvort það borgaði sig því okkur fannst það heldur dýrt. Hinsvegar ef maður skoðar tölfræðina og kr/notkun þá mætti segja að þetta heimilistæki sé alveg peningana virði. Á þessu heimili er þetta heimilistæki notað daglega. Gamla útgáfan var orðinn úr sér gengin eftir margra ára notkun og misgóða meðferð. Allir fjölskyldumeðlimir nota þetta heimilistæki og það er stöðug barátta um yfirráð á því og eins og algengt er, vinnur oftast sá frekasti. Spurning dagsins er því, hvaða heimilistæki er hér verið að lýsa? Ég þreytist seint á að segja sögur af einkasyninum og í dag fór hann með okkur að velja heimilistækið. Í búðinni rakst hann á ísskáp og opnaði hann og sagði svo "enginn matur" og hrissti hausinn og fannst lítið varið þannig ísskáp.