Undur og stórmerki gerðust í hólmanum í dag. Húsfrúin bakaði pönnukökur í morgun en það hef ég ekki gert í mörg ár ef ekki áratugi. Einkasonurinn bað móður sína um að baka pönnukökur, var reyndar með einhverjar hugmyndir um að kasta þeim upp í loft eins og Lína langsokkur en mér tókst að skjóta mér undan því. Pönnukökubaksturinn tókst ótrúlega vel þó ég segi sjálf frá. Reyndar voru þær alltof þykkar þannig að húsmæður sjöunda áratugarins hefðu skammast sín fyrir þær pönnukökur. Ég er hinsvegar húsmóðir á nýju árþúsundi og hrikalega stollt yfir því að takast að baka nokkrar pönnukökur þó svo að þær væru þykkar og já nokkrar voru í dekkri kantinum. Hins vegar gæti verið að ég þurfi að endurskoða ákvörðun mína því við erum ekki búinn að borða eina pönnuköku af þeim sem ég bakaði. Einkasonurinn smakkaði eina pönnuköku en kláraði hana ekki og ég hef nú reyndar aldrei verið neitt sérstaklega hrifin af pönnukökum þannig að ég er ekki búinn að fá mér neina. Sjáum til hvað gerist þegar húsbóndinn kemur heim.
Í dag eru þrjú ár síðan ég átti einkasoninn, já ótrúlega fljótt að líða. Að sjálfsögðu er ég eins og flestar mæður og segi það hiklaust að þetta sé stærsta upplifun lífsins og besta og mesta afrek sem ég hef gert. Á þessum tíma fyrir þremur árum var ég búin að vera með hríðir í rúmlega sólahring og búið að sprengja belginn, komin með dripp í æð og ljósmóðirin sem var að fara að vakt var hálf svekkt yfir því að þurfa að fara þar sem hún var viss um að barnið væri að koma. Hann leit dagsins ljós sex tímum seinna.
Ummæli