Fara í aðalinnihald

Færslur

Sýnir færslur frá 2006

Spilakvöld

Þetta verður líklega síðasta blöggið á árinu enda fer hver að verða síðastur. Spilakvöld hjá tengdafjölskyldunni í gær en ég vann ekki neitt. Mér var svo sem sama þar sem mér finnst bara svo gaman að spila, skiptir ekki alltaf máli hvort maður vinnur þó það sé auðvitað líka skemmtilegt. Minnir mig á spilakvöldin á Sunnubrautinni forðum daga, við gátum spilað og spilað og spilað allt kvöldið, kvöld eftir kvöld. Það var skemmtilegt. Sú kjaftasaga komst þó á kreik að tvíeykið í vist LBK & SYO hefði svindlað eitthvað, en svo að allir séu með það á hreinu. NEI - við svindluðum ekki.

Flugeldasýning

Fékk þessa snilldarhugmynd kl. 19.30 í kvöld þegar við vorum í miðjum klíðum að borða kvöldmatinn að kíkja á flugeldasýninguna við Perluna kl. 20.00. Litla fjölskyldan dreif sig í útigallan og út. Við vorum komin kl. 20.01 í Sæbólshverfið í Kópavoginum á móti Fossvogskirkjugarði. Við löbbuðum niður að sjó og skemmtum okkur við að horfa á flugeldana. Einkasonurinn var ekkert hræddur við flugeldana en öskraði bara váááááá með reglulegu millibili, sama og við hugsuðum með reglulegu millibili. Gaman, gaman.

Útsölur

Nú fer hver að verða síðastur að skipta gjöfum sem þeir fengu í jólagjöf enda útsölurnar að byrja. Debenhams byrjaði í dag og Hagkaup á morgun. Ég ætla að reyna að fara á útsölur en ætli það verði ekki eins og síðustu ár þegar ég var loksins búinn að mana mig upp í að drífa mig á útsölurnar þá voru þær bara flest allar búnar og eitthvað drasl til á hinum sem eftir voru, best að drífa sig á morgun.

Jólin gerð upp

Jólin voru með besta móti í ár. Jafnvel þó að ég væri fyrir löngu búinn að kaupa flestar gjafirnar þá var allt á síðustu stundu eins og sönnum Íslendingi sæmir. Kláraði að pakka inn síðustu jólagjöfunum á aðfangadagsmorgunn. Það er nú bara eins og gengur og gerist. Jólagjafirnar voru líka skemmtilegar að vanda, fékk m.a. kerti, aðventukrans , glös , aveda sjampó o.fl., rjómasprautu , náttföt, æfingabuxur, DVD Sex & the city First Season, Kitchen aid hrærivél , kaffivél, bók frá vinnunni sem er ætluð gömlu liði yfir fimmtugt og fleira. Við erum svo búinn að fara í nokkur jólaboð og ennþá eftir að fara í nokkur. Fórum m.a. í eitt í kvöld þar sem jólasveinninn var frábær. En þá er það bara vinna á morgun...

Gleðileg jól

Óska öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Vona að þið njótið jólanna eins vel og ég ætla að gera. Jólakveðja, Lilja Bjarklind.

Að kyssa jólasvein

Einkasonurinn sem er tveggja ára sagði við mig í dag "mamma dú kyssa ólaein" en hann var búinn að syngja hin og þessi jólalög í morgun og eitt af því var "Ég sá mömmu kyssa jólasvein". Svo var hann reyndar kominn á það að hann ætlað líka að kyssa jólasvein. Horfði í gærkvöldi á sjónvarpsþáttinn Ísland í dag og sá þá að það var verið að ræða um jólalögin og hvað þau gæti verið misvísandi, kanna sem stendur á stól og gildur stafur í staðinn fyrir gylltan staf. Þetta var einmitt umræðuefni á kaffistofunni fyrir nokkrum dögum. Áhugaverð umræða en niðurstaðan var sú sama og í sjónvarpinu í gær að best væri að halda sig við það sem maður lærði í æsku og jú ef ég spáði ekki eitthvað í það af hverju mamma væri eiginlega að kyssa jólasveininn. Ekkert skrítið að börnin ruglist eitthvað.

Jólakortin

Búinn að skrifa öll jólakort og í kvöld fórum við smá jólaljósarúnt. Þ.e. skoðuðum jólaljósin og fórum með jólakort í hús í næsta nágrenni. Þ.e.a.s. í Kópavogi, Garðabæ og Breiðholtinu. Hin jólakortin fengu á sig frímerki fyrir nokkrum dögum og fóru í póst. Jólaljósin voru flott og gott að vera búinn að losa sig við öll jólakortin. Ætli jólin séu ekki bara handan við hornið, ég væri allavega ekki hissa á því.

Hvað ertu gamall?

Greinilegt að margir í mínu lífi eiga afmæli í lok ársins, einkasonurinn, faðirinn og nú er það eiginmaðurinn. Og hvað varð hann svo gamall? Í morgun sagði ég einkasyninum frá því að pabbi hans ætti afmæli og bað hann um að óska honum til hamingju með afmælið. Hann fór fram til föður síns og óskaði honum nú ekki til hamingju með afmælið en spurði í staðinn: "Pabbi, hvað dú gamall?" og fékk svar á móti sem hann skildi ekki alveg. Hann var hinsvegar kominn með það á hreint í kvöld þegar fjölskyldan kom í afmæliskaffið, sagði öllum sem spurðu að pabbi sinn væri hundrað ára.

HNE og rör

Litlar sem engar fréttir af jólaundirbúningi en stefnt á að pakka jólapökkunum inn í kvöld. Fór hinsvegar með einkasoninn til HNE læknis (og þeir sem ekki vita hvað HNE þýðir, tja your bad luck!) í dag og hann öskraði svo mikið á biðstofunni að ég var vinsamlegast beðin um að fara með barnið fram á gang þangað til það kæmi að okkur eða ég væri búinn að róa barnið! Tókst að múta honum með nammi og inn fórum við aftur, nú er stefnan tekin á fyrstu aðgerðina og fyrstu rörin í eyrun þann 10. janúar næstkomandi. Púff!!!

Jólagjafirnar

Ég er búinn að kaupa jólagjafirnar, jibbí!!! Á reyndar eftir að pakka þeim flest öllum inn en ég hef viku í það þannig að ég vonast til að það verði ekki byrjað á því að pakka jólagjöfunum kl. 23.45 á Þorláksmessu. Held að ég hafi sjaldan eða aldrei verið búinn svona snemma að kaupa jólagjafirnar. Nú er bara að slappa af og njóta aðventunnar, skreppa í klippingu og hafa það notalegt. Við fjölskyldan fórum einnig í dag og keyptum okkur eitt stykki jólatré og nýjar alvöru seríur á jólatréð. Jólin eru því alveg að verða tilbúin hjá fjölskyldunni, enda korter í jól eða svona hér um bil.

Jólagleði

Jólagleði eða litlu jólin voru í vinnunni í dag og hepnuðust bara vel þó ég segi sjálf frá. Ég er ein af þremur sem eru í starfsmannafélaginu og sáum við um skipulagningu dagsins. Dagurinn byrjaði með því að við buðum uppá kökur og heitt súkkulaði í 10 kaffinu til að mynda smá jólastemmingu. Síðan byrjaði jólaskemmtunin kl. 16.00 en við þruftum að gera allt tilbúið áður og safna saman pökkum í jólapakkaleikinn fyrir þann tíma. Við fengum aðkeyptan mat, hljóðfæraleikara og deildum út gjöfum í pakkaleiknum. Síðan fengum við jólapakka frá vinnunni. Skemmtunin tókst virkilega vel og allri skemmtu sér konunglega, vona ég að minnsta kosti. Ég fór úr vinnunni kl. 19 og nú er ég sko þreytt.

Jólaundirbúiningur

Nóg að gera í jólaundirbúningnum og því minna um það að setjast fyrir framan tölvuna. Í gær var ég í jólakortavinnubúðum. Fór til frænku minnar og við skrifuðum saman jólakort. Klukkan tíu var ég búinn að skrifa sjö jólakort og alvega að gefast upp. Ætlaði bara heim að sofa. Sem betur fer dreif frænka mín mig áfram og um tólf leitið var ég búinn að skrifa rúmlega þrjátíu jólakort (á ca. fimmtán stykki eftir) og kom heim kl. 00.30. Geri aðrir betur. Skrapp svo í Smáralindina kl. 21.00 í kvöld til þess að kaupa litla jólagjöf fyrir jólagjafaleik á jólagleði í vinnunni á morgun. Bjóst við því að ég hefði Smáralindina svo til út af fyrir mig. Svo var nú ekki og ég þurfti að leita að bílastæði, greinilegt að jólaösin er byrjuð með stæl og ég á tvær jólagjafir eftir!

Svefntíminn

Sofnaði tvo daga í röð með einkasyninum þegar ég var að svæfa hann enda glaðvaknaði ég kl. 6.15 í morgun. Hvað gat ég gert annað en að fara á fætur og blögga aðeins. Kennir manni að svæfa barnið ekki í okkar rúmmi. Hann er reyndar voða duglegur að sofna í sínu rúmmi en fær stundum að kúra hjá okkur. Í gær var hann ekki á því að fara að sofa og kjaftaði af honum hver tuskan. Ég sagði honum að hann ætti að fara að sofa og ekki tala meira og snéri mér frá honum og hann þagnaði. Tíu eða fimmtán mínútum seinna snéri ég mér að honum aftur og þá byrjaði hann strax að kjafta aftur og hann talaði og talaði. Hann sofnaði loksins með mér eins og áður segir. Jólasveinarnir hafa kíkt til einkasonarins síðustu tvær nætur eins og hjá öllum börnum landsins. Hann er ekki alveg að fatta þetta en samt voða gaman að fylgjast með honum. Jólasveinarnir voru virkilega örlátur þessi tvö skipti og í fyrra skiptið fékk hann litla bók frá Stekkjastaur og seinna skiptið Bubba byggir spólu frá Giljagaur.

Breytingar

Við löguðum til í herberginu hans Kristófers Óla í dag. Færðum stóru hilluna hans og settum upp nýja vegghillu. Ætlunin er svo að fara í Ikea og kaupa fleiri vegghillur. Létum loksins nýja bílateppið á gólfið hjá honum sem hann fékk í afmælisgjöf því nú var miklu betra pláss fyrir það. Hann var voða ánægður með nýja teppið, bílakarlinn sjálfur. Svo sá hann sá hann gamla teppið frammi á gangi áður en við vorum búinn að ganga frá því og var skíthræddur um að við myndum taka nýja teppið og láta gamla teppið í staðinn. Nú er betra pláss fyrir meira dót hjá honum, ekki seinna vænna enda jólin handan við hornið.

Jólastress

Ég er svo feginn... að ég er búinn að kaupa allar jólagjafirnar nema þrjár. að ég er búinn að ákveða þessar þrjár jólagjafir sem ég á eftir. að ég á ekki eftir að fara í margar búðir fyrir jólinn. að ég ég er búinn að baka eina smákökutegund fyrir jólin og ætla bara að baka fleiri ef mig langar til. að ég er búinn að skreyta fyrir jólin heima hjá mér (nema jólatréð) þurfa ekki að fara út í jólastressið. Verst er þó að ég er ekki byrjuð að skrifa jólakortin. Best að byrja á þeim í kvöld.

Ekki frídagur

Ég var í fríi í vinnunni í dag en samt stoppaði ég ekki allan daginn, nema kannski í hádeginu þegar ég hitti vinkonur mínar ásmat mökum og við fengum okkur jólahlaðborð á Grand Hótel . Það var virkilega skemmtilegt. Annars er ég búinn að vera í búðum í allan dag og bara kaupa eina jólagjöf. Nú jæja, þá eru bara fjórar eftir. Fór í fimm búiðir til að leita að jólagjöf handa einkasyninum en fann ekki það sem ég var að leita að. Í morgun var svo helgileikur í leikskólanum og ég mætti auðvitað til að til að fylgjast með leiksigri einkasonarins. Hann var reyndar bara í aukahlutverki en var auðvitað stjarna dagins, að mínu mati.

Nýtt dót

Móðursystir mín gaf Kristófer Óla dót sem sonur hennar er hættur að nota þar sem hann er að sigla inn á unglingsaldurinn. M.a. er Fisher Price krani sem stendur á plastkletti, því fyglja svo vörubíll, ýta og plaststeinn. Kristófer Óli sá það fyrst á miðvikudagsmorguninnn og ég hef sjaldan séð hann svona ánægðan. Hann hefur svo varla vikið frá því síðan. Dundar sér að leika með það í tíma og ótíma. Kristófer Óli er aldeilis heppinn að fá svona skemmtilegt dót, og jú foreldranir eru líka ánægðir með hvað hann dundar sér mikið með dótið.

Jólin koma

Ég, jólabarnið sjálft er kominn í þetta voðalega jólaskap. Enda var ég að komast að því að það eru bara tvær og hálf vika til jóla þannig að það er ekki seinna vænna. Aðeins byrjuð að skreyta heima hjá mér. Allir kassarnir með jólaskrautinu eru a.m.k. komnir upp úr geymslunni og aðventuljósið komið í eldhúsgluggann. Þetta gæti ekki verið betra og ég hlakka svo til jólanna.

Tónleikar á aðventunni

Aðventan er tími tónleikahalda og framboð á tónleikum hefur sjaldan verið meira. Auglýsingar um hina og þessa tónleika tröllríða nú þjóðfélaginu og enginn er maður með mönnum nema þeir fari á tónleika á aðventunni. Ég verð að sjálfsögðu að standa undir nafni og er þegar búinn að fara á eina tónleika í gær í Neskirkju og er á leiðinni á aðra tónleika í nótt. Tónleikarnir í gær voru með kirkjukór Neskirkju sem ein samstarfskona mín syngur með. Tónleikarnir í kvöld eru afmælistónleikar Mozarts sem verða kl. 00.30. Ég er nú svolítið smeik þar sem ég er gömul húsmóðir og vön því að fara í háttin fyrir miðnætti. Ætlunin er að leggja sig núna eftir nokkrar mínútur með einkasyninum og vakana um kl. 23.00 í kvöld. Verst hvað ég verð alltaf ómöguleg þegar ég sofna svona. Vil þá helst bara sofa alla nóttina. Er ekki þeim hæfileika gædd að geta tekið mér kríu og vera endurnærð á eftir. Sjáum hvernig gengur en ég er voða spennt fyrir nóttina.

Sörur

Bakaði alveg glás af Sörum Bernhards kökum í dag ásamt frænku minni. Við vorum eins og verksmiðja og mér telst til að ég hefði grætt 13000 í dag þegar ég er búinn að draga frá efniskostnað. Mér var nefnilega sagt að gangverðið á 50 heimabökuðum sörum væri tæplega 3000 kr. Mínar Sörur eru samt ekki til sölu heldur handa mér og mínum og þeim sem nenna að koma í heimsókn. Ef þú kemur í heimsókn til mín á aðventunni þá skal ég bjóða þér uppá Söru, lofa því.

Jóla jóla jóla

Fór með nokkrum kerlingum í vinnunni og kíkti á jólamarkaðinn á Kjalarnesi. Það var mjög gaman, ekkert smá flott hús, mæli með því að kíkja þangað. Þetta var eins og að komast í nammiland fyrir jólasjúka einstaklinga eins og mig. Enda tókst mér að kaupa jólaskraut fyrir allt of mikið af peningum. Best að kaupa ekki meira jólaskraut þessi jólin.

Jólalög

Ég eyddi kvöldinu í það að setja jóladiskana mína inn í iTunes. Hlustaði á nokkur jólalög í leiðinni og ég er ekki frá því að ég sé kominn í smá jólaskap enda ekki seinna vænna, desember byrjar á morgun. Oh... hvað ég elska jólin. Ég er algjört jólabarn hlakka til jólanna á hverju ári. Ég er fyrir löngu byrjuð að skipuleggja jólakortin, skreytingar í íbúðinni og hvað ég ætla að gera skemmtilegt á aðventunni. M.a. fara á jólahlaðborð með vinkonunum, baka Sörur og kíkja á jólahúsið á Kjalarnesi svo fátt eitt sé nefnt. Er ennþá spenntari núna en síðustu jól því þetta eru fyrstu jólin þar sem einkasonurinn er að fatta út á hvað allt gengur, þ.e.a.s. pakkajól!!!

Draumaíbúðin

Draumaíbúðin mín er til sölu og ég á ekki aur. Samstarfskona mín er að selja íbúðina sína í Vogunum og ég get svarið það, þetta er draumaíbúðin mín. Alltaf þegar ég keyri í gegnum þetta hverfi þá segi ég við eiginmanninn að ég gæti vel hugsað mér að búa í þessu hverfi. Íbúðin er um 100 fermetrar í þríbýlishúsi og á besta stað. Það sem gerir útslagið er að hún er með bogaglugga. Alveg síðan ég var lítil stelpa hefur mig dreymt um að eiga íbúð með bogaglugga. Ætli maður spili ekki bara í lottó um helgina.

Leitin að piparkökuformunum

Piparkökubakstur hefur verið á dagskrá hjá okkur mæðgininum í a.m.k. hálfan mánuð. Það er fyrir löngu búið ákveða að prófa uppskriftina í kökubók Hagkaups (þögult samkomulag hjá okkur mæðgininum) og kaupa allt sem þarf að nota í þá uppskrift. Vandamálið er að móðirin á heimilinu finnur ekki piparkökuformin sem hún er viss um að hún ætti einhversstaðar. Fannst ekki taka því að kaupa ný ef formin væru til þar sem þau eru nú ekki notuð það oft. Svona til að halda sig við Pollýönnuleikinn þá hefur leitin að piparkökuformunum m.a. haft í för með sér að það hefur verið tekið upp úr kössum sem hafa staðið óhreyfðir í nokkur ár og jólahreingerningin í eldhússkápunum búinn eins og áður hefur verið sagt frá . En þrátt fyrir mikla leit sést hvorki tangur né tetur af piparkökuformunum. Næst á dagskrá er því líklega ferð í næstu búð sem selur piparkökuform til að kaupa nokkur stykki. Svo er bara að finna út hvaða búð það er!

Ljós og myrkur

Nú fer í hönd dimmasti mánuður ársins; myrkur þegar maður fer í vinnuna og myrkur þegar maður kemur heim. Þegar rigningin er eins og í dag þá er eins og dagurinn fari framhjá manni eða komi bara alls ekki neitt. En sem betur fer eru jólin að koma og þá fá flest allir Íslendingar ljósaseríuæði. Blokkinn okkar er eins og jólatré, algjörlega ósamstæð og fullt af hallærislegum jólaljósum í gluggunum. En samt yndislega jólaleg og kemur manni alltaf í gott skap á morgnanna að sjá að fleiri hafi komið upp jólaljósum frá því daginn áður. Þetta birtir heldur betur upp skammdegið og mér finnst frábært hvað allir eru duglegir að skreyta hjá sér og hvað fólk hengir upp jólaljósin á mismunandi hátt. Bíð spennt eftir morgundeginum.

Framkvæmdir

Eiginmaðurinn tók sig til og málaði bæði eldhúsið og baðið, svona til að gera eitthvað fyrir jólin eins og sönnum Íslendingi sæmir. Við vorum reyndar ekkert að breyta um lit, bæði herbergi ennþá hvít en það átti eftir að lagfæra hér og þar eftir að við fluttum inn og það var gert núna tæplega tveimur árum seinna. Svo er ætlunin að reyna að klára skápana í eldhúsinu þessir sem voru einnig eftir þegar við fluttum inn. Þó svo að það sé kannski frekar vitlaust að klára allt fyrir jólin þá er þetta ágætis pressa við það að klára hlutina og það er einmitt eitthvað sem við hjónin þurfum, að vera undir pressu til að klára hlutina. Mér var bent á að það væri betra að vera með kvef en lungnabólgu þannig að ég ætla bara að taka pollýönnu á þetta og gleðjast yfir kvefinu.

Hundrað

Hundraðasta færslan lítur nú dagsins ljós. Ætlaði að taka jólamyndirnar fyrir jólakortin af einkasyninum um helgina en honum tókst að detta á andlitið og fá sprungna vör. Við sjáum til á morgun hve bólgin vörin verður. Smá tiltektardagur í eldhússkápunum í dag. Meðal annars var ég að taka upp úr kassa sem við pökkuðum í þegar við fluttum fyrir tæplega tveimur árum síðan. Kannski þarf ég ekkert á þessu að halda sem er í kassanum. Hef ekki mikið saknað þess. Ætli lærdómurinn sé ekki sá að ég verði að læra að henda meira drasli. Hef þetta líklega frá afa mínum sem henti aldrei neinu. Fræg er orðinn sagan þegar ég var ca. 5 ára og fór á haugana sem voru nú reyndar nokkuð öðruvísi en Sopra er í dag en þá voru ruslahaugarnir bara hrúga af drasli sem var svo mokað yfir þegar hún var orðin nógu stór. Þar sá ég fullt af heillegu dóti m.a. forláta hurð sem einhver maður var að henda. Ég var heldur betur hneyksluð og náði varla andanum yfir því hvernig honum dytti í hug að henda heilli hurð og v...

Tré

Átti fimm ára brúðkaupsafmæli í dag/gær sem er kennt við tré. Tíu ár síðan við kynntumst. Einkasonurin fór því í pössun yfir nótt hjá ömmu sinni og afa. Hjónakornin fóru á Austur Indíafjelagið og sáu því næst nýjustu myndina með James Bond. Bond var betri. Vorum að koma úr bíó og ég sit hérna með tölvuna uppi í rúmmi sem er algjör draumur í dós. Skil ekki af hverju ég geri þetta ekki oftar. Verst hvað þetta er ótrúlega svæfandi......... Zzzzzzzzzzzzzzzzzzzzz

Jibbí skibbí

Fékk nýja tölvu í vinnunni í dag. Allt annað líf þegar maður er að vinna með svona stór gagnasöfn. Reyndar er "nýja" tölvan í vinnunni svipuð og tölvan sem við keyptum okkur heima fyrir um ári síðan en það er víst svona að vera ríkisstarfsmaður. Náði samt ekkert mikið að prófa nýju tölvuna, var á fundum og þess á milli að vinna í Excel en það fannst smá munur. Bíð spennt eftir því á morgun að fara í vinnuna.

Keyra varlega

Pabbi gamli á afmæli í dag en hann er tæplega tuttugu árum eldri en ég en segist alltaf vera 19 eða 29 ára. Ég óska honum enn og aftur innilega til hamingjum með daginn og eitt árið í viðbót. Skrapp í Smáralindina eftir vinnu og keypti handa honum smá afmælisgjöf . Veit ekki alveg hvernig ég á að taka því en þegar við vorum að keyra heim í dag, yfir allar hraðahindranirnar sem eru á Digranesvegi þá heyrðist í syni minum í aftursætinu; keyra varlega, keyra varlega!!!

Vinnan göfar manninn

Það skemmtilegasta við að vinna aðeins lengur er að mér tekst yfirleitt að klára eitthvað sem hefur setið lengi á hakanum og þá léttir það aðeins á verkefnunum hjá mér, a.m.k. einn dag. Það leiðinlegasta við að vinna aðeins lengur er að ég er kominn svo seint heim að ekkert verður úr kvöldinu og er bara mætt í vinnuna strax aftur áður en ég veit af. Í kvöld var ég kominn heim kl. 20.30 og þarf bráðum að fara að sofa. Svo er það bara vinnan aftur á morgun.

Mikilvægasti mánuðurinn

Nóvember er örugglega sá mánuður sem hefur skipt mestu máli í lífi mínu fram til þessa. Einkasonurinn fæddist í byrjun mánaðarins fyrir tveimur árum. Ég kynntist eiginmanni mínum í þessum mánuði og við giftum okkur einnig í nóvember. Ég útskrifaðist úr kerfisfræðinni í nóvember og svo eru bæði faðir minn og móðuramma fædd í þessum mánuði. Ég veit ekki hvort einhver stórtíðindi eigi eftir að gerast í lífi mínu þetta árið í nóvember en að minnsta kosti er stutt í jólin.

Snjór úti

Mér leist ekkert á blikuna um miðnætti í gærkvöldi, bara kominn bylur eða eitthvað í líkingu við það. Þegar við vöknuðum í morgun var auðvitað ekki hægt að komast úr botnlanganum okkar frekar enn fyrri daginn. Það háði okkur ekki í þetta skiptið þar sem við vorum ekki að fara neitt. Um hádegisbilið þegar við voru búin að horfa á þó nokkuð marga bíla festa sig fyrir utan hjá okkur kom ein lítil grafa frá bænum og fór einn rúnt svona rétt svo til að við kæmumst upp úr holunni okkar. Við nýttum okkur það og kíktum í nokkrar búðir sem voru aldrei þessu vant ekki troðfullar af fólki. Greinilegt að það nenntu ekki allir út í þetta veður, en við tókum bara Íslendinginn á þetta eins og góð vinkona mín kallaði það. Við enduðum svo ferðina hjá ameríkuförunum þar sem einkasonurinn var svo ótrúlega heppinn að hann græddi tvo poka af fötum.

Brr...

Það er heldur betur kalt í höfuðborginni og nágrenni þessa dagana. Eiginmaðurinn sagði mér í óspurðum fréttum að það hefði verið -13°C í morgun þegar hann fór í vinnunna. Við einkasonurinn erum bara búinn að vera heima fyrir hádegi á þessum kalda laugardegi. Það er reyndar búið að vera nóg að gera hjá okkur við að lita, líma límmiða inní bók og horfa á kuldann út um stofugluggann, svo ekki sé minnst á bílaleik. Brr.... æ, þá er nú gott að eiga velbyggt og hlýtt húsnæði þar sem maður getur bara hækkað ofninn og látið sig dreyma um heitara loftslag.

Skemmtilegt

Fór á Mirandas snyrtivörukynningu hjá frænku minni í kvöld. Alltaf gaman að hitta systur hennar mömmu og gaman að eyða smá peningum. Hitti þar einnig systir hennar mömmu sem býr í Noregi og var hér í smá heimsókn, langt síðan ég sá hana síðast þannig að það var skemmtilegt að hitta hana. Tókst að sjálfsögðu að eyða aðeins meira en ég ætlaði mér en ég er sátt við afrakstur kvöldsins. Verst að ég er hálfslöpp en vonandi er ég ekki að ná mér í einhverja pest.

Það er ekki leiðinilegt...

... þegar maður er að svæfa einkasoninn og hann snýr sér að manni, klappar manni á kinnina og segir: "allt í lagi, allt í lagi" svona til að passa mann aðeins. Þessir litlu hlutir gefa lífinu gildi. Það má nú taka fram að ég geri þetta oft við hann. Klappa honum ef hann er eitthvað órólegur þegar ég er að svæfa og segi allt í lagi eða svona karlinn minn. Hann sagði þetta við mig um daginn eins og ég nefndi hér í fyrradag og svo við föður sinn í kvöld. Svona lagað bætir allt annað upp.

Svitn

Það var svo mikið að gera í vinnunni í dag að ég náði eiginlega ekki að hugsa. Þurfti að klára ákveðið verkefni fyrir kl. 15.30 í dag, fara á tvo fundi, svo ekki sé talað um öll hin verkefnin sem bíða mín. Heima beið svo veikur sonur eftir mér. Mér tókst að klára verkefnið og fundina tvo en ennþá bíða hin verkefnin eins og í gær og fyrradag. Ég get ekki sagt annað en að dagurinn í dag hafi verið fljótur að líða í vinnunni, er maður þá ekki að gera eitthvað skemmtilegt?

Svefnvenjur

Einkasonurinn hefur tvö kvöld í röð reynt heldur betur á taugar foreldra sinna. Það hefur tekið rúmlega klukkutíma að svæfa hann í bæði skiptin, þannig að ekki varð mikið úr þessum kvöldum. Ætli við verðum ekki að fara að hugsa um að breyta háttatímanum og því hvernig við svæfum hann. Honum tekst nú samt alltaf að vinna sér inn nokkur prik, ég lá hjá honum áðan og dæsti eitthvað þá snéri hann sér að mér og klappaði mér á vangann og sagði allt í lagi, allt í lagi.

Sunnudagur til sælu

Lítið var gert þennan sunnudaginn annað en að sofa og éta. Við buðum foreldrum mínum í læri í hádeginu með öllu tilheyrandi. Kristófer Óla fannst það ekki leiðinlegt að fá heimsókn þar sem hann er búinn að hanga inni alla helgina veikur, bara fastir liðir eins og venjulega. Hann fer a.m.k. ekki í leikskólann á morgun. Svo tókst mér að sofna með honum eftir matinn þannig að ég er eiturhress núna og klukkan orðin rúmlega tíu, kannski ekki það gáfulegasta en engu að síður bara mér að kenna.

Flöskudagur

Gærdagurinn var aldrei þessu vant flöskudagur en ekki föstudagur. Við hittumst, hópurinn eða sviðið sem ég tilheyri (alls 7) í vinnunni heima hjá yfirmanni okkar ásamt mökum. Við elduðum og borðuðum saman og drukkum vín saman. Einnig kjöfðuðum við heilmikið og partýið endaði með því að við fórum að spila og syngja, virklega skemmtilegt og ég var ekki kominn heim fyrr en kl. 02.45 sem verður að teljast nokkuð gott hjá mér. Við vorum búin að fá pössun fyrir Kristófer Óla og með nokkrum fyrirvara en því miður komst Siggi ekki með þar sem syninum tókst að ná sér í einabólgu í gær, í annað skiptið í vetur þannig að hann var voða lítill og veikur. Siggi ákvað því að vera heima enda eins gott að hugsa um börnin fyrst maður er á annað borð að koma þeim í heiminn.

Sundnámskeið

Kristófer Óli byrjaði aftur á sundnámskeiði. Síðasta sundnámskeið var nokkuð erfitt fyrir foreldrana þar sem að Kristófer Óli var alltaf voða lítill í sér og þorði ekki að prófa neitt. Æfingarnar voru stöðug barátta og vorum við oft að því kominn að gefast upp þar sem sonurinn lét ekki að stjórn, ríghélt í okkur og vildi ekki gera neitt. Við ákváðum að halda áfram en það var samt ágætt að það voru þrjár vikur á milli sundnámskeiða. Fyrsti tíminn lofar góðu en ég ætla þó ekki að fara að vera með neinar yfirlýsingar hér. Hann gæti nú tekið upp fyrri siði en við ætlum samt ekki að gefast upp enda hefur hann gott af þessu og finnst nú yfirleitt mjög gaman í sundi!

Afmælisveislan og pakkarnir

Héldum afmælisveisu fyrir 2ja ára gutta á sunnudaginn með "stæl". Síðan þá höfum við bara verið að ná okkur niður. Mér tókst þó að fara með stóran hluta af afgöngunum í vinnuna sem runnu ljúft niður hjá samstarfsfélögunum. Kristófer Óli fékk fullt af gjöfum og þökkum við kærlega fyrir soninn. Hann var heldur betur fljótur að uppgötva þetta með pakkana. Hélt reyndar að þeir kæmu endalaust því þegar hann var búinn að opna alla pakkana, borða afmælisköku (að sjálfsögðu súkkulaði köku með rjóma) þá fór hann að leita að fleiri pökkum og labbaði um alla íbúð og sagði "hvar er pakkinn, hvar er pakkinn?"

Frænkukvöld

Hélt frænkukvöld í gærkvöldi sem tókst með endæmum vel. Reyndar hættu þrjár við á síðustu stundu en við vorum sex í allt sem var góður hópur. Að sjálfsögðu voru allt of mikið af veitingum eins og vera ber hjá frænkum mínum. Sem betur fer komu nokkrar með eitthvað og þær gátu tekið það með sér aftur. Þetta var fyrsta frænkukvöldið sem ég og Sigurborg frænka stóðu fyrir. Nú er bara að vona að einhver haldi áfram þannig að það verði haldin fleiri frænkukvöld. Ég bíð mig fram í nýtt frænkukvöld að ári liðnu.

Tveggja ára

Í dag eru tvö ár frá fæðingu einkasonarins og ég man það eins og það hefði gerst í gær. Kom í heiminn kl. 13.50 eða svona hér um bil. Voru svo mikil læti þegar hann kom loksins í heiminn að enginn mundi eftir að kíkja á klukkuna en þessi tími er svona nærri lagi. Örugglega sú mesta lífsreynsla sem ég hef orðið fyrir á ævinni var fæðingin hans enda tók hún 32 tíma. Í dag fékk hann köku í leikskólanum og svo komu ömmurnar og afarnir í mat til okkar í kvöld. Þá fékk einkasonurinn líka aðra köku og sprauturjóma. Honum fannst það ekki leiðinlegt. Tókst vel hjá honum að blása á kertin. Afmælisveislan er svo á sunnudaginn.

Kvebbi lebbi

Sonurinn var veikur alla síðustu viku og foreldrarnir eru núna veikir. Við mættum þó í vinnuna en vorum hálf tuskuleg. Ég ákvað að bíða aðeins með flensusprautuna sem var í vinnunni í gær og í dag þar sem það er víst ekki ráðlegt að fá flensusprautu þegar maður er veikur (eða slappur). Ég er heppinn að vinnustaður minn er með sérfræðinga sem sem sjálfir sprauta starfsmennina þannig að það verður líklega ekki þörf hjá mér að leita til heilsugæslunnar vegna flensusprautunnar. Bíð bara í nokkra daga þangað til ég hressist og tala þá við viðkomandi hjúkrunarfræðing.

Fyrsta hálkan

Fyrsta hálkan á veturna kemur öllum alltaf jafn mikið á óvart. Hún kom mér líka á óvart í morgun þó svo að ég hafi verið á ferli í gærkvöldi þegar hálkan byrjaði að myndast. Ég hef yfirleitt verið komin með nagladekkin en vegna áróðurs um að þau eyðilöggðu göturnar og gerðu ekki mikið meira gagn en vetrardekk ákvað ég að bíða aðeins og sjá til. Í morgun kl. 10.00 lagði ég svo af stað í Hafnarfjörðinn að hitta frænku mína. Við ætluðum að leyfa drengjunum okkar að leika sér saman og svo ætlaði hún að bjóða okkur uppá heimagert slátur í hádeginu. Heldur betur gott plan. Við komumst hinsvegar ekki langt. Við erum ennþá á sumardekkjunum og við búum í botnlaga. Til að komast í burtu þurfum við að keyra upp nokkuð langa og bratta brekku. Nokkrar tilraunir voru gerðar til að komast upp brekkuna en allt kom fyrir ekki við spóluðum og spóluðum. Eftir að hafa séð þrjá aðra reyna að komast upp brekkuna og ekki takast það, þ.á.m. einn Volvo leigubíl á vetrardekkjum gáfumst við upp og hringdum í bæ...

Loforð falla

Fór í Ikea í dag ásamt öllum hinum. Greinilegt er að þetta er laugardagsrúnturinn og maður er ekkert betri sjálfur. Skildi reyndar karl og barn eftir heima og dreif mig af stað með vinkonu minni. Ætlaði reyndar ekki að fara í Ikea fyrr en eftir a.m.k. einn eða tvo mánuði eftir að nýja Ikeabúin opnaði. Til að gera langa sögu stutta þá er ég búinn að vara tvisvar sinnum í Ikea á fyrsta mánuðinum og kaupa fyrir ágætis pening í bæði skiptin.

Ráðstefna

Fór á ráðstefnu í gær í vinnunni um GIS sem var mjög áhugaverð og skemmtileg. Var reyndar bara fram að hádegi, seinni part dagsins var varið í að hugsa um veikan strák. Skrítið en skemmtilegt þegar maður hittir einhvern sem maður hefur ekki hitt lengi. Hitti eina sem var með mér í landafræði og hef eiginlega ekki hitt síðan. Það var gaman að spjalla við hana en maður hefur takmarkað að tala um þegar maður hittist á nærri tíu ára fresti. Eina ráðið er kannski að hitta þetta fólk oftar.

Alltaf veikur

Einkasonurinn er alltaf veikur, mér er sagt að það fylgi fyrsta árinu hjá dagmömmu og svo fyrsta árinu á leikskólanum en var einhvern veginn ekki alveg viðbúinn þessu. Í gær vorum við kölluð úr vinnunni kl. 9.30 þar sem hann var með 38°C hita í leikskólanum. Veit ekki hvaða einkunn við fáum fyrir foreldrahlutverkið þann daginn að senda veikt barnið í leikskólann. Kristófer Óli er ennþá heima veikur, ekki mikið veikur en drulluslappur eins og ég myndi segja um mig. Að taka tennur (hiti og tannpína), með í maganum (niður), kvef og hálsbólgu (hósti og hor). Hann fer ekki í leikskólann á morgun.

Fyrsta fjarstýringin

Rætt var um sjónvarpstæki á kaffistofunni í dag. Meirihluti samstarfsfélaga minna eru kvennmenn og voru umræðurnar eftir því. Margar okkar áttu ennþá gömul sjónvarpstæki, það sem er á mínu heimili er svart en ekki silfurgrátt og við erum þriðju eigendur að því. Ein sagðist hafa átt 20 ára gamal sjónvarp með viðarkassa og fjarstýringu þangað til í fyrra. Þá minntist ég fyrstu fjarstýringarinnar á mínu heimili. Við áttum nefnilega lengi vel sjónvarp án fjarstýringar en bróðir minn hafði það fyrir sið að liggja á gólfinu fyrir framan sjónvarpið og var auðveldast að biðja hann um að skipta um stöð. Því má segja að hann hafi verið fyrsta fjarstýringin á sjónvarpi heima hjá mér, þá voru bara tvær sjónvarpsstöðvar. Þess má þó geta að hann lét ekki fjarstýra sér með mikið annað.

Búðarráp

Við hjónakornin fórum í smá búðarráp í dag þegar Kristófer Óli fékk að vera hjá ömmu sinn og afa í Grænahjalla. Fórum m.a. í Bónus, Apple búðina, Elko, Rúmfatalagerinn og Egg. Ég komst að því að mig vantar ekki neitt enda keypti ég ekki neitt. Það er aldeilis gott þegar maður "þarf" ekki að eyða peningum. Verst að það getur bara verið svo gaman.

Magapest

Fékk einhverja magapest í nótt sem endaði með því að ég fór ekki í vinnuna í dag. Hef komist að því að það er ekki gaman að vera með magapest. Er að mestu búinn að jafna mig núna en Kristófer Óli virðist vera með snert af þessu líka, auk þess sem hann er að fá jaxla. Ekki auðvelt líf hjá honum þessa dagana en hann er samt oftast í góðu skapi þessi elska.

Einn, tveir, þrír...

Það er alveg frábært að vera mamma nærri tveggja ára stráks. Hann er að læra eitthvað nýtt á hverjum degi og nú eftir að hann byrjaði í leikskólanum þá sér maður ennþá meiri þroska. Hann segir fullt af orðum og um daginn þá hjálpuðumst við að telja uppá tíu. Hann var kannski ekki með allar tölurnar á hreinu en greinilega nokkrar, átta er uppáhaldið og kemur víst fyrir oftar en einu sinni en við komumst þokkalega frá talningunni.

Tryggingar

Við fengum okkur átta milljón króna líftryggingu og sex milljón króna sjúkdómatryggingu í gær sem kostar okkur um 55 þúsund krónur á ári. Finnst alltaf jafn sorglegt að borga tryggingar, sérstaklega þegar maður getur eiginlega aldrei notað þær þegar á reynir, alltaf eitthvað smáaletur sem allt í einu kemur í ljós þegar maður þarf að nota tryggingarnar. Reyndar eru þetta tryggingar sem mig langar ekkert að láta reyna á og er mjög sátt ef ég þarf ekki að nota hana. Við fengum heimsókn frá tryggingarmanni sem tókst að selja okkur þessa tryggingar. Reyndar búið að vera á dagskrá frá því Kristófer fæddist og byrjuðum að skoða okkur um í sumar en einhvern veginn gáfum við okkur aldrei tíma til að klára málið, en það er sem sagt í höfn núna. Kristófer Óli var alls ekki sáttur við að fá ókunnan tryggingamann inn á heimili sitt og vildi ekki vera í sama herbergi og hann, rak bara upp öskur um leið og hann sá manninn. Við þurftum því að skipta okkur að hugsa um Kristófer Óla og tala við tryggin...

Djamm

Húsmóðirin á heimilinu (s.s. ég) fór á djammið í gærkvöldi og var komin heim rétt fyrir kl. 22.00. Greinilegt er að þetta er ekki gert oft því ég var bara okkuð ánægð með djammferðina. Reyndar hefði ég verið til í að fara niður í bæ en djammfélagar mínir voru búnir að fá nóg og ég var líka alveg sátt við að fara heim. Ég fór sem sagt í fimmtugsafmæli hjá samstarfskonu minni í gær sem byrjaði kl. 17.00 þannig að það er nú hægt að segja að ég hafi verið að djamma í fimm tíma. Heilsan er alveg sæmileg núna en mér leið ekki eins vel í nótt. Best að skrifa það niður svo ég muni það næst þegar farið verður á djammið, tja eftir einhverja mánuði.

Ferðalög

Betri helmingurinn og ég lögðum heldur betur land undir fót um helgina. Á laugardaginn fórum við í 15 tíma jeppaferð með vinnufélögum mínum og á sunnudaginn fórum við með tengdaforeldrunum að hitta fjölskyldu tengdamömmu í sumarbústað við Laugavatn. Jeppaferðin var hreint út sagt frábær í alla staði. Við fórum upp hjá Keldum og komum niður hjá Fljótshlíð. Stoppuðum m.a. við Hungurfit, Álftavatn og Markarfljótsgil. Svo fátt eitt sé nefnt. Að lokum borðuðum við kvöldmat á Hótel Rangá. Frábær dagur og það voru frekar þreyttir ferðalangar sem komu til Reykjavíkur kl. 23 á laugardagskvöldið.

Hjólatúr

Veðrið var yndislegt um helgina eins og það hefur verið nánast allan september. Fjölskyldudagur var á sunnudaginn og við skelltum okkur m.a. í hjólatúr um Fossvoginn. Kristófer Óli fékk nýjan hjálm í Byko, eins gott að hann dugi líka næsta sumar. Því hann var rándýr en samt á 25% afslætti. Við vorum ekki alveg að átta okkur á verðinu. Ég mæli hinsvegar eindregið með hjólatúr í haustveðrinu.

Markmið

Hef verið í allsherjar naflaskoðun síðustu daga og vikur og komist að því að nauðsynlegt er að hafa einhver markmið til að gera lífið skemmtilegra. Á að minnsta kosti við mig. Á fimm ára planinu er að klára tvær b.s. gráður, hvorki meira né minna. Klára ritgerð í landafræðinni og bæta við mig í kerfisfræðinni þannig að ég geti talið mig tölvunarfræðing. Kannski betra að hafa ennþá þröngari tímaramma og drífa í þessu. Finnst þó að ég þurfi einnig markmið sem eru annars eðlis. Hinsvegar verður maður að vera samkvæmur sjálfum sér og standa við þau markmið sem maður setur. Var minnt á þetta þegar frænka mín setti fram ágætismarkmið á blögginu sínu í dag. Ég ætla að taka hana til fyrirmyndar. Nú er bara að finna sér verðugt markmið.

Sumarbústaðaferð

Fórum í sumarbústað um helgina. Stefnan var tekin á Flúðir og vorum við þar í góðu yfirlæti í kennarabústað ásamt tengdó og systkynum eiginmannsins. Kristófer Óla fannst þetta hin besta skemmtun og skemmtilegast var að fara í pottin, það er óhætt að segja að hann hafi líklega farið oftast í pottinn, kannski ásamt föður sínum. Mér finnst alltaf gaman að komast aðeins út úr bænum og ekki er verra þegar maður getur eytt heilli helgi utan bæjarmarkanna. Þetta var skemmtileg ferð í rólegheitum, borðuðum fullt, lásum, gerðum Sudoku, kíktum í smá gönguferð, fórum í pottinn og spiluðum Sequence. Ekki skemmdi veðrið en það var eins og það gerist best á Íslandi, sól og stilla og bara nokkuð hlýtt miðað við það að það september sé að verða búinn.

Hælspori

Er búinn að vera að drepast í löppinni í örugglega tvo mánuði. Dreif mig loksins til doksa og hann sagði bara að ég væri með hælspora. Þetta væri algengt og lítið við því að gera. Jafnaði sig vonandi. Ekki var ég ánægð með að heyra það enda á ég erfitt með að stíga í fæturna á kvöldin. Ég ætla þó að reyna að þjálfa þetta eitthvað upp með kannski sundæfingum og fara út að hljóla. Finnst því miður vont að labba þannig að ég get ekki gert það sem mér finnst skemmtilegast. En það er nú eiginlega jafn skemmtilegt að synda og fara í góðan göngutúr Fór í Bláa Lónið síðasta föstudag með Nínu Brá og Gunnhildi. Það var virkilega gaman að drífa sig aðeins út úr bænum og gera eitthvað öðruvísi. Við fengum okkur meira að segja bjór í lónið sem var bara nokkuð gaman. Mörg ár síðan ég smakkaði bjór síðast. Síðan drifum við okkur í bæinn og keyptum okkur mat á Mekong, varð nú frekar fyrir vonbrigðum en samt gaman að prófa eitthvað nýtt. Best að líta á björtu hliðarnar. Fórum svo heim til Gunnhildar og...

Kósi mjósi veikur

Sonurinn sem gengur undir nafninu Kósi mjósi þessa dagana er veikur eina ferðina enn. Hann má nú varla við því hann er svo grannur greyið. Ég sit hérna heima og bíð eftir því að hann vakni. Nú er hann búinn að vera þrjár vikur á leikskólanum þar með talin vikan sem hann var í aðlögun. Hann er búinn að vera veikur í fjóra daga af þrettán. Gerir aðrir betur. Hann er nú að mestu búinn að jafna sig í þetta skiptið og á morgun er tekin stefnan á Leikskólann.

Munnræpa

Orðaforði einkasonarins eykst dag frá degi og ótrúlega mörg fyndin skot koma frá honum á hverjum degi enda drengurinn sítalandi með algjöra munnræpu. Öll orðin eru nú ekki ennþá skiljanleg fyrir alla en það lagast dag frá degi. Með þessu áframhaldi verður drengurinn orðinn nánast altalandi tveggja ára. Maður fattar það ekki alltaf að hann skilur nánast allt sem sagt er við hann og verða foreldrarnir að passa sig að segja ekki einhver óæskileg orð þar sem hann hermir eftir öllu sem sagt er núna. Í dag vorum við að fara í Garðabæinn til ömmu og afa að fá okkur Dominos pizzu með þeim. Kristófer situr í aftursætinu og segir, koma ömmu. Heim ömmu. Ég segi já við erum að fara heim til ömmu. Drengurinn svarar í aftursætinu, okey!!! Kristófer smakkaði í fyrsta skipti Dominos pizzu og borðaði næstum því tvær sneiðar. Bílar eru ennþá eitt aðaláhugamálið og á leiðinni heim sáum við steypubíl og Kristófer Óli sagði deypubrri. Foreldarnir minntust ekki þess að hafa kennt honum þetta orð en hann va...

Haust?

Byrjuð í vinnunni og það var nú bara fínt. Það sem merkilegar er að Kristófer Óli er byrjaður á leikskóla, Grænatún og hann getur meira að segja sagt nafnið sjálfur. Ótrúlegt hvað strákurinn minn er orðinn stór. Gengur bara vel og segir bara bless við okkur og fer að leika sér. En honum tókst að vera fjóra daga á leikskólanum þegar hann varð veikur og ég er núna heima með drenginn sem er með kvef, hósta og hita. Síðan er september byrjaður, ætli það sé ekki bara komið haust. Mér finnst það reyndar alveg ágætt er fyrir löngu búin að sættast við haustið og er bara ekki frá því að það sé uppáhalds árstíðin mín. Þá fer að styttast í jólin og ég er svo mikið jólabarn að ég er strax byrjuð að hugsa um þau.

Sumarfrí á enda

Kristófer Óli svaf eins og steinn í nýja rúmminu sínu og í herberginu sínu. Held að þetta hafi verið erfiðara fyrir foreldrana en hann. A.m.k. fyrir móður hans sem vaknaði örugglega fjórum sinnum um nóttina til að kíkja á hann. Föðursystir hans Kristófers Óla, sem hann kallar alltaf Göggu hæ kom í dag í heimsókn og fékk Kristófer Óla lánaðan og foreldrarnir tóku til í íbúðinni á meðan. Sér varla högg á vatni. Kristófer Óli var voða monntinn með nýja rúmmið sitt og æstist allur upp þegar hann var að sýna Göggu hæ það. Svo komu amma og afi úr Hörgatúninu með nýja dýnu í rúmmið, gæti ekki verið betra. Nú er bara að kenna drengnum að sofna sjálfum og á kopp og þá er foreldrahlutverkinu lokið, eða hvað? Annars er sumarfrí mitt á enda að þessu sinni, bara vinna á morgun. Dagurinn í dag var því bara í leti og lítið gert annað en að reyna að halda heimilinu í þokkalegu. Ég vinn reyndar ekki alla vikuna þar sem Kristófer litli Óli er að byrja í aðlögun í leikskólanum á morgun og verður það út v...

Nýtt rúm

Fjölskyldan keypti nýtt rúm í dag og var það handa erfðaprinsinum. Hann er í þessum skrifðum orðum að sofna í fyrsta skipti í nýju rúmmi og í fyrsta skipti í herberginu sínu. Það verður spennandi að sjá hvernig það gengur í nótt. Var búin að skrifa langa færslu hérna en í klaufaskap mínum strokaði ég það allt út. Þetta verður því að duga að sinni.

Ammili

Til hamingju með afmælið Magga 06.07.06. Systir hans Sigga á afmæli í dag, varð þrítug. Við fórum saman fjölskyldan á American Style eða stælinn eins og hann er stundum kallaður. Hún ætlar svo að halda uppá afmælið sitt enn betur um helgina. Við vissum ekkert hvað við áttum að gefa henni og ég og sonur minn fórum á Laugaveginn fyrr í dag til að fá einhverjar hugmyndir. Kristófer var í essinu sínu og horfði á alla bílana sem keyrðu niður eina helstu götu Reykjavíkur og kallaði brrrri og ef bílinn var í stærra lagi doooóór brrrri. Endað með því að ég dró Sigga í Smáralindina og völdum gjöfina korter í sjö í kvöld í en við áttum að hittast á stælnum kl. sjö! Komum aðeins og seint en ekkert alltof seint. Við (ég, Siggi og Kristófer Óli) og bróðir hans Sigga gáfum henn silfurhálsmen með íslenskum náttúrusteini, ópal. Voða flottur. Ég er svo mikið afmælisbarn að mér finnst alltaf svo gaman þegar einhver á afmæli og vildi helst gefa þeim allan heiminn. Verst að ég á ekki allan heiminn.

Veikindi

Sonurinn er veikur eina ferðina enn. Þetta var í annað skiptið í júní sem hann var orðinn veikur á föstudegi. Hann er nú allur að hressast og vonandi verður hann orðinn hress á morgun, sunnudag svo við komumst eitthvað út úr húsi. Keyrði til Hveragerðis síðasta miðvikudagskvöld. Við fórum tvær saman vinkonurnar og heimsóttum eina vinkonu okkar sem býr þar. Það er nú ekki mjög langt til Hveragerðis, sérstaklega þegar það er sumar og engin hálka á götunum. Við vorum 36 mínútur frá Hveragerði og heim í Kópavoginn á leiðinni heim. Magga vinkona mín sem býr í Hveragerði á kött sem heitir Slaufa. Gunnhildur vinkona mín sem kom með mér til hennar spurði hvort kötturinn væri nokkuð kettlingafullur enda með frekar síðan maga, en þó ekkert voðalega feit. Magga var nú viss um að svo væri ekki. Við fréttum svo tveimur dögum seinna að Slaufa væri búin að eignast tvo kettlinga. Allir með kettlinga núna, önnur vinkona mín hún Rakel er að rækta skógarketti og er með sex, eins mánaðar gamla kettlinga ...

Sommertid

Loksins er sumarið komið á Íslandi. Við höfum þurft að bíða lengi eftir því síðustu vikurnar og jafnvel mánuði en þessi helgi var sko sumarleg. Litla fjölskyldan gerði nú kannski ekkert voðalega merkilegt en hvið höfðum það bara næs og nutum þess að vera til og vera saman. Fór í Smáralindina með Nínu Brá vinkonu í dag og henni tókst að finna sér tvær gallabuxur. Ég mátaði fullt af bolum en keypti reyndar ekki neitt. Við fjölskyldan fórum svo í Húsgagnahöllina og þar í Intersport . Þar keyptum við nýja strigaskó handa Kristófer Óla og nýtt höfuðfat einnig handa einkasyninum, svokallað buff. Ég fór svo út að borða með vinnufélögum mínum á sviðinu í síðustu viku. Það var mjög skemmtilegt og bentir manni á að maður á að gera eitthvað meira en vinna, borða og sofa - líka á virku dögunum. Jæja, eiginmaður minn er að grilla svínakjöt handa okkur og það er víst að verða tilbúð. Best að drífa sig.

Tíminn flýgur

Enn ein helgin liðin og vinnudagur á morgun og já, júní byrjar í vikunni. Alltaf nóg að gera hjá Lilju og fjölskyldu. Kristófer Óli er mjög duglegur að tala þó svo að ég og Siggi skiljum hann kannski best. Þarf víst að útskýra fyrir flestum öðrum hvað hann er að reyna að segja. Hann er farinn að hlaupa út um allt og það skemmtilegast sem hann gerir er að vera úti að leika sér. Hann er með algjöra bíladellu og tilheyrir stór hluti af orðaforðanum hans bílum á einhvern hátt, t.d. brr = bíll, dædó = strætó, babú = stór bíll og aga = grafa. Ég fer í sumarfrí í ágúst þannig að ég verð að vinna allan júní og allan júlí. Fékk litlu um það ráðið þetta árið þar sem ég fer í sumarfrí á sama tíma og dagmamman. Kannski svo sem ágætt að þurfa ekki að velta sér meira upp úr því.

Árshátíð

Er á leiðinni á árshátíð á eftir og ætti kannski ð vera að gera allt annað en að hanga í tölvunni. Fór áðan í Smáralindina með mömmu og Kristófer Óla og keypti mér blússu til að vera í við pilsið mitt. Keypti að vísu tvær blússur, þá er bara að ákveða í hvorri maður fer, eriftt fyrir þá sem eru ákvörðunarfælnir. Kristófer Óli græddi heilmikið á því að fara með ömmu sinni, fékk nýjar gallabuxur og gíraffahúfu. Er reyndar búin að vera á fullu að undirbúa árshátíðina þar sem ég er ein af þremur sem er í stjórn starfsmannafélagsins. Það hefur bara verið nokkuð gaman að undirbúa þetta en heilmikil vinna. Jæja, nú er best að drífa sig í sturtu og svo að ákveða í hverju maður fer. Þarf að vera mætt í vinnuna kl. 16.15 til að prenta út viðurkenningarskjöl fyrir skemmtiatriðið okkar og einnig prenta út og fjölrita söngtexta sem við ætlum að syngja í kvöld.

Föðursystir og eyrnabólga

Fyrst ætla ég að óska bróður mínum og kærustunni hans innilega til hamingju með litla strákinn sinn. Það er nú ekki á hverjum degi sem maður verður föðursystir en það gerðist 11. febrúar síðast liðinn. Ég er búinn að hitta nýjasta fjölskyldumeðliminn og hann er algjör dúlla eins og vera ber. Hann er pinkulítill en það er nú bara við því að búast þar sem hann kom mánuð fyrir tímann. Móður og barni heilsast vel og það er blússandi hamingja í fjölskyldunni. Af mér og mínum nánustu er helst að frétta að sonurinn er búinn að ná sér í eyrnabólgu með tilheyrandi verkjum og háum hita, í annað skiptið á einum og hálfum mánuði. Hann er því aftur kominn á sýklalyf og ég er núna heima með hann á mánudegi en hann er búinn að vera inni frá því á fimmtudaginn en við ætlum að reyna að senda hann til dagmömmunnar á morgun. Hann er nú ekkert voðalega sáttur við að vera svona lengi inni. Áðan ætlaði ég að vera voða góð við hann og leyfa honum að koma með mér niður og sækja fréttablaðið. Hann var voða á...

Námskeið á námskeið ofan

Ég er búinn að vera á tölvunámskeiðum í vinnunni nánast allan janúar mánuð hjá Tölvu- og verkfræðiþjónustunni . Þetta eru nú frekar svona tölvunotkunarnámskeið og ég verð nú að viðukenna að ég hef lært mis mikið en þetta var nú samt nokkuð áhugavert og alltaf gaman að læra ný trix. Búinn að fara á Excel, PowerPoint og lýk svo Access námskeiði á morgun. Svo fór ég á ut-daginn , þ.e. ráðstefnu á Nordica Hotel. Það var bara virkilega gaman og margt áhugavert sem kom þar fram. Það getur oft verið áhugavert að fara á ráðstefnur og fá þar nýjar hugmyndir og velta fyrir sér hugmyndum annarra. Svo fór ég einnig á hádegisverðarfund hjá samtökum um landupplýsingar, þ.e. LISA um samræmd leitarkefi. Þannig að það er búið að vera nóg að gera í janúar í vinnunni. Annars gengur allt ágætlega með hið daglega líf. Lífið gengur sinn vanagang og ætli það sé ekki bara byrjað að vora, var a.m.k. 8°C í dag.

Nýtt ár

Árið 2006 er gengið í garð og byrjað að líða á ógnarhraða. Tíminn líður alltaf hraðar og hraðar eftir því sem maður eldist. Janúar að verða búinn. Ég er eiginlega hætt að skilja þetta. Á fimmtudaginn síðasta, 19. janúar þá var ég með Mirandas snyrtivörukynningu og bauð frænkum mínum ásamt tengdó og mákonu minni. Það var bara virkilega gaman og mér tókst að eyða peningum sem var nú ekki leiðinlegra. Í gær fór ég svo með Gunnhildi vinkonu á mynd sem ég hef beðið lengi eftir enda einlægur aðdáandi Jane Austen. Uppáhalds sagan mín er Pride and Prejudice og það var einmitt myndin sem við sáum í gær. Voða sæt og væmin en ég var samt alltaf að bera hana saman við útgáfu BBC á Pride and Prejudice sem ég kann svo til utan að og hún var nú ekki betri en gaman að sjá tekið aðeins öðruvísi á efninu heldur en í þáttunum sem áttu það til að vera svolítið langdregnir. Sigurborg og sonur hennar eru að koma í heimsókn núna þannig að ætli það sé ekki best að hætta þessu í bili.