Lítið var gert þennan sunnudaginn annað en að sofa og éta. Við buðum foreldrum mínum í læri í hádeginu með öllu tilheyrandi. Kristófer Óla fannst það ekki leiðinlegt að fá heimsókn þar sem hann er búinn að hanga inni alla helgina veikur, bara fastir liðir eins og venjulega. Hann fer a.m.k. ekki í leikskólann á morgun. Svo tókst mér að sofna með honum eftir matinn þannig að ég er eiturhress núna og klukkan orðin rúmlega tíu, kannski ekki það gáfulegasta en engu að síður bara mér að kenna.
Í dag eru þrjú ár síðan ég átti einkasoninn, já ótrúlega fljótt að líða. Að sjálfsögðu er ég eins og flestar mæður og segi það hiklaust að þetta sé stærsta upplifun lífsins og besta og mesta afrek sem ég hef gert. Á þessum tíma fyrir þremur árum var ég búin að vera með hríðir í rúmlega sólahring og búið að sprengja belginn, komin með dripp í æð og ljósmóðirin sem var að fara að vakt var hálf svekkt yfir því að þurfa að fara þar sem hún var viss um að barnið væri að koma. Hann leit dagsins ljós sex tímum seinna.
Ummæli