Einkasonurinn hefur tvö kvöld í röð reynt heldur betur á taugar foreldra sinna. Það hefur tekið rúmlega klukkutíma að svæfa hann í bæði skiptin, þannig að ekki varð mikið úr þessum kvöldum. Ætli við verðum ekki að fara að hugsa um að breyta háttatímanum og því hvernig við svæfum hann. Honum tekst nú samt alltaf að vinna sér inn nokkur prik, ég lá hjá honum áðan og dæsti eitthvað þá snéri hann sér að mér og klappaði mér á vangann og sagði allt í lagi, allt í lagi.
Í dag eru þrjú ár síðan ég átti einkasoninn, já ótrúlega fljótt að líða. Að sjálfsögðu er ég eins og flestar mæður og segi það hiklaust að þetta sé stærsta upplifun lífsins og besta og mesta afrek sem ég hef gert. Á þessum tíma fyrir þremur árum var ég búin að vera með hríðir í rúmlega sólahring og búið að sprengja belginn, komin með dripp í æð og ljósmóðirin sem var að fara að vakt var hálf svekkt yfir því að þurfa að fara þar sem hún var viss um að barnið væri að koma. Hann leit dagsins ljós sex tímum seinna.
Ummæli