Kristófer Óli byrjaði aftur á sundnámskeiði. Síðasta sundnámskeið var nokkuð erfitt fyrir foreldrana þar sem að Kristófer Óli var alltaf voða lítill í sér og þorði ekki að prófa neitt. Æfingarnar voru stöðug barátta og vorum við oft að því kominn að gefast upp þar sem sonurinn lét ekki að stjórn, ríghélt í okkur og vildi ekki gera neitt. Við ákváðum að halda áfram en það var samt ágætt að það voru þrjár vikur á milli sundnámskeiða. Fyrsti tíminn lofar góðu en ég ætla þó ekki að fara að vera með neinar yfirlýsingar hér. Hann gæti nú tekið upp fyrri siði en við ætlum samt ekki að gefast upp enda hefur hann gott af þessu og finnst nú yfirleitt mjög gaman í sundi!
Í dag eru þrjú ár síðan ég átti einkasoninn, já ótrúlega fljótt að líða. Að sjálfsögðu er ég eins og flestar mæður og segi það hiklaust að þetta sé stærsta upplifun lífsins og besta og mesta afrek sem ég hef gert. Á þessum tíma fyrir þremur árum var ég búin að vera með hríðir í rúmlega sólahring og búið að sprengja belginn, komin með dripp í æð og ljósmóðirin sem var að fara að vakt var hálf svekkt yfir því að þurfa að fara þar sem hún var viss um að barnið væri að koma. Hann leit dagsins ljós sex tímum seinna.
Ummæli