Við fengum símtal fyrr í kvöld frá frænku mannsins míns. Ég svaraði símanum og hún kynnti sig og þegar ég gaf ekki til kynna að ég kveikti á perunni nefndi hún hverra manna hún væri. Það ruglaði mig enn meira þar sem ég á einmitt tvær frænkur sem heita það sama og hún og eru ekki að hringja í mig á hverjum degi. Sem betur fer kveikti á perunni hjá mér að lokum og ég gat rétt eiginmanninum símann og losaði mig frá því að gera fleiri heimskupör. Vandræðalegt þegar maður þekkir ekki sinn eiginn frændgarð, jafnvel þótt hann sé í stærra lagi.
Í dag eru þrjú ár síðan ég átti einkasoninn, já ótrúlega fljótt að líða. Að sjálfsögðu er ég eins og flestar mæður og segi það hiklaust að þetta sé stærsta upplifun lífsins og besta og mesta afrek sem ég hef gert. Á þessum tíma fyrir þremur árum var ég búin að vera með hríðir í rúmlega sólahring og búið að sprengja belginn, komin með dripp í æð og ljósmóðirin sem var að fara að vakt var hálf svekkt yfir því að þurfa að fara þar sem hún var viss um að barnið væri að koma. Hann leit dagsins ljós sex tímum seinna.
Ummæli