Einkasonurinn fékk gefins leikfangalögregluhjálm sem var keyptur í London síðustu helgi. Hann er yfir sig hrifinn af honum, vill vera með hann öllum stundum, vill helst sofa með hann og fara með hann í leikskólann. Því þegar hann setur á sig hattinn þá breytist hann nefnilega í löggu. Í dag fórum við í smá göngutúr og hann var að sjálfsögðu með lögghattinn sinn. Síðan stóðum við uppá hæð og horfðum yfir bílana sem keyrðu fram hjá, ef þeir keyrðu of hratt m.v. álit lögreglumannsins þá setti hann upp reiðisvip benti á bílinn og hrópaði: "Skamm, þú keyrir of hratt!"
Í dag eru þrjú ár síðan ég átti einkasoninn, já ótrúlega fljótt að líða. Að sjálfsögðu er ég eins og flestar mæður og segi það hiklaust að þetta sé stærsta upplifun lífsins og besta og mesta afrek sem ég hef gert. Á þessum tíma fyrir þremur árum var ég búin að vera með hríðir í rúmlega sólahring og búið að sprengja belginn, komin með dripp í æð og ljósmóðirin sem var að fara að vakt var hálf svekkt yfir því að þurfa að fara þar sem hún var viss um að barnið væri að koma. Hann leit dagsins ljós sex tímum seinna.
Ummæli