Fara í aðalinnihald

Færslur

Sýnir færslur frá maí, 2007

Kókómalt og sundnámskeið

Þegar drukkið er kókómalt og skeiðin dettur óvart ofan í mjólkurfernuna þá er besta ráðið að fá sér bara nýja skeið. Komst að þessu þegar ég leyfði einkasyninum að fá eitt kakómaltglas í dag og skildi hann svo eftir smá stund með mjólkurfernunni. Skeiðin var fljót að detta ofan í fernuna. Í dag var sundnámskeið hjá einkasyninum og hagaði hann sér furðulega vel. Við erum núna á nokkurs konar hraðnámskeiði til að klára 8 skipti fyrir sumarfrí, þannig að það verður farið tvisvar sinnum í viku í stað einu sinni. Hann hefur gott af því og vonandi verðu hann bara hressari í sundferðunum fyrir vikið. Höfum reyndar velt fyrir okkur að hætta með hann á sundnámskeiðunum þar sem það gengur svona upp og niður en alltaf ákveðið að halda áfram þar sem þá förum við a.m.k. einu sinni með hann í sund á viku og hann hefur gott af því.

Glansandi flottur eða ryðgaður

Þegar ég sótti einkasoninn í leikskólann í dag kíktum við á bílana á leikskólaplaninu eins og svo oft áður. Hann hefur mikinn áhuga á gömlum Toyota jeppa sem er smá ryðgaður. Sá stendur alltaf á sama stað og er með stór dekk sem skemmir ekki fyrir. Ég er alltaf frædd um það að þessi bíll sé smá ryðgaður en samt flottur. Hann hefur nokkra ágird á jeppanum og hefur nefnt það nokkrum sinnum að hann hafi í hyggju að kaupa hann, fyrir hvaða peninga veit ég ekki. En þegar hann er búinn að kaupa bílinn þá er ætlunin að fara í bíltúr og þá verður enginn annar en hann undir stýri. Í dag stóð nýr Toyota jeppi við hliðina á þeim gamla. Einkasonurinn var heldur betur ánægður með það og tilkynnti mér að þessi jeppi væri sko glansandi flottur. Eftir smá rúnt á bílastæðinu fékkst einkasonurinn loks til að leggja af stað heim, bara eftir að hann var búinn að klappa nokkrum bílum. Mig er farið að gruna að hann sé haldinn ólæknandi bíladellu.

Sveitaferð

Í sveitaferð leikskólans í dag að Bjarteyjarsandi vöktu traktórar og gamlir bílar mestu hylli einkasonarins. Hann er greinilega borgarbarn í húð og hár, hann rétt fékkst til að klappa einu lambi og einum kettling. Mestar áhyggjur hafði hann af ryðguðum Toyota jeppa á bak við fjárhúsið. Á leiðinni heim í rútunni þar sem við héldumst í hendur snéri hann sér að mér og kom með einu athugasemdina um sveitaferðina: "Það er kúkur í sveitinni".

Leti

Smá fréttir af lötum blöggara Laugardagur: Bónusferð þar sem vísur Mikka refs voru sungnar fjórum sinnum hátt og snjallt fyrir alla sem vildu hlusta og já, reyndar líka fyrir þá sem ekki vildu hlusta. Útskriftarveisla um kvöldið. Sunnudagur: Matreiðslunámskeið í Hafnarfirðinum. Hjólatúr með einkasyninum. Sofnað kl. 20.00. Mánudagur: Árangursrík Ikeaferð. Tilgangnum náð, þ.e. kaupa innitjald handa einkasyninum.

Hvítasunnuhelgin

Æ, það er kominn helgi og það er yndislegt. Ætla að sitja með tærnar upp í loft og hafa það gott. Ekkert ákveðið með hvítasunnuhelgina nema þá að okkur er boðið í útskriftarveislu á morgun. Fáum reyndar einnig góða heimsókn í kvöld og ég er bara farinn að hlakka til.

Stór frændgarður

Við fengum símtal fyrr í kvöld frá frænku mannsins míns. Ég svaraði símanum og hún kynnti sig og þegar ég gaf ekki til kynna að ég kveikti á perunni nefndi hún hverra manna hún væri. Það ruglaði mig enn meira þar sem ég á einmitt tvær frænkur sem heita það sama og hún og eru ekki að hringja í mig á hverjum degi. Sem betur fer kveikti á perunni hjá mér að lokum og ég gat rétt eiginmanninum símann og losaði mig frá því að gera fleiri heimskupör. Vandræðalegt þegar maður þekkir ekki sinn eiginn frændgarð, jafnvel þótt hann sé í stærra lagi.

Afsögn

Já, fleiri huga að valdatafli þessa dagana en sjálfstæðisflokkurinn og samfylkingin. Ég er hins vegar að segja mig úr stjórn en ekki að fara í stjórn. Reyndar er það stjórn starfsmannafélagsins en fyrir mér er það jafn mikilvægt og ef ég væri í ríkisstjórn landsins. Er búinn að standa mína "pligt" í eitt og hálft ár og ætla núna að leyfa öðrum að láta ljós sitt skína. Var á fullu að búa til ljósmyndasýningu í PowerPoint í allt kvöld sem á að sýna á aðalfundinum á morgun þegar öll stjórnin (heilir þrír einstaklingar) segir af sér og ný stjórn kemur í staðinn, stjórnarmyndun var í hverju herbergi á vinnustaðnum mínum í dag. Ó, já það er skipt um stjórn á hæðstu og lægstu stöðum þessa síðustu daga í maí. Svo er líka alltaf gaman þegar nýrri og ferskari vindar blása.

Til minnis... ...fyrir næsta ár

Til minnis fyrir eiganda þessa blöggs fyrir næsta ár... "Kannski væri bara sniðugt að drífa sig í vorferð til útlanda seinnipartinn í maí á næsta ári". Þegar ég vaknaði í morgun þá var snjór á bílnum, það þurfti að skafa. Esjan var hvít en ég lét það ekkert á mig fá og hugsaði í minni bjartsýni að þetta væri bara smá snjór og færi fljótlega. Þegar ég var hinsvegar kominn í vinnuna fór að snjóa aftur og svo kom sól og svo aftur snjór. Þegar ég kom loks heim uppúr kl. fjögur þá var engin snjókoma en við kvöldverðarborðið leit ég út og sá að það var aftur farið að snjóa. Bjartsýnin er búinn í bili en ég hef gert mér grein fyrir því að ég bý á ÍS-landi. Í þessum skrifuðum orðum er þó ekkert sem bendir til allrar snjókomunnar í dag, nema Esjan hún er ennþá hvít.

Hveragerði

Ég og einkasonurinn drifum okkur til Hveragerðis í gær að hitta vinkonu mína sem býr þar ásamt annarri vinkonu minni. Okkur var boðið uppá dýrindis lasange með fullt af grænmeti sem framreitt var í nýjum pottum húsfreyjarinnar. Matarboðið var úti á palli í sól og smá íslensku roki. Já, það er komið sumar á Íslandi. Á heimilinu voru til alls konar plast bílar sem hægt var að sitja á og keyra út um allt. Einkasonurinn skiptist á að keyra hina mismunandi bíla allan tímann sem við vorum þarna og fannst það ekki leiðinlegt. Þegar við komum heim var faðir hans einmitt búinn að finna svipaðan bíl niðri í geymslu frá því síðasta sumar og hann hefur ekki farið af þeim bíl síðan.

Hreinsunardagur

Í dag var hreinsunardagur í blokkinn okkar. Eiginmaðurinn stóð sig með prýði og mætti fyrir okkar hönd. Ótrúlegt hvað það eru alltaf sömu aðilarnir sem mæta. Mér tókst því miður ekki að gera mikið þar sem ég var hlaupandi á eftir einum tveggja ára. Hann var í draumalandi, þar sem allir færðu bílana sína fyrir sóparanum yfir á malarfótboltavöll hér á móti blokkinni. Þetta var því eins og bílasala og einkasonurinn labbaði á milli bíla og klappaði þeim. Hann fór ekki eina ferð, ekki tvær, ekki þrjár heldur fjórar ferðir og skoðaði alla bílana og spurði hvað þeir hétu. Þá gafst ég upp og þverneitaði að fara fimmtu ferðina.

Öskjuhlíðin

Skellti mér í smá göngutúr í Öskjuhlíðina í kvöld með vinkonu minni. Það var virkilega gaman og vonandi byrjunin á löngu og góðu göngutúrasumri. Veðrið var yndislegt vorverður, maíkuldinn ennþá í lofti en milt og gott. Ekki skemmdi fyrir að það var nýbúið að rigna. Svo var mér boðið í tepartý á eftir. Takk fyrir mig. Bara boð á hverju kvöldi, það er annað hvort ekkert að gerast eða allt að gerast. Ekki mikið þar á milli. Að lokum langar mig að benda á nýtt blögg sem leit dagsins ljós í dag. Vonandi verður eigandinn duglegur að blögga.

Ís og jarðaber

Fékk skemmtilegt símtal í gærkvöldi, vinkona mín bauð mér í heimsókn í dýrindis heimatilbúinn ís. Jarðaber, jógúrt og sýrður rjómi voru uppistaðan í honum. Ég elska jarðaber þannig að þetta var auðvitað svaka góður ís og kærkomið boð. Gaman að eiga svona vinkonur. Varðandi heilsufar heimilisins þá er einkasonurinn víst kominn með streptókokkasýkingu (veit nú ekki alveg hvort þetta sé skrifað rétt). Fórum með hann til læknis áðan eftir að við sáum hvíta depla á rauðri tungu. Hann er því kominn á sýklalyf í fyrsta skiptið eftir að hann fékk rör í eyrun. Hann var svo ekki hrifinn af sýklalyfinu þannig að það verður barátta næstu 10 daga að koma því ofaní hann. Já, það er erfitt að vera tveggja ára.

Ný tæki

Prófaði Gravity tæki í leikfimi í dag. Spennandi að prófa nýja tækni eða tæki. Það var virkilega skemmtilegt og nokkuð öðruvísi en maður á að venjast. Maður liggur næstum því allan tímann og gerir æfingar, það ætti nú að vera eitthvað fyrir mig! Mæli með því að prófa þessi Gravity tæki en þau eru víst nýkomin til landsins, Íslendingar eru nú alltaf ginkeyptir fyrir nýjungum þannig að þetta á örugglega eftir að slá í gegn. Við vorum þarna fimm saman með einkaþjálfaranum okkar og fengum nú bara einkakennslu á þetta sem var nú ekki leiðinlegt en það eru reyndar bara um 10 tæki inni í salnum.

Vinsælasta lagið

Vinsælasta lagið hér á bæ er sungið daginn út og daginn inn, stundum með texta, stundum trallað. Endirinn er skemmtilegastur því þá er hlegið hátt eins og refir gera. Vísur Mikkels refs Hér mætir Mikkel, sjá! með mjóa kló á tá, og mjúkan pels og merkissvip, sem mektarbokkar fá. Ég ligg í leyni, þétt við lágan runn og klett. Ef lykt ég finn, hver lítil mús er löngum illa sett. Ég kalla: Gagg. Með gló í músarskinni þá kveð ég: Gef mér brauð úr tínu þinni. Ef mýsla neitar mér, og máski stimpast fer.. Heyr! Einn og tveir og þrír – og þá! með þökk hún étin er. Þá veiðiför ég fer og frakkann rauða ber, hin minni dýr, um mörk og fjall, þá mega gá að sér. Þau skjálfa eins og urt, í ógn, og flýja burt. Því marga sögn um mína slægð þau munu hafa spurt. En, uss – í mosa músar tif ég greini. Sjá, Marteinn kallinn læðist þar hjá steini. Hver hafi hljótt um sig, en hérna fel ég mig. Hið litla, montna músargrey nú mætti vara sig.

Vorhátíð

Fór á vorhátið í leikskólanum hjá einkasyninum í gær og hann stóð sig eins og hetja. Var reyndar eitthvað feiminn þegar hann sá allt fólkið sem var komið til að hlusta á krakkana syngja og hélt fast í einn leikskólakennarann allan tímann sem deildin hans söng. Síðan sýndi hann mér leikskólann og listaverkin sem hann hefur verið að gera í vetur. Að sjálfsögðu upprennandi listamaður þar á ferð.

Norræna húsið

Fór í hádeginu í dag og borðaði hádegismat í Norræna húsinu með samstarfskonum mínum í starfsmannafélaginu. Við vorum að ráðgera hvernig við ætlum að hætta með stæl og hverja við getum fengið til að taka af okkur því lítið er um framboð á þeim bænum. Ekki eins og alþingi Íslendinga þar sem færri komast að en vilja. Mér finnst Norræna húsið eitt af best geymdu leyndarmálum borgarinnar. Alltaf góður og hollur matur í hádeginu, einstaklega fallegt hús og skemmtilegt bókasafn, svo fátt eitt sé nefnt. Samt gleymi ég því alltaf og verð svo steinhissa þegar ég er allt í einu kominn þangað á fallegum vordegi í dag og skil ekki hvernig þetta fallega hús og umhverfi hefur getað farið fram hjá mér í marga mánuði, jafnvel ár. Mæli með hádegisverði í Norræna húsinu .

Herra Lögga

Einkasonurinn fékk gefins leikfangalögregluhjálm sem var keyptur í London síðustu helgi. Hann er yfir sig hrifinn af honum, vill vera með hann öllum stundum, vill helst sofa með hann og fara með hann í leikskólann. Því þegar hann setur á sig hattinn þá breytist hann nefnilega í löggu. Í dag fórum við í smá göngutúr og hann var að sjálfsögðu með lögghattinn sinn. Síðan stóðum við uppá hæð og horfðum yfir bílana sem keyrðu fram hjá, ef þeir keyrðu of hratt m.v. álit lögreglumannsins þá setti hann upp reiðisvip benti á bílinn og hrópaði: "Skamm, þú keyrir of hratt!"

Vor

Það er komið vor og ég er búinn að hjóla 2x heim úr vinnunni á viku. Ég er þvílíkt stollt af mér, þó ég segi sjálf frá. Við höfum núna lagt um 400 km að baki á nákvæmlega einni viku og hér til hliðar er mynd af hópnum. Upphaflega ætluðum bara að taka þátt í átakinu til þess að vera með og hjóla smá en þegar við vorum komin upp í 20. sæti af 98, æsti það upp keppnisskapið, a.m.k. hjá mér. Ég róaðist þó fljótlega aftur og held mig bara við mitt. Verð bara að lýsa ánægju minni með veðrið sem við hefur verið síðustu viku og við höfum fengið í hjólatúrana okkar. Já, ég held barasta að það sé loksins komið vor.

Vinstri brúnir

Hefði nú aldrei trúað því að ég gæti talað tvo daga í röð um stjórnmál og kosningar en ó jú, annað kemur á daginn. Var að kenna einkasyninum hvað stjórnmálaflokkarnir heita og þuldi upp hina ýmsu langlokur eins og Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn, Samfylkinging og Íslandshreyfingin sem eru örugglega eins og kínverska í eyrum tveggja ára barns. Enda fékk ég engin viðbrögð fyrr en ég sagði Vinstri grænir. Þá hermdi hann eftir mér og sagði vinstri grænir, vinstri gulir, vinstri brúnir, enda er brúnn uppáhalds liturinn hans. Einkasonurinn kýs sem sagt vinstri græna. Ég er hinsvega engu nær en tók þetta próf . Engar yfirlýsingar um hvort ég sé sammála eða ekki enda veit ég það ekki á þessari stundu, en mínar niðurstöður eru eftirfarandi: Stuðningur við Sjálfstæðisflokk: 0% Stuðningur við Framsóknarflokk: 20% Stuðningur við Samfylkinguna: 37.5% Stuðningur við Vinstri-Græna: 62.5% Stuðningur við Frjálslynda flokkinn: 37% Stuðningur við Í...

X-Kosningar

Ég komst að því í síðustu viku að það væri bara rúmlega vika í kosningar. Mér brá aðeins þar sem ég hélt að þær væru 20. maí var alls ekki búinn að ákveða hvar ég set X-ið mitt næstkomandi laugardag, og ég er engu nær þegar það er tæplega vika í kosningar. Einhverjar tillögur? Hins vegar verð ég mjög glöð þegar þessar kosningar eru búnar. Maður hættir að fá flóð af bæklingum inn um lúguna og þá er kannski hægt að horfa á Kastljós og fréttir stöku sinnum, eða kannski ekki. Hins vegar verð ég að viðurkenna að ég hef lítið fylgst með kosningabaráttunni að þessu sinni. Sem skýrir að einhverju leiti af hverju ég hef ekki hugmynd um hvað ég á að kjósa. Finnst asnalegt að kjósa alltaf það sama bara af því að ég kaus það síðast, en á hinn bóginn verður maður að kynna sér stefnumálin til að geta tekið upplýsta ákvörðun. Að lokum mæli ég með því að allir kjósi, a.m.k. skili auðu þar sem að það eru ekki allir í heiminum svona heppnir eins og við að finnast það sjálfsagt að geta kosið, allir menn ...

Tónlist

Var að kíka yfir tónlistina mína og fann þar ýmislegt sem ég var bara búinn að gleyma. Mæli með plötunni Pieces of You með Jewel . Nokkuð fyndin saga á bakvið hvernig ég kynntist þessari plötu/geisladisk og þar með söngkonunni. Eiginmaðurinn, þá kærasti, heyrði eitthvað flott lag í útvarpinu og aldrei þessu vant hringdi hann og spurði hvaða lag og tónlistarmaður þetta væri sem þeir voru að spila. Hann fékk svarið að það væri Jewel en þegar hann var búinn að kaupa diskinn og hlusta á hann komst hann að því að svo var ekki. Á þessum tíma var ég í þannig vinnu að ég þurfit að vera mikið á ferðinni og var því oft á bílnum. Þessi diskur var einhvern veginn alltaf í tækinu og ég hlustaði því oft á hann og fékk algjört æði fyrir honum. Var að hlusta á þennan disk afutr í kvöld og mér finnst hann ennþá jafngóður. Lagið sem eiginmaðurinn heyrði var hins vegar Never Ever með All Saints .

Ég hjólaði...

Ég hjólaði í dag heim úr vinnunni. Þorði ekki að hjóla líka í vinnunna en eiginmaðurinn var svo góður að keyra mig og hjólið mitt í vinnunna þannig að það væri öruggt að ég kæmist nú í vinnuna. Heimleiðin var svo mæld í Borgarvefsjá og gróft reiknað sýnir áætlunin að hjólreiðartúrinn í dag hafi verið um 9,5 km. Leiðin verður mæld seinna (já ég ætla að hjóla aftur) með kílómetramæli. Það er ekki annað hægt að segja að maður sé stolltur en smá þreyttur.

Gullfiskaminni

Minnið mitt er ekki uppá marga fiska, man ekkert hvað ég ætla að gera um leið og ég stend upp og labba út af skrifstofunni. Þurfti að hlaupa tvisvar sinnum niður á næstu hæð í vinnunni til að kíkja í fundarbók því ég gleymdi því í fyrra skiptið. Í gær gleymdi ég seðlaveskinu mínu heima, í dag gleymdi ég veskinu í bílnum hjá samstarfskonu minni í hádeginu og gleymdi svo að ná í það þannig að hún fór óvart með það heim til sín þannig að ég þurfti að ná í húslykla til eignmannsins í vinnuna hans og eiginmaður samstarfskonu minnar þurfti að koma með veskið til mín. Svo gleymdi ég að kaupa hádegismat fyrir aðra samstarfskonu mína þegar ég fór í Bónus í hádeginu. Annað hvort er ég að eldast ef sú staðhæfing er rétt að með hækkandi aldri eykst gleymska eða ég er að breytast í gullfisk.

Hjólað eða ekki...

Vinnustaðurinn minn tekur þátt í átakinu hjólað í vinnuna . Ég er einn af 10 liðsmönnum liðsins. Í dag stóð ég mig ekki nógu vel og hjólað ekki í vinnuna. Reyndar var aldrei ætlunin að hjóla alla dagana enda er ég ein af þeim liðsmönnum sem þurfa að fara hvað lengst. Hefði þó verið skemmtilegra að hjóla fyrsta daginn enda var það á planinu að hjóla en einkasonurinn var heima í dag sökum slappleika þannig að ég mætti bara hálfan daginn í vinnuna. Sá fram á að um leið og ég væri kominn í vinnuna þá væri kominn tími fyrir mig að gera mig tilbúna að leggja af stað heim. Það er annar dagur á morgun.

Baráttudagur verkamanna

Finnst fleirum en mér þversögn að það sé opið í búðum á baráttudegi verkamanna, eru það kannski bara verslunarmenn en ekki verkamenn sem vinna þar! Verð þó að viðurkenna að ég fór í eina af þessum búðum sem var opin og skammast mín jú reyndar aðeins fyrir það. Ég hef mér það til málsbóta að ég ætlaði að fara í Bónus í gær svo að ég færi örugglega ekki í búð í dag. Þegar ég var búinn að leggja fyrir framan Bónus datt mér óvænt í hug, aldrei þessu vant, að athuga með peningaveskið mitt sem er yfirleitt staðsett í stærra veskinu. Sem betur fer, því ég hafði gleymt veskinu á skrifstofunni minni í vinnunni. Einkasonurinn var með mér í bílnum og útskýrði ég fyrir honum að ekkert yrði af Bónusferð okkar í þetta skiptið þar sem ég hefði gleymt veskinu í vinnunni. Þá heyrist í tveggja og hálfsárs guttanum mínum: "Nú er ég hissa á þér mamma, alveg steinhissa".