Einkasonurinn er forfallinn aðdáandi Mercedes Club sem tók þátt í undankeppni Eurovison þetta árið. Hann vill helst horfa á lagið þeirra á hverjum degi og þá oftar en einu sinni. Þess á milli hoppar hann um gólf og syngur hey hey hey, ho ho ho eins og aðalsöngvarinn. Toppurinn er að vera með eitthvað sem líkist míkrafón í hendinni og ber á maganum eins og aðalsögnvarinn. Í gær þá kom Mercedes Club með nýtt lag, "Meira frelsi", í Kastljósi og vildi hann endilega sjá það aftur, þannig að við fundum það á netinu og horfði hann örugglega á nýja lagið 10x það kvöldið. Sem betur fer þá eigum við þessi fínu heyrnatól sem hægt er að tengja við tölvuna því móðirin er kannski ekki alveg eins spennt fyrir fyrir þessum lögum eins og einkasonurinn. NB. Hann er þriggja ára, hvernig verður hann þegar hann kemst á unglingsaldurinn.
Í dag eru þrjú ár síðan ég átti einkasoninn, já ótrúlega fljótt að líða. Að sjálfsögðu er ég eins og flestar mæður og segi það hiklaust að þetta sé stærsta upplifun lífsins og besta og mesta afrek sem ég hef gert. Á þessum tíma fyrir þremur árum var ég búin að vera með hríðir í rúmlega sólahring og búið að sprengja belginn, komin með dripp í æð og ljósmóðirin sem var að fara að vakt var hálf svekkt yfir því að þurfa að fara þar sem hún var viss um að barnið væri að koma. Hann leit dagsins ljós sex tímum seinna.
Ummæli