Fara í aðalinnihald

Færslur

Sýnir færslur frá mars, 2008

Leiðinilegasti dagur ársins?

Fór á áhugaverðan fyrirlestur sem foreldrafélög þriggja leikskóla héldu í kvöld um úlfatímann. Á morgun er líklega leiðinlegasti dagur ársins hjá mér, því annað kvöld ætlum við hjónin að klára skattframtalið sem sem við fengum frestað fyrir um viku síðan, en núna er fresturinn að renna út og því eins gott að klára dæmið. Á morgun er ég svo einnig að fara til tannlæknis! Gæti ekki verið meira spennandi dagur. Minni alla á að það er fyrsti apríl á morgun og ég ætla sko að hringja í alla sem ég þekki og plata þá uppúr skónum. Kannski að dagurinn verði bara skemmtilegur?

Við tjörnina

Fjölskyldan fór í bíltúr til Reykjavíkur, alla leið að tjörninni og ráðhúsinu. Við ætluðum nú lengra en eftir að hafa eytt smá tíma við tjörnina þá var okkur svo kalt að við fórum bara heim. Við vorum með andabrauð og gáfum hungruðum fuglum brauð, þó aðallega einkasonurinn. Ég hrökklaðist í burtu þegar ágengar gæsir voru byrjaðar að elta mig, hljóp í öruggt skjól og skildi feðgana eftir að klára brauðið. Þegar við vorum að keyra frá tjörninni sagði einkasonurinn ánægður: "Þegar ég verð stór ætla ég að verða önd" "og búa til hreiðri og egg"

Heimadagur

Ég endaði bara með því að vera heima í dag og dúlla mér með einkasyninum. Fann það eftir á að það er líka stundum nauðsynlegt að vera bara heima og gera ekki neitt, þó svo að það geti reyndar verið leiðinlegt til lengdar. Tókst loksins að laga aðeins til í dóti einasonarins en hann á alltof mikið af dóti eins og flest börn í dag, lagaði aðeins meira til og horfði á meðan með öðru auganu á Rachel Ray og komst um leið að því að því að allir þættir vikunnar voru endursýndir í dag, sem sagt algjör letidagur.

Brjálað að gera

Það var brjálað að gera í vinnunni í dag en mér tókst loksins að setja frétt í fréttablaðið okkar fyrir gögn sem ég hef eiginlega verið að bíða eftir í heilt ár. Fréttin var gerð á einum degi! tja kannski ekki alveg en... það er miklu flottara að segja það þannig. Við þurftum svo að fara í Bónus eftir vinnu í dag þar sem ísskápurinn var eins og eyðimörk og ég verð bara að taka fram að einkasonurinn var svo stilltur að það kom mér meira að segja á óvart. Jæja hann fékk tvennt sem hann bað um (C-vítamín freyðitöflu og súkkulaðikex) en samt var ég voða feginn að hann var alveg eins og ljós þar sem mér finnst nú ekki það skemmtilegasta að fara með börn í Bónus, hvað þá kl. 18 á föstudagskvöldi.

Hjólataska

Fór í dag í uppáhalds búð eiginmannsins og keypti smá gjöf handa honum. Nú er bara að vona að veðrið batni þannig að hann geti farið að nota hana. Uppfært: Fattaði þegar ég kom heim að það vantar bögglabera á hjólið þannig að til að eiginmaðurinn geti notað þessa fínu gjöf þarf víst líka að kaupa bögglabera!

Húsfundur og Skattmann

Hinn árlegi húsfundur hjá húsfélaginu í stigaganginum var haldinn í kvöld. Gjaldkerinn okkar var að hætta eftir 13 ára gott starf þannig að gjaldkerastarfið var á lausu. Valdagræðgin kom ekki upp hjá mér enda hef ég núna völd í foreldrafélaginu sem gjaldkeri, það virðist nægja mér í bili. Þannig að ég stakk uppá öðrum nágranna mínum sem tókst ekki að skorast undan og eiginmaðurinn fer svo á aðalfund stóra húsfélaginu á morgun. Fékk reyndar vægt sjokk í dag, hélt að ég ætti að vera búinn að skila skattaskýrslunni og ég ekki byrjuð á henni en það er ekki fyrr en á morgun. Hjúkk, nógur tími...

Páskafríið búið

Hvað varð eiginlega um páskafríið? Það er allt í einu bara búið. Jæja, við höfðum það heldur betur gott í páskafríinu og gerðum nánast ekki neitt en stundum eiga frí að vera þannig. Okkur hjónunum tókst að skiptast á að sofa út á meðan hitt foreldrið vaknaði með einkasyninum, við fjölskyldan fórum í smá göngutúra, sund og í páskabíltúrinn, borðuðum páskasteikina og fengum páskaegg. Gæti nú ekki verið betra en það...

Gleðilega Páska

Páskadagsmorgun kominn með páskaeggjaáti. Einkasonurinn fékk eitt páskaegg frá Góu nr. 4 með fígúru ofná en fígúran var eiginlega mest spennandi. Móður hans tókst að brjóta páskaeggið hans í tvennt þegar hún var að reyna að opna það, sem betur fer var móðirin meira miður sín en einkasonurinn. Páskaeggið er núna komið í þúsund mola því honum finnst skemmtilegra að skera það niður í bita en að borða það! Foreldrarnir höfðu ákveðið að fá ekkert páskaegg þetta árið en fengu að lokum sitt hvort páskaeggið nr. 2 frá Freyju, aðallega fyrir málsháttin. Þá er komið að þeim: Einkasonurinn: "Af hreinu bergi kemur hreint vatn." Móðirin: "Vinur er sá, er annars ills varnar." Faðirin: "Epli á dag bæir lækninum frá, laukur á dag bægir öllum frá."

Páskabíltúrinn

Við ákváðum að fara í hinn árlega páskabíltúr fjölskyldunnar í dag, föstudaginn langa og skelltum okkur í Hvalfjörðinn í yndislegu páskaveðri. Fórum í fjöruferð og kíktum á fossa og skemmtum okkur vel. Við erum þó ennþá að jafna okkur eftir tvær glæsilegar fermingaveislur í gær.

Skírdagur

Tvær fermingaveislur búnar og þrjár eftir þessa páskana. Já, fórum í tvær fermingaveilsur í dag sem ég kalla nú nokkuð gott en sumir veislugestanna fóru víst í þrjár fermingaveislur í dag, brjálað að gera. Það er nú bara ágætt að komast í fermingaveislur og hitta alla sem maður hitti nú orðið voða sjaldan þar sem ég á svo stóra fjölskyldu að það hittast ekki allir lengur nema við fermingaveislur þar sem fæstir koma allri fjölskyldunni inn heima hjá sér.

Fermingagjafir

Reddaði þremur fermingagjöfum í gær, þar af tveimur á 13 mínútum og inn í þeim tíma var ganga til og frá bílnum og auk þess innpökkun á fermingargjöfunum og kaup á fermingarkortum. Geri aðrir betur! Ég var reyndar í hópi með tveimur öðrum sem gefa gjöfina með mér og vorum við búnar að velta þessu heilmikið fyrir okkur áður en þegar ákvörðunin var tekin þá var ekkert verið að slóra við þetta. Bíð spennt eftir að fara í tvær fermingaveislur á morgun en alls verða það líklega fimm fermingaveislur sem við förum í þessa páskana og allt systkyna börn foreldra minna eða foreldra eiginmannsins.

Glansandi flottur

Feðgarnir á heimilinu stóðu í stórræðum um helgina þrifu bílinn okkar hátt og lágt sem hefur ekki verið gerð í háa herrans tíð og því alveg tilefni í eina færslu. Reyndar vildi sonurinn helst gera allt, faðirinn fékk samt aðeins að prófa smávegis fyrst hann nennti nú að koma með. Nú er drossían á heimilinu glansandi flott og sonurinn stolltur yfir afrekum sínum. Hann þreytist ekkert á að segja frá því hvernig hann þreif bílinn, aftur og aftur.

Grænmeti vs. súkkulaði

Einkasonurinn var að borða ávexti eftir kvöldmat. Einkasonurinn: "Ef maður borðar grænmeti (NB. grænmeti = ávextir) þá verður maður sterkur en ekki ef maður borðar súkkulaði." Móðirin: "Nú hvað gerist ef maður borðar súkkulaði?" Einkasonurinn: "Ef maður borðar súkkulaði þá verður maður klístraður... .... og einmanna." Þá hafið þið það!

Hvenær kemur sumarið?

Ég er viss um að það sé að koma vor, enda búið að vera svo gott veður í gær og í dag. Ég er meira að segja svo bjartsýn að ég er viss um að páskahretið komi fyrr bara af því að páskarnir eru óvenju snemma í ár. Það eru fleiri en ég farnir að bíða eftir vorinu. Einkasonurinn er líka farinn að bíða eftir sumrinu enda er búið að lofa honum að fara í veiðiferð í sumar með veiðistönginni sem hann fékk í jólagjöf. Um daginn vorum við að keyra heim og þá sagði hann: "Mamma, sjáðu það er komið sumar, sjáðu sólin hún brosir!" Ég fór í klukkutíma leikfimi í morgun og svo aftur í klukkutíma göngutúr í kvöld. Verst að ég get ekki skráð það með í lífshlaupið þar sem því lauk í gær. Best að búa bara til sitt eigið lífshlaup. Úrslitin í lífshlaupinu verða kunngjörð á mánudaginn, ég mun setja niðurstöðurnar hérna, þ.e.a.s. ef þær eru hagstæðar!

Mercedes Club

Einkasonurinn er forfallinn aðdáandi Mercedes Club sem tók þátt í undankeppni Eurovison þetta árið. Hann vill helst horfa á lagið þeirra á hverjum degi og þá oftar en einu sinni. Þess á milli hoppar hann um gólf og syngur hey hey hey, ho ho ho eins og aðalsöngvarinn. Toppurinn er að vera með eitthvað sem líkist míkrafón í hendinni og ber á maganum eins og aðalsögnvarinn. Í gær þá kom Mercedes Club með nýtt lag, "Meira frelsi", í Kastljósi og vildi hann endilega sjá það aftur, þannig að við fundum það á netinu og horfði hann örugglega á nýja lagið 10x það kvöldið. Sem betur fer þá eigum við þessi fínu heyrnatól sem hægt er að tengja við tölvuna því móðirin er kannski ekki alveg eins spennt fyrir fyrir þessum lögum eins og einkasonurinn. NB. Hann er þriggja ára, hvernig verður hann þegar hann kemst á unglingsaldurinn.

Þrjátíu mínútur á dag

Lífshlaupið gengur ágætlega. Mér hefur tekist að hreyfa mig eitthvað á hverjum degi þó misjafnlega lengi. Ég hef meira að segja farið út í göngutúr í hádeginu, já ótrúlegustu hlutir gerast. Fyrirtækið sem ég vinn hjá er í topp fimm en einhverjir skólar eru að þvælast fyrir okkur í toppbaráttunni. Við spyrjum að leikslokum.

Labbi labb

Fór í göngutúr í kvöld í þriðja skiptið á fjórum dögum. Ætlaði ekki að nenna út en svo vildi ég ekki bregðast liðsfélögum mínum í Lífshlaupinu þannig að ég dreif mig út um uppúr kl. 21 í kvöld og það var þetta líka fína veður en ótrúlegt en satt þá mætti ég engum í dalnum sem er mjög óvanalegt. Ég hafði það gott alein með Ipodinn minn og átti allan dalinn út af fyrir mig.

Og barnið líkist?

MyHeritage : Look-alike Meter - Geneology - Roots

Veikindi

Einkasonurinn er veikur heima og því móðirin hjá honum. Það er búið að vera kveikt á Tomma og Jenna frá því hann vaknaði fyrir tveimur tímum. Tommi og Jenni eru langskemmtilegastir þegar maður er þriggja ára. Ég hef notað tækifærið við að þvo þvott og tölvunördast. Lífshlaupið: Labbaði 60 mínútur í gær með vinkonu minni, ég er viss um að mitt lið er að rústa keppninni.

Göngutúr

Vinnustaðurinn minn tekur þátt í lífshlaupinu sem gengur út á það að hreyfa sig a.m.k. hálftíma á dag. Að sjálfsögðu er ég með, þannig að í staðinn fyrir að detta niður í sófann eftir kvöldmat fór ég í hálftíma göngutúr. Ég lét mig hafa það að fara út í fljúgandi hálku og grenjandi rigningu á 15 ára gömlum gönguskóm, þar sem ég rann næstum á hausinn og varð blaut í báða fætur. Jæja, það var reyndar bara smá úði og nokkrir hálkublettir en fyrri útgáfan var meira krassandi. Ég er að sjálfsögðu mjög ánægð með afrekið og hlakka til að gera eitthvað skemmtilegt á morgun.

Símarnir mínir

Ég á tæplega 10 ára gamlan þráðlausan heimasíma, geri aðrir betur. Ég mun ekki kaupa mér nýjan fyrr en þessi "deyr" alveg. Sumir hafa kvartað yfir því hvað það þurfi að hringja oft þangað til við heyrum í símanum, en hann hringir svona nokkrum sinnum á hinum endanum áður en hann fer að hringja hjá okkur en það er bara til að sía út þá eru t.d. með skoðanakannanir og reyna ekki til hlítar að ná í okkur. Einnig heyrir ég misvel í viðmælandanum eftir því hvernig síma viðmælandi minn er með en það er nú bara skemmtilegt og kryddar aðeins samtalið að segja "ha" óvenju oft. Ég er bara nokkuð stollt af símanum mínum og man þegar ég keypti hann rándýran í Teledanmark búð á Strikinu í Århus haustið 1998, þetta er sko sími með sögu. Hvað er þinn heimasími gamall? Fyrst að ég er að skrifa um símann minn þá verð ég þó að viðurkenna að ég er ekki alveg sömu skoðunar með GSM símann minn. Mig langar svolítið í nýjan GSM síma þó svo að sá sem ég á þjóni alveg sínum tilgangi og vel ...

Bíóhelgi

Þetta var sannkölluð bíóhelgi, ég fór í bíó á föstudagskvöld og laugardagskvöld. Í gær fórum við hjónin út að borða á Austurlandahraðlestina og svo í bíó á Brúðgumann og vorum komin heim rúmlega tíu á laugardagskvöldi, gömlu hjónin! Myndin var góð og skilur eftir sig ákveðin boðskap. Ekki var leiðinlegra að við fórum einmitt út í Flatey síðasta sumar og vorum meira að segja föst í smá stund inni í kirkjunni meðan verið var að taka upp atriði í kirkjugarðinum. Flatey, 6. ágúst 2007 Á leið úr kirkjunni. Kirkjan í Flatey og tökuliðið í kirkjugarðinum.

Föstudagskvöld

Skemmtilegt föstudagskvöld að baki þar sem ég fór út að borða með vinkonum mínum og endaði í bíó á ágætis afþreyingu . Reyndar var mér boðið í aðra konubíóferð í gærkvöldi en varð því miður að afþakka. Það er alltaf þannig, maður gerir ekki neitt í margar vikur eða daga og svo allt í einu er framboðið meira en maður getur annað.