Fara í aðalinnihald

Færslur

Sýnir færslur frá nóvember, 2006

Jólalög

Ég eyddi kvöldinu í það að setja jóladiskana mína inn í iTunes. Hlustaði á nokkur jólalög í leiðinni og ég er ekki frá því að ég sé kominn í smá jólaskap enda ekki seinna vænna, desember byrjar á morgun. Oh... hvað ég elska jólin. Ég er algjört jólabarn hlakka til jólanna á hverju ári. Ég er fyrir löngu byrjuð að skipuleggja jólakortin, skreytingar í íbúðinni og hvað ég ætla að gera skemmtilegt á aðventunni. M.a. fara á jólahlaðborð með vinkonunum, baka Sörur og kíkja á jólahúsið á Kjalarnesi svo fátt eitt sé nefnt. Er ennþá spenntari núna en síðustu jól því þetta eru fyrstu jólin þar sem einkasonurinn er að fatta út á hvað allt gengur, þ.e.a.s. pakkajól!!!

Draumaíbúðin

Draumaíbúðin mín er til sölu og ég á ekki aur. Samstarfskona mín er að selja íbúðina sína í Vogunum og ég get svarið það, þetta er draumaíbúðin mín. Alltaf þegar ég keyri í gegnum þetta hverfi þá segi ég við eiginmanninn að ég gæti vel hugsað mér að búa í þessu hverfi. Íbúðin er um 100 fermetrar í þríbýlishúsi og á besta stað. Það sem gerir útslagið er að hún er með bogaglugga. Alveg síðan ég var lítil stelpa hefur mig dreymt um að eiga íbúð með bogaglugga. Ætli maður spili ekki bara í lottó um helgina.

Leitin að piparkökuformunum

Piparkökubakstur hefur verið á dagskrá hjá okkur mæðgininum í a.m.k. hálfan mánuð. Það er fyrir löngu búið ákveða að prófa uppskriftina í kökubók Hagkaups (þögult samkomulag hjá okkur mæðgininum) og kaupa allt sem þarf að nota í þá uppskrift. Vandamálið er að móðirin á heimilinu finnur ekki piparkökuformin sem hún er viss um að hún ætti einhversstaðar. Fannst ekki taka því að kaupa ný ef formin væru til þar sem þau eru nú ekki notuð það oft. Svona til að halda sig við Pollýönnuleikinn þá hefur leitin að piparkökuformunum m.a. haft í för með sér að það hefur verið tekið upp úr kössum sem hafa staðið óhreyfðir í nokkur ár og jólahreingerningin í eldhússkápunum búinn eins og áður hefur verið sagt frá . En þrátt fyrir mikla leit sést hvorki tangur né tetur af piparkökuformunum. Næst á dagskrá er því líklega ferð í næstu búð sem selur piparkökuform til að kaupa nokkur stykki. Svo er bara að finna út hvaða búð það er!

Ljós og myrkur

Nú fer í hönd dimmasti mánuður ársins; myrkur þegar maður fer í vinnuna og myrkur þegar maður kemur heim. Þegar rigningin er eins og í dag þá er eins og dagurinn fari framhjá manni eða komi bara alls ekki neitt. En sem betur fer eru jólin að koma og þá fá flest allir Íslendingar ljósaseríuæði. Blokkinn okkar er eins og jólatré, algjörlega ósamstæð og fullt af hallærislegum jólaljósum í gluggunum. En samt yndislega jólaleg og kemur manni alltaf í gott skap á morgnanna að sjá að fleiri hafi komið upp jólaljósum frá því daginn áður. Þetta birtir heldur betur upp skammdegið og mér finnst frábært hvað allir eru duglegir að skreyta hjá sér og hvað fólk hengir upp jólaljósin á mismunandi hátt. Bíð spennt eftir morgundeginum.

Framkvæmdir

Eiginmaðurinn tók sig til og málaði bæði eldhúsið og baðið, svona til að gera eitthvað fyrir jólin eins og sönnum Íslendingi sæmir. Við vorum reyndar ekkert að breyta um lit, bæði herbergi ennþá hvít en það átti eftir að lagfæra hér og þar eftir að við fluttum inn og það var gert núna tæplega tveimur árum seinna. Svo er ætlunin að reyna að klára skápana í eldhúsinu þessir sem voru einnig eftir þegar við fluttum inn. Þó svo að það sé kannski frekar vitlaust að klára allt fyrir jólin þá er þetta ágætis pressa við það að klára hlutina og það er einmitt eitthvað sem við hjónin þurfum, að vera undir pressu til að klára hlutina. Mér var bent á að það væri betra að vera með kvef en lungnabólgu þannig að ég ætla bara að taka pollýönnu á þetta og gleðjast yfir kvefinu.

Hundrað

Hundraðasta færslan lítur nú dagsins ljós. Ætlaði að taka jólamyndirnar fyrir jólakortin af einkasyninum um helgina en honum tókst að detta á andlitið og fá sprungna vör. Við sjáum til á morgun hve bólgin vörin verður. Smá tiltektardagur í eldhússkápunum í dag. Meðal annars var ég að taka upp úr kassa sem við pökkuðum í þegar við fluttum fyrir tæplega tveimur árum síðan. Kannski þarf ég ekkert á þessu að halda sem er í kassanum. Hef ekki mikið saknað þess. Ætli lærdómurinn sé ekki sá að ég verði að læra að henda meira drasli. Hef þetta líklega frá afa mínum sem henti aldrei neinu. Fræg er orðinn sagan þegar ég var ca. 5 ára og fór á haugana sem voru nú reyndar nokkuð öðruvísi en Sopra er í dag en þá voru ruslahaugarnir bara hrúga af drasli sem var svo mokað yfir þegar hún var orðin nógu stór. Þar sá ég fullt af heillegu dóti m.a. forláta hurð sem einhver maður var að henda. Ég var heldur betur hneyksluð og náði varla andanum yfir því hvernig honum dytti í hug að henda heilli hurð og v...

Tré

Átti fimm ára brúðkaupsafmæli í dag/gær sem er kennt við tré. Tíu ár síðan við kynntumst. Einkasonurin fór því í pössun yfir nótt hjá ömmu sinni og afa. Hjónakornin fóru á Austur Indíafjelagið og sáu því næst nýjustu myndina með James Bond. Bond var betri. Vorum að koma úr bíó og ég sit hérna með tölvuna uppi í rúmmi sem er algjör draumur í dós. Skil ekki af hverju ég geri þetta ekki oftar. Verst hvað þetta er ótrúlega svæfandi......... Zzzzzzzzzzzzzzzzzzzzz

Jibbí skibbí

Fékk nýja tölvu í vinnunni í dag. Allt annað líf þegar maður er að vinna með svona stór gagnasöfn. Reyndar er "nýja" tölvan í vinnunni svipuð og tölvan sem við keyptum okkur heima fyrir um ári síðan en það er víst svona að vera ríkisstarfsmaður. Náði samt ekkert mikið að prófa nýju tölvuna, var á fundum og þess á milli að vinna í Excel en það fannst smá munur. Bíð spennt eftir því á morgun að fara í vinnuna.

Keyra varlega

Pabbi gamli á afmæli í dag en hann er tæplega tuttugu árum eldri en ég en segist alltaf vera 19 eða 29 ára. Ég óska honum enn og aftur innilega til hamingjum með daginn og eitt árið í viðbót. Skrapp í Smáralindina eftir vinnu og keypti handa honum smá afmælisgjöf . Veit ekki alveg hvernig ég á að taka því en þegar við vorum að keyra heim í dag, yfir allar hraðahindranirnar sem eru á Digranesvegi þá heyrðist í syni minum í aftursætinu; keyra varlega, keyra varlega!!!

Vinnan göfar manninn

Það skemmtilegasta við að vinna aðeins lengur er að mér tekst yfirleitt að klára eitthvað sem hefur setið lengi á hakanum og þá léttir það aðeins á verkefnunum hjá mér, a.m.k. einn dag. Það leiðinlegasta við að vinna aðeins lengur er að ég er kominn svo seint heim að ekkert verður úr kvöldinu og er bara mætt í vinnuna strax aftur áður en ég veit af. Í kvöld var ég kominn heim kl. 20.30 og þarf bráðum að fara að sofa. Svo er það bara vinnan aftur á morgun.

Mikilvægasti mánuðurinn

Nóvember er örugglega sá mánuður sem hefur skipt mestu máli í lífi mínu fram til þessa. Einkasonurinn fæddist í byrjun mánaðarins fyrir tveimur árum. Ég kynntist eiginmanni mínum í þessum mánuði og við giftum okkur einnig í nóvember. Ég útskrifaðist úr kerfisfræðinni í nóvember og svo eru bæði faðir minn og móðuramma fædd í þessum mánuði. Ég veit ekki hvort einhver stórtíðindi eigi eftir að gerast í lífi mínu þetta árið í nóvember en að minnsta kosti er stutt í jólin.

Snjór úti

Mér leist ekkert á blikuna um miðnætti í gærkvöldi, bara kominn bylur eða eitthvað í líkingu við það. Þegar við vöknuðum í morgun var auðvitað ekki hægt að komast úr botnlanganum okkar frekar enn fyrri daginn. Það háði okkur ekki í þetta skiptið þar sem við vorum ekki að fara neitt. Um hádegisbilið þegar við voru búin að horfa á þó nokkuð marga bíla festa sig fyrir utan hjá okkur kom ein lítil grafa frá bænum og fór einn rúnt svona rétt svo til að við kæmumst upp úr holunni okkar. Við nýttum okkur það og kíktum í nokkrar búðir sem voru aldrei þessu vant ekki troðfullar af fólki. Greinilegt að það nenntu ekki allir út í þetta veður, en við tókum bara Íslendinginn á þetta eins og góð vinkona mín kallaði það. Við enduðum svo ferðina hjá ameríkuförunum þar sem einkasonurinn var svo ótrúlega heppinn að hann græddi tvo poka af fötum.

Brr...

Það er heldur betur kalt í höfuðborginni og nágrenni þessa dagana. Eiginmaðurinn sagði mér í óspurðum fréttum að það hefði verið -13°C í morgun þegar hann fór í vinnunna. Við einkasonurinn erum bara búinn að vera heima fyrir hádegi á þessum kalda laugardegi. Það er reyndar búið að vera nóg að gera hjá okkur við að lita, líma límmiða inní bók og horfa á kuldann út um stofugluggann, svo ekki sé minnst á bílaleik. Brr.... æ, þá er nú gott að eiga velbyggt og hlýtt húsnæði þar sem maður getur bara hækkað ofninn og látið sig dreyma um heitara loftslag.

Skemmtilegt

Fór á Mirandas snyrtivörukynningu hjá frænku minni í kvöld. Alltaf gaman að hitta systur hennar mömmu og gaman að eyða smá peningum. Hitti þar einnig systir hennar mömmu sem býr í Noregi og var hér í smá heimsókn, langt síðan ég sá hana síðast þannig að það var skemmtilegt að hitta hana. Tókst að sjálfsögðu að eyða aðeins meira en ég ætlaði mér en ég er sátt við afrakstur kvöldsins. Verst að ég er hálfslöpp en vonandi er ég ekki að ná mér í einhverja pest.

Það er ekki leiðinilegt...

... þegar maður er að svæfa einkasoninn og hann snýr sér að manni, klappar manni á kinnina og segir: "allt í lagi, allt í lagi" svona til að passa mann aðeins. Þessir litlu hlutir gefa lífinu gildi. Það má nú taka fram að ég geri þetta oft við hann. Klappa honum ef hann er eitthvað órólegur þegar ég er að svæfa og segi allt í lagi eða svona karlinn minn. Hann sagði þetta við mig um daginn eins og ég nefndi hér í fyrradag og svo við föður sinn í kvöld. Svona lagað bætir allt annað upp.

Svitn

Það var svo mikið að gera í vinnunni í dag að ég náði eiginlega ekki að hugsa. Þurfti að klára ákveðið verkefni fyrir kl. 15.30 í dag, fara á tvo fundi, svo ekki sé talað um öll hin verkefnin sem bíða mín. Heima beið svo veikur sonur eftir mér. Mér tókst að klára verkefnið og fundina tvo en ennþá bíða hin verkefnin eins og í gær og fyrradag. Ég get ekki sagt annað en að dagurinn í dag hafi verið fljótur að líða í vinnunni, er maður þá ekki að gera eitthvað skemmtilegt?

Svefnvenjur

Einkasonurinn hefur tvö kvöld í röð reynt heldur betur á taugar foreldra sinna. Það hefur tekið rúmlega klukkutíma að svæfa hann í bæði skiptin, þannig að ekki varð mikið úr þessum kvöldum. Ætli við verðum ekki að fara að hugsa um að breyta háttatímanum og því hvernig við svæfum hann. Honum tekst nú samt alltaf að vinna sér inn nokkur prik, ég lá hjá honum áðan og dæsti eitthvað þá snéri hann sér að mér og klappaði mér á vangann og sagði allt í lagi, allt í lagi.

Sunnudagur til sælu

Lítið var gert þennan sunnudaginn annað en að sofa og éta. Við buðum foreldrum mínum í læri í hádeginu með öllu tilheyrandi. Kristófer Óla fannst það ekki leiðinlegt að fá heimsókn þar sem hann er búinn að hanga inni alla helgina veikur, bara fastir liðir eins og venjulega. Hann fer a.m.k. ekki í leikskólann á morgun. Svo tókst mér að sofna með honum eftir matinn þannig að ég er eiturhress núna og klukkan orðin rúmlega tíu, kannski ekki það gáfulegasta en engu að síður bara mér að kenna.

Flöskudagur

Gærdagurinn var aldrei þessu vant flöskudagur en ekki föstudagur. Við hittumst, hópurinn eða sviðið sem ég tilheyri (alls 7) í vinnunni heima hjá yfirmanni okkar ásamt mökum. Við elduðum og borðuðum saman og drukkum vín saman. Einnig kjöfðuðum við heilmikið og partýið endaði með því að við fórum að spila og syngja, virklega skemmtilegt og ég var ekki kominn heim fyrr en kl. 02.45 sem verður að teljast nokkuð gott hjá mér. Við vorum búin að fá pössun fyrir Kristófer Óla og með nokkrum fyrirvara en því miður komst Siggi ekki með þar sem syninum tókst að ná sér í einabólgu í gær, í annað skiptið í vetur þannig að hann var voða lítill og veikur. Siggi ákvað því að vera heima enda eins gott að hugsa um börnin fyrst maður er á annað borð að koma þeim í heiminn.

Sundnámskeið

Kristófer Óli byrjaði aftur á sundnámskeiði. Síðasta sundnámskeið var nokkuð erfitt fyrir foreldrana þar sem að Kristófer Óli var alltaf voða lítill í sér og þorði ekki að prófa neitt. Æfingarnar voru stöðug barátta og vorum við oft að því kominn að gefast upp þar sem sonurinn lét ekki að stjórn, ríghélt í okkur og vildi ekki gera neitt. Við ákváðum að halda áfram en það var samt ágætt að það voru þrjár vikur á milli sundnámskeiða. Fyrsti tíminn lofar góðu en ég ætla þó ekki að fara að vera með neinar yfirlýsingar hér. Hann gæti nú tekið upp fyrri siði en við ætlum samt ekki að gefast upp enda hefur hann gott af þessu og finnst nú yfirleitt mjög gaman í sundi!

Afmælisveislan og pakkarnir

Héldum afmælisveisu fyrir 2ja ára gutta á sunnudaginn með "stæl". Síðan þá höfum við bara verið að ná okkur niður. Mér tókst þó að fara með stóran hluta af afgöngunum í vinnuna sem runnu ljúft niður hjá samstarfsfélögunum. Kristófer Óli fékk fullt af gjöfum og þökkum við kærlega fyrir soninn. Hann var heldur betur fljótur að uppgötva þetta með pakkana. Hélt reyndar að þeir kæmu endalaust því þegar hann var búinn að opna alla pakkana, borða afmælisköku (að sjálfsögðu súkkulaði köku með rjóma) þá fór hann að leita að fleiri pökkum og labbaði um alla íbúð og sagði "hvar er pakkinn, hvar er pakkinn?"

Frænkukvöld

Hélt frænkukvöld í gærkvöldi sem tókst með endæmum vel. Reyndar hættu þrjár við á síðustu stundu en við vorum sex í allt sem var góður hópur. Að sjálfsögðu voru allt of mikið af veitingum eins og vera ber hjá frænkum mínum. Sem betur fer komu nokkrar með eitthvað og þær gátu tekið það með sér aftur. Þetta var fyrsta frænkukvöldið sem ég og Sigurborg frænka stóðu fyrir. Nú er bara að vona að einhver haldi áfram þannig að það verði haldin fleiri frænkukvöld. Ég bíð mig fram í nýtt frænkukvöld að ári liðnu.

Tveggja ára

Í dag eru tvö ár frá fæðingu einkasonarins og ég man það eins og það hefði gerst í gær. Kom í heiminn kl. 13.50 eða svona hér um bil. Voru svo mikil læti þegar hann kom loksins í heiminn að enginn mundi eftir að kíkja á klukkuna en þessi tími er svona nærri lagi. Örugglega sú mesta lífsreynsla sem ég hef orðið fyrir á ævinni var fæðingin hans enda tók hún 32 tíma. Í dag fékk hann köku í leikskólanum og svo komu ömmurnar og afarnir í mat til okkar í kvöld. Þá fékk einkasonurinn líka aðra köku og sprauturjóma. Honum fannst það ekki leiðinlegt. Tókst vel hjá honum að blása á kertin. Afmælisveislan er svo á sunnudaginn.