Í dag fékk ég tvo gesti með mér í vinnuna. Þegar við vorum að leggja af stað í morgun þá var einkasonurinn alveg ómögulegur, hann var viss um að Raggi rostungur og Palli hákarl vildu alls ekki vera heima. Ég var ekkert á því að fara með þá í leikskólann enda miði uppi í leikskóla þar sem mælst er til þess að krakkar komi einungis með bækur eða geisladiska með sér í leikskólann. Einkasonurinn vildi hinsvegar alls ekki skilja vini sína eða tuskudýrin eftir heima og þar sem mér finnst leiðinlegt að rífast á morgnanna áður en maður byrjar daginn kom ég með þá málamiðlun (eftir smá tíma) að þeir færum bara með mér í vinnuna. Einkasonurinn var hæstánægður með það og einnig Raggi rostungur og Palli hákarl, allir fóru því sáttir af stað út í daginn. Þegar í vinnuna var komið þá ákváðu þó Raggi rostungur og Palli hákarl að bíða bara í bílnum, þeir biðu því stilltir í bílnum í allan dag og tóku á móti einkasyninum þegar við sóttum hann á leikskólann seinnipartinn.
Í dag eru þrjú ár síðan ég átti einkasoninn, já ótrúlega fljótt að líða. Að sjálfsögðu er ég eins og flestar mæður og segi það hiklaust að þetta sé stærsta upplifun lífsins og besta og mesta afrek sem ég hef gert. Á þessum tíma fyrir þremur árum var ég búin að vera með hríðir í rúmlega sólahring og búið að sprengja belginn, komin með dripp í æð og ljósmóðirin sem var að fara að vakt var hálf svekkt yfir því að þurfa að fara þar sem hún var viss um að barnið væri að koma. Hann leit dagsins ljós sex tímum seinna.
Ummæli