Fara í aðalinnihald

Færslur

Sýnir færslur frá nóvember, 2008

Jólagjafirnar tilbúnar

Jæja, ég er að mestu búin að kaupa allar jólagjafirnar og er að spá í að klára það á morgun enda sögur um að allt muni hækka um helgina. Það fer því hver að verða síðastur þar sem ekki hækka launin, þau bara lækka. Hef svo sem ekki skrifað mikið um þessa blessuðu kreppu hérna enda nóg talað um hana annars staðar. Ætli það sé ekki bara best að taka einn dag fyrir í einu, einn mánuð fyrir í einu og sjá hvernig þetta spilast en eiginmaðurinn er t.d. einn af þeim sem missir vinnuna þann 1. febrúar. Æ, en það eru að koma jól og aðventan einn skemmtilegasti tími ársins. Er nokkuð hægt annað en að gleðjast yfir því, ég er t.d. búinn að setja jólaljós í gluggana hjá mér og á dagskrá að setja upp restina af jólaskrautinu um helgina.

Vá hvað ég er þreytt núna. Hef lítið sem ekkert verið heima hjá mér síðustu daga og loksins er ég bara búin á því. Ég ætla ekki að gera neitt í kvöld og fara snemma að sofa. Best að drífa sig að gera ekki neitt.

Slysaforvarnir

Ég var að koma af skemmtilegu og mjög áhugaverðu námskeiði/fyrirlestri hjá foreldrafélagi leikskólans um slysaforvarnir barna flutt af Herdísi Storgaard. Verst hvað það mættu ótrúlega fáir þar sem maður hefur mjög gott af því að fá kennslu og áminningu um öll þau atriði sem rædd voru á námskeiðinu. Mér finnst nú helst að það ætti að vera skylda fyrir foreldra að fara á svona námskeið. Ég lærði a.m.k. fullt.

7 ár - ullarbrúðkaup

Ég hef verið gift eiginmanninum í 7 ár í dag, skv. bókunum er þetta ullarbrúðkaup sem á vel við í kreppunni. Ótrúlegt til þess að hugsa að við höfum verið gift í heil sjö ár og þekkst í alls 12 ár. Já, tíminn líður hratt þegar lífið er skemmtilegt. Ætlunin er að fara eitthvað út að borða líklega bara á skyndibitastað þar sem við ætlum að ná í bíó á eftir klukkan átta. Það er sjálfur Jón bóndi eða James Bond sem við hjónakornin ætlum að sjá. Legg ekki í tíu bíó þar sem ég er hrædd um að þá muni ég nú bara sofna. Best að drífa sig, ekki á hverjum degi sem maður kemst í bíó saman þegar maður er með lítinn gaur.

Jólaboðið og amma Sigga

Jólaboðið tókst vel. Við mættum rétt um hádegisbilið og gerðum allt tilbúið. Frændfólkið fór svo að týnast inn um eitt leitið og um tvö leitið var kaffiborðið orðið svo fullt að það komst ekki snitti meira á það þannig að þá var kominn tími til að borða og kjafta. Það gerðum við næstu tvo tímana og það voru glaðir og saddir veislugestir sem fóru heim tveimur tímum seinna. Við hjálpuðum svo til við að ganga aðeins frá en vá hvað ég var þreytt þegar ég kom heim. Hef ekki gert neitt og mun ekki gera neitt meira í kvöld. Amma Sigga hefði orðið 83 ára í dag en hún var kjarnakona sem eignaðist alls 15 börn og kom þeim öllum til manns. Það hefur verið fjör á því heimilinu á Sunnubrautinni þegar allir krakkarnir voru ungir. Ekki nóg með það heldur voru amma og afi eggjabændur í Kópavoginum. Æ, ég sakna hennar.

Það styttist í jólin

Það styttist í jólin og fyrsta jólaboðið er á morgun. Reyndar hefði amma mín orðið 83 ára á morgun þannig að ákveðið var að halda jólaboð fjölskyldunnar á þeim degi sem er bara ágætt. Þá er enginn búinn að bóka sig eitthvað annað enda hafa alls 64 (börn og fullorðnir) skráð sig í jólaboðið og þetta eru allt afkomendur ömmu 'Siggu og afa Ingólfs (og auðvitað líka þeir sem hafa verið svo heppnir að gifta sig inn í þessa glæsilegu fjölskyldu). Gleðifréttir dagsins eru þær að bróðir minn eignaðist sinn annan son í dag. Hann er fimm árum yngri (sko bróðir minn) og strax kominn fram úr mér með barnaskarann, hahaha! Óska foreldrunum innilega til hamingju með þennan gullmola.

Með mömmu í vinnuna

Í dag fékk ég tvo gesti með mér í vinnuna. Þegar við vorum að leggja af stað í morgun þá var einkasonurinn alveg ómögulegur, hann var viss um að Raggi rostungur og Palli hákarl vildu alls ekki vera heima. Ég var ekkert á því að fara með þá í leikskólann enda miði uppi í leikskóla þar sem mælst er til þess að krakkar komi einungis með bækur eða geisladiska með sér í leikskólann. Einkasonurinn vildi hinsvegar alls ekki skilja vini sína eða tuskudýrin eftir heima og þar sem mér finnst leiðinlegt að rífast á morgnanna áður en maður byrjar daginn kom ég með þá málamiðlun (eftir smá tíma) að þeir færum bara með mér í vinnuna. Einkasonurinn var hæstánægður með það og einnig Raggi rostungur og Palli hákarl, allir fóru því sáttir af stað út í daginn. Þegar í vinnuna var komið þá ákváðu þó Raggi rostungur og Palli hákarl að bíða bara í bílnum, þeir biðu því stilltir í bílnum í allan dag og tóku á móti einkasyninum þegar við sóttum hann á leikskólann seinnipartinn.

Glóðurauga við sjónvarpsgláp

Frægt er orðið í minni fjölskyldu þegar ég fékk glóðurauga við það að horfa á sjónvarpið á mínum yngri árum. Ég verð að viðurkenna að þegar ég varð eldri skildi ég ekki hvernig mér tókst það. Núna hef ég skipt um skoðun. Einkasonurinn getur ekki setið kyrr fyrir framan sjónvarpið og er út um allt. Hann er frekar rólegur fyrir framan sjónvarpið en þarf alltaf að vera að hnoðast út um allan sófa og öll gólf, ég bíð bara eftir því að hann fái einnig glóðurauga einn daginn þegar hann er að horfa á sjónvarpið.

Námskeið í fleirtölu

Er núna á tveggja daga námskeiði í GIS (landupplýsingakerfi og kortagerð fyrir þá sem ekki þekkja) og ég verð að segja að það er virkilega skemmtilegt en seinni dagurinn er á morgun. En vá, hvað ég var þreytt í kvöld, það tekur á "að vera í skóla" allan daginn. Ætlaði svo á annað námskeið í kvöld, sem sagt sundnámskeið með einkasyninum en honum tókst að sofna í bílnum á leiðinni á námskeiðið þannig að ég nennti ekki að standa í því að vekja hann og drösla honum ofaní sundlaugina hálfsofandi enda vorum við líka orðin sein. Því dreif ég mig bara til baka en fyrir vikið þá sofnaði hann frekar seint í kvöld. Reyndar skil ég hann vel að hafa sofnað svona, enda dimmt og drugnalegt í allan dag. Hvar er dagsbirtan? Kannski komin í frí fram yfir jól?

Smákökubakstur

Helgin hefur einkennst af smákökubakstri frá a-ö. Í gær bökuðum við einkasonurinn tvær sortir af smákökum, fyrst lakkrístoppa og síðan piparkökur sem einkasonurinn var þvílíkt æstur að fá að skreyta sem hann fékk ekki að gera fyrr en í morgun. Í dag voru einnig heldur betur framkvæmdir í hólminum. Í íbúðinni voru bakaðar um 1300 Sörur, geri aðrir betur. Reynar vorum við fjórar fullorðnar konur þannig að Sörurnar voru bakaðar í góðum félagsskap og hluti a þessum Sörum verður í jólaboði stórfjölskyldunnar eftir viku. Verð samt að viðurkenna að ég er nokkuð þreytt eftir daginn en ánægð með afrekin og ég veit að ég er smá skrítin en þetta var bara nokkuð skemmtilegt. Svo er það bara á sama tíma að ári, einhverjar yfirlýsingar voru um að baka ekki svona margar kökur en það kemur í ljóst hvort það stenst eftir ár. Ég er sem sagt búinn að baka þrjár smákökutegundir og aðventan ekki byrjuð. Er ég kannski búinn með smákökubaksturinn fyrir þessi jól?

Tónleikar

Hvað er betra í miðri kreppu en að fara á tónleika og lyfta sér aðeins upp. Það gerði ég í gær en ég dreif mig á skemmtilega tónleika með vinkonu minni. Skemmti mér vel og hugsaði bara jákvætt eins og ótrúlegt hvað við eigum marga góða tónlistarmenn og konur sem öll gáfu vinnu sína til að styrkja gott málefni. Nú er eins gott að leika Pollýönnuleikurinn á hverjum degi.

Nöfnin

Það er greinilegt að einkasonurinn er að verða stór strákur og ekkert smábarn lengur. Í gær þegar við vorum að keyra í sund þá var hann aðeins að velta fyrir sér hlutunum eins og oft áður. Einkasonurinn: "Mamma af hverju kallar þú pabba Sigga, Sigga?" Móðirin: "Nú af því að hann heitir Siggi" Einkasonurinn: "Nei, hann heitir Sigurður Ólafsson" (ákveður að vera ekkert að rífast um þetta og spyr því) Móðirin: "En veistu hvað ég heiti?" Einkasonurinn: "Mamma Lilja" Móðirin: "Ég heiti Lilja Bjarklind Kjartansdóttir" (Einkasonurinn reynir að endurtaka nafnið og hugsar sig um en hlær og segir svo): "Þetta er bara einhver útlenska"

Úlfarsfell

Eftir frekar myglaða helgi fórum við, litla fjölskyldan fór í gær, sunnudag í ágætis göngutúr á Úlfarsfell. Einkasonurinn var mjög ánægður með framtakið en var frekar hræddur um að við myndum rekast á einhverja úlfa enda vorum við að fara á "úlfafjall". Við sluppum sem betur fer við alla úlfana en skemmtum okkur þeim mun betur í staðinn. Mæli með því að drífa sig aðeins út í náttúruna frekar en að hanga inni. Fleiri myndir á heimasíðu einkasonarins.

Ísbíltúr

Litla fjölskyldan fór í tvo bíltúra í dag og gleymdum því á meðan hvað bensínið er orðið dýrt og nutum þess að vera í bíltúr.  Fyrr í dag keyrðum við niður Laugaveginn en það höfum við ekki gert heillengi. Það var bara mjög gaman, allt krökkt af fólki á Laugaveginum enda þokkalega gott veður. Við hefðum örugglega drifið okkur í göngutúr en þar sem húsmóðirin er að reyna að ná úr sér ljótum hósta ákvaðum við að láta það vera í þetta skiptið og létum okkur nægja að keyra niður Laugaveginn.  Yfirleitt erum við svo bara heima á laugardagskvöldum enda með lítinn stubb sem fer snemma að sofa. Eftir kvöldmatinn var húsmóðirin hinsvegar aftur orðin eitthvað eirðarlaus og við drifum okkur aftur í smá bíltúr sem endaði í ísbúð Vesturbæjar sem er staðsett á Grensásveginum. Þar splæsti eiginmaðurinn á einn líter af gamla ísnum. Einkasonurinn er oftast farinn að sofa á þessum tíma en hann sofnaði í fyrri bíltúrnum í dag og er því ennþá nokkuð hress. Þeir feðgar eru núna að horfa á fjölskyldumynd á ...

Kósíkvöld

Hvað er betra að gera á föstudagskvöldi en að borða heimatilbúinn föstudagsborgara ala eiginmaðurinn og hafa það næs fyrir framan sjónvarpið með fjölskyldunni. Kveikja á kertum og hafa kósíkvöld. Það ætla ég að gera í kvöld.

Eitt og annað

Fór í góða göngu í gær þar sem við löbbuðum á gamlar slóðir, sjálft Kársnesið en það mætti segja að ég sé ættuð af Kársnesinu enda gengum við framhjá mörgum stöðum sem ég þekki vel og sem ættingja búa eða hafa búið. Gönugtúrinn hófst frá Sporthúsinu og hringinn í kringum Kársnesið. Skemmtilegar umræður og góður göngutúr, stoppuðum eitt pissustopp á leiðinni og rétt náðum til baka í Sporthúsið áður en það fór að hvessa og rigna aðeins. Í kvöld var svo fyrirlestur hjá foreldrafélaginu sem varð frekar lítið úr vegna tæknilegra örðugleika, við reynum aftur eftir tvær vikur.

Nóttin

Af hverju er svona erfitt að vakna á morgnanna? Það hefur líklega eitthvað með það að gera að það er frekar dimmt úti þessa dagana. Einkasonurinn skilur þetta alls ekki, af hverju þurfum við að vakna þegar nóttin er? Af hverju erum við að fara í leikskólann þegar það er ennþá nótt? Í dag fórum við í sund um kl. 18, þegar ég var að drífa hann í útifötin fór hann að skellihlæja, fannst ég stórskrítin, við færum sko ekkert í sund því að það væri komin nótt. Hvað ætlaði ég eiginlega að gera í sundinu að nóttu til, við ættum nú bara frekar að fara að hátta. Við drifum okkur þó í sund og höfðum gaman að þó svo að það væri komin nótt.

Fjögur ár

Einkasonurinn varð fjögurra ára í dag og að sjálfsögðu var haldin heljarinnar veisla með fullt af afmælisgestum og pökkum. Íbúðin var troðfull út að dyrum en við vonum að allir hafi skemmt sér vel, a.m.k. gerði afmælisbarnið það og foreldrarnir. Einkasonurinn var sérstaklega ánægður með allar gjafirnar og þökkum við vinum og vandamönnum kærlega fyrir. Það var ánægður strákur sem fór að sofa í kvöld. Ótrúlegt að hugsa til þess að akkúrat fyrir ári síðan þá vorum við á leiðinni í fjölskylduferð til Florida, dollarinn undir 60 kr. og íslenska hagkerfið, þar á meðal bankakerfið á blússandi siglningu. Já, þá var öldin önnur.

Afmælisundirbúningur

Er á fullu að undirbúa fjögurrára afmæli sem verður haldið hérna kl. 14 á morgun. Þriðja kakan í ofninum og nóg að gera. Ég ætla að reyna að búa til Spidermanköku sem var einlæg ósk einkasonarins, ég er þó ekki alveg viss um hvernig það tekst til enda ekki fræg fyrir listræna hæfileika mína, það endar kannski bara með einfaldri súkkulaðiköku. Best að halda áfram. Uppfært: Ein mynd segir meira en þúsund orð: