Ég er á endurmenntunarnámskeiði sem stóð yfir í allan dag og heldur áfram allan daginn á morgun. Það er frekar strembið en nokkuð skemmtilegt. Mér finnst líka áhugavert að sjá hvernig mismunandi fólk bregst mismunandi við verkefnunum. Í mínum hóp erum við fjórar mjög svo ólíkar konur og ótrúlega skemmtilegt að sjá hvernig við bregðumst mismuandi við hlutunum, hvaða hlutverk við tökum og hve mismunandi skoðanir við höfum. Þessi athugun mín er þó ekki verkefni námskeiðsins heldur verkefnastjórnun og erum við öll saman með eitt verkefni sem er virkilega spennandi og vona ég svo innilega að það verði framkvæmt. Ég ætla þó ekki að nefna það hérna enda fer maður ekki að ljóstra upp iðnaðarleyndarmálum á blögginu.
Í dag eru þrjú ár síðan ég átti einkasoninn, já ótrúlega fljótt að líða. Að sjálfsögðu er ég eins og flestar mæður og segi það hiklaust að þetta sé stærsta upplifun lífsins og besta og mesta afrek sem ég hef gert. Á þessum tíma fyrir þremur árum var ég búin að vera með hríðir í rúmlega sólahring og búið að sprengja belginn, komin með dripp í æð og ljósmóðirin sem var að fara að vakt var hálf svekkt yfir því að þurfa að fara þar sem hún var viss um að barnið væri að koma. Hann leit dagsins ljós sex tímum seinna.
Ummæli