Spurning dagsins í dag er: Af hverju fá börn alltaf ælupestir að nóttu til? Þetta var spurningin sem ég spurði mig í nótt kl. 3.30 þegar einkasonurinn sem var kominn uppí til okkar ældi uppi í rúmminu. Sem betur fer fór það bara í lakið og á tvo kodda en sængurnar sluppu í þetta skiptið. Við vorum svo vakandi í nótt og horfðum á Dýrin í Hálsaskógi. Honum tókst að æla einu sinni í viðbót innan við klukkutíma síðar og svo sofnaði hann og vaknaði eiturhress. Ég krossa alla fingur og tær og vonast til þess að þar með sé ælupestin búinn því þetta er eitt það erfiðasta sem ég geri, þ.e. að hugsa um barn með ælupest og fá ælupest enda var ég viss um að ég þyrfti að æla í nótt en með dyggir hjálp frá eiginmanninum tókst mér að halda öllu niðri og vonast til að þar með sé málinu lokið. Ætli það komi ekki í ljós fljótlega...
Í dag eru þrjú ár síðan ég átti einkasoninn, já ótrúlega fljótt að líða. Að sjálfsögðu er ég eins og flestar mæður og segi það hiklaust að þetta sé stærsta upplifun lífsins og besta og mesta afrek sem ég hef gert. Á þessum tíma fyrir þremur árum var ég búin að vera með hríðir í rúmlega sólahring og búið að sprengja belginn, komin með dripp í æð og ljósmóðirin sem var að fara að vakt var hálf svekkt yfir því að þurfa að fara þar sem hún var viss um að barnið væri að koma. Hann leit dagsins ljós sex tímum seinna.
Ummæli