Fara í aðalinnihald

Færslur

Sýnir færslur frá febrúar, 2007

Hugmyndabanki

Nú er námskeiðinu lokið og ég er ekki frá því að ég hafi lært eitthvað. Það frískar mann aðeins, að fara svona frá vinnunni og í allt annað umhverfi. Ég kem til baka uppfull af nýjum hugmyndum, bæði sem ég lærði á námskeiðinu og svo öðrum hugmyndum sem tengjast ekkert námskeiðinu. Vona að ég verði ekki búinn að gleyma því öllu á morgun þegar ég mæti í vinnuna og ef ekki þá verð ég að muna eftir að skrifa það allt niður. Svo mikið að muna...

Námskeið

Ég er á endurmenntunarnámskeiði sem stóð yfir í allan dag og heldur áfram allan daginn á morgun. Það er frekar strembið en nokkuð skemmtilegt. Mér finnst líka áhugavert að sjá hvernig mismunandi fólk bregst mismunandi við verkefnunum. Í mínum hóp erum við fjórar mjög svo ólíkar konur og ótrúlega skemmtilegt að sjá hvernig við bregðumst mismuandi við hlutunum, hvaða hlutverk við tökum og hve mismunandi skoðanir við höfum. Þessi athugun mín er þó ekki verkefni námskeiðsins heldur verkefnastjórnun og erum við öll saman með eitt verkefni sem er virkilega spennandi og vona ég svo innilega að það verði framkvæmt. Ég ætla þó ekki að nefna það hérna enda fer maður ekki að ljóstra upp iðnaðarleyndarmálum á blögginu.

Frúin hlær í betri bíl...

Það var svo kalt í gær en við drifum okkur samt út með einkasoninn í smá göngutúr og hann fékk að keyra plastbílinn sinn upp og niður brekkuna hérna hjá okkur. Honum fannst það ÆÐI og var ekkert á því að fara inn, enda enduðum við í bíltúr og fórum alla leið í Hafnarfjörðinn þar sem við nældum okkur meira að segja í kvöldmat.

Bangsakoppur og foreldraraunir

Einkasonurinn fékk láðan nýjan bangsakopp hjá frænda sínum áðan og tók sig strax til og pissaði í koppinn þegar við komum heim. Foreldrarnir vona að þetta sé ávísun á breyttari tíma því þó að hann viti alveg hvað koppur er og hafi nú alveg prófað það tryllitæki oft áður, þá á einkasonurinn stundum til að vera það þver að hann fæst ekki til þess að fá sér þar sæti, þrátt fyrir fortölur foreldranna. Hann drífur sig bara inn í herbergi og rekur alla í burtu, sérstakelga ef um ræðir stærri hlutann. Ef foreldrarnir koma nálægt við þá helgiathöfn segir einkasonurinn bara, mamma eða pabbi "farðu burt !"og þá þýðir ekkert annað en að leyfa einkasyninum að vera einum með sjálfum sér.

Langur laugardagur

Það var nóg að gera í dag sem byrjaði með því að eiginmaðurinn þurfti að fara á slysó í dag til að láta líta á augað á sér og það tók einungis rúmlega tvo tíma og það kallar maður gott. Er maður þá orðinn samdauna heilbrigðiskerfinu ef manni finnst það vera stutt að bíða í minna en tvo tíma eftir "bráðri" læknisaðstoð. Einkasonurinn var viss um hvað læknirinn sagði við pabba sinn og fræddi hann um það seinna um daginn, þó svo að við mæðiginin biðum heima þegar eiginmaðurinn fór uppá slysó. Við fórum á einn vinsælasta matsölustað höfuðborgarsvæðisins í hádeginu í dag og vorum svo heppin að mæta rétt um tólf því þá var næstum tómt en þegar við fórum rúmlega hálftíma seinna voru um 30 manns í biðröð og það skemmir ekki fyrir að þetta er einnig einn ódýrasti veitingarstaðurinn. Við einkasonurinn skiptum með okkur einum rétti. Hann fékk níu kjötbollur og ég fjórar. Við kíktum svo á búðina sem er í næsta nágrenni við þennan fræga veitingarstað, þ.e. IKEA. Eftir það kíkti ég í þrjár...

Glugginn minn

Fyrir utan gluggann á skrifstofunni minni í vinnunni er eitt helsta bílaþvottaplan bæjarins, um leið og hlýnar fyllist það af bíleigendum og bílum sem eru þrifnir hátt og lágt. Þar sem bílarnir og eigendur þeirra mæta þegar veðrið batnar hef ég farið að samsvara fjölgun á bílaþvottaplaninu með batnandi veðri og hækkandi sól. Í gær og einnig seinni partinn í dag var planið einmitt fullt af bílum og ég er ekki frá því að það hafi komið smá vorhugur í mig. Ég fór einmitt að spá í því í gær að þar fyrir utan er þverskurður af þjóðfélaginu. Fínir karlar á stórum bílum, heimavinnandi húsmæður á jeppum, mæður með krakka á stationbílum, háskólanemar á eldri bílum, tælendingar á japönskum bílum sem er búið að stækka græjurnar, gamlir leigubílstjórar, bæjarstarfsmenn á pallbíl með restina af moldinni og eitt sumarið var þar arabi mættur með arabíska teppið sitt og var að þrífa það. Kannski vantar einhverja eins og þreytta heimilisfeður og Pólverja en ég sé auðvitað bara þá sem hafa tíma til að þ...

ÖskuRdagur

Þá hefur maður upplifað það að fara með barnið sitt í aðgerð. Ekki var aðgerðins stór í þetta skiptið en engu að síður svæfing á einkasyninum og mér dauðkveið fyrir að horfa á hann svæfðan enda búinn að heyra misgóðar sögur um það. Faldi mig bara á bakvið eiginmanninn þegar hann var alveg að sofna en var hjá honum allan tímann nema þegar rörin voru sett í eyrun en þá vorum við send fram. Einkasonurinn öskraði að vanda áður en hann hitti lækninn og var nú líka frekar lítill þegar hann vaknaði aftur, þannig að dagurinn í dag var svona öskurdagur en ekki öskudagur. Hann var svo hinn hressasti í dag eftir aðgerðina en missti af öskudegi í leikskólanum, það var svo sem allt í lagi því þegar maður er tveggja ára þá hefur maður nú ekkert voðalega mikið vit á þessu. Það kemur annar öskudagur eftir þennan dag. Ég er einnig að skríða saman eftir leiðinlega pest sem virðist aldrei ætla að ljúka. Geri þó ráð fyrir að fara í vinnuna á morgun.

Fjórði dagurinn

Já hið ótrúlega hefur gerst í dag er fjóði dagurinn í ælupest hjá fjölskyldunni. Fórnarlambið að þessu sinni er undirrituð. Tókst reyndar minnst að æla, aðeins einu sinni en ýmislegt fór hina leiðina og svo er ég með hita sem maður á ekki að vera með þegar ælupest er annars vegar. Hef því haldið mig við rúmmið í allan dag og ætla að gera það áfram. Best að leggjast fyrir...

Hvenær er þessu lokið?

Þetta ætlar engann endi að taka. Einkasonurinn fór á leikskólann í dag og þegar hann var búinn að borða morgunmatinn á leikskólanum tókst honum að æla yfir allt þannig að hann var sóttur á leikskólann og ældi ekkert meira þann daginn. Ágæti saðferð til að losna við að vera í leikskólanum. Vonandi er hann orðinn hress, ætlum að prófa að senda hann aftur á morgun enda eiturhress í dag. Vorkenni bara aumingja leikskólakennurunum sem fengu æluna yfir sig og þurftu að þrífa allt upp. Já, leikskólakennarar fá alls ekki þá viðurkenningu sem þeir eiga skilið, hvorki launalega eða annað. Svo eru þeir að sjá um komandi kynslóðir í allt að 9 tíma á dag. Miklu lengur en foreldrarnir.

Enn um þarfasta þjóninn

Mér var bent á eftirfarandi frétt , en það má segja að viðkomandi hafi fundið upp eitthvað að viti. Í mínum fréttum er að helst að frétta að nýjasta heimilistækið sendur sig vel og var sko alveg peningana virði.

Næturbrölt

Í annað skiptið á jafn mörgum nóttum þurftum við að skipta um á rúmminu. Í þetta skiptið rann allt niður hjá einkasyninum. Gullfoss og Geysir hafa sem sagt heimsótt fjölskylduna eða a.m.k. einn fjölskyldumeðlim þessa helgina. Við viljum ekki frekari heimsókn, takk fyrir. Nóttin í nótt endaði með því að ég fór í sturtu kl. 5.00 og fékk svo martröð í kjölfarið þar sem Bandaríkjamenn með George Bush í broddi fylkingar réðust á Ísland og ég átti í fullu fangi með að forðast loftárásir. Faldi mig í vinnunni, í blokk í Vesturbænum og heima hjá tengdó og slapp alltaf naumlega og þá vaknaði ég loksins. Púff!!!

Ælupest

Spurning dagsins í dag er: Af hverju fá börn alltaf ælupestir að nóttu til? Þetta var spurningin sem ég spurði mig í nótt kl. 3.30 þegar einkasonurinn sem var kominn uppí til okkar ældi uppi í rúmminu. Sem betur fer fór það bara í lakið og á tvo kodda en sængurnar sluppu í þetta skiptið. Við vorum svo vakandi í nótt og horfðum á Dýrin í Hálsaskógi. Honum tókst að æla einu sinni í viðbót innan við klukkutíma síðar og svo sofnaði hann og vaknaði eiturhress. Ég krossa alla fingur og tær og vonast til þess að þar með sé ælupestin búinn því þetta er eitt það erfiðasta sem ég geri, þ.e. að hugsa um barn með ælupest og fá ælupest enda var ég viss um að ég þyrfti að æla í nótt en með dyggir hjálp frá eiginmanninum tókst mér að halda öllu niðri og vonast til að þar með sé málinu lokið. Ætli það komi ekki í ljós fljótlega...

Megavika

Eftir að við fengum okkur pizzaofn komumst við að raun um að pizzurnar frá Dominos eru ekkert svo sérstakar og vorum búinn að lofa okkur því að vera ekkert að kaupa þetta drasl frá Dominos lengur heldur bara búa til okkar eigin pizzu og hefur það gengið eftir hjá okkur þangað til í dag. Við létum freystast af auglýsingum og keyptum okkur Dominos pizzu á megaviku á leiðinni heim úr sundi í kvöld. Ekki nóg með það heldur var líka keypt Dominos pizza í vinnunni í hádeginu þannig að ég held bara að ég sé að breytast í eina slíka. Ég verð nú samt að segja að pizzurnar sem eiginmaðurinn gerir í pizzaofninum eru miklu betri en þetta er nú voða þægilegt og ódýrt svona einstaka sinnum. Einkasonurinn borðaði heilar tvær sneiðar og var nú heldur betur ánægður með Dominos. Svar við spurningu gærdagsins er að sjálfsögðu fjarstýring eins og litli bróðir giskaði réttilega á. Fjölskyldan getur hreinlega ekki verið án þess og fyrir öll herlegheitin borguðum við 5000 kr. sem mér fannst nú heldur mikið ...

Mikilvægasta heimilistækið

Við endurnýjuðum mikilvægasta heimilistækið í dag eftir miklar vangaveltur um hvort það borgaði sig því okkur fannst það heldur dýrt. Hinsvegar ef maður skoðar tölfræðina og kr/notkun þá mætti segja að þetta heimilistæki sé alveg peningana virði. Á þessu heimili er þetta heimilistæki notað daglega. Gamla útgáfan var orðinn úr sér gengin eftir margra ára notkun og misgóða meðferð. Allir fjölskyldumeðlimir nota þetta heimilistæki og það er stöðug barátta um yfirráð á því og eins og algengt er, vinnur oftast sá frekasti. Spurning dagsins er því, hvaða heimilistæki er hér verið að lýsa? Ég þreytist seint á að segja sögur af einkasyninum og í dag fór hann með okkur að velja heimilistækið. Í búðinni rakst hann á ísskáp og opnaði hann og sagði svo "enginn matur" og hrissti hausinn og fannst lítið varið þannig ísskáp.

Orkubolti

Á þeim tveimur tímum sem ég og einkasonurinn eyddum saman í dag eftir vinnu og þangað til heimilisfaðirinn kom heim tókst litla orkuboltanum mínum að taka alla púðana úr sófanum, tvisvar sinnum og ryksuga sófann einu sinni. Byggja flott legohús með mér og rífa það allt sjálfur niður, dreifa kubbunum um allt gólf og ganga svo frá þeim í plastkassann. Ná aftur í ryksuguna eftir að við vorum búinn að ganga frá ryksugunni frá því að sófinn var ryksugaður og ryksuga ganginn og byrja að búa til kvöldmatinn, auk þess að hlaupa 100x fram og til baka frá herberginu og inn í stofu með eittthvað dót. Ég horfði á og já, gekk frá púðunum í sófann. Það er ekki hægt að segja annað en það sé mikið að gera hjá einkasyninum þessa dagana.

Sunnudagur til leti

Það eina merkilega sem við gerðum í dag var að fara í 1 árs barna afmæli hjá bróðursyni mínum. Það var glæsilegt eins og við var að búast og veitingarnar á við fermingaveislu. En við vorum í einhverju letikasti í dag þannig að það var nú ekki mikið annað gert en að drífa sig í veisluna og svo til baka aftur með smá stoppi hjá tengdó. Æ, stundum á maður bara að vera í letikasti á sunnudögum.

Drottning skipulagsins

Ég elska að skipuleggja. Skipulag, skipulag og aftur skipulag eru mínar ær og kýr. Fór í dag í Office One og keypti mér annað box fyrir handskrifaðar og útprentaðar uppskriftir sem ég hef safnað í gegnum árin. Núna er ég með eitt box fyrir kökur, eftirrétti og saumaklúbbsrétti og annað box fyrir mataruppskriftir. Allt raðað í stafrófsröð, hver uppskrift á sér spjalid sem auðveldlega er hægt að finna og taka úr boxinu og jafn auðvelt að láta í boxið aftur. Það besta af öllu er að mér finnst þetta svo skemmtilegt. Ef þetta jaðrar ekki við áráttu þá veit ég ekki hvað.

Heilbrigðiskerfið

Fór á áhugaverða ráðstefnu í morgun um öryggi sjúklinga. Minnir mann á að það kemur að því hjá öllum að eiga nána ættingja sem þurfa að leggjast inná sjúkrahús. Eins gott að vera með góð sjúkrahús og að einhverjir fjármunir séu lagðir í heilbrigðiskerfið.

Á fæðingardeildina

Ég var svo heppin að fá að fara uppá fæðingardeild í dag og kíkja á nýfædda frænku. Hún var alveg yndisleg og svakalega sæt, enda fannst mér hún líkjast ættinni okkar. Í lyftunni á leiðinni upp á fæðingardeildina rifjaðist upp fyrir mér þegar ég var í þessari sömu lyftu fyrir rúmlega tveimur árum á leiðinni upp að fæða einkasoninn. Æ, ég var dauðfeginn því að vera ekki á leiðinni að fæða aftur. Það er spurning hvernær og hvort einkasonurinn fái systkyni.

I biografen

Ég fór í bíó í kvöld, tja í fyrsta skiptið á þessu ári. Það er ekki eins og maður fari oft í bíó eftir að maður varð foreldri og sérstaklega eftir að bíómiðinn hækkaði upp úr öllu valdi. Fer að verða jafndýrt og fara í leikhús. Ég skellti mér á myndina Dreamgirls með vinkonu minni og sá sko ekki eftir því. Þarna er hin besta skemmtun og ég hágrét á köflum, sá nú ekki aðra sem grétu!!! Er víst orðinn eitthvað viðkvæmari eftir að ég varð foreldri. En alltaf gaman að fara í bíó og mæli með myndinni ef fólk er að leita að góðri skemmtun.

Mánudagur til mæðu

Lítið að gerast í dag enda mánudagur í öllu sínu veldi. Fór í vinnuna og kom svo heim til að hugsa um veikann strák. Við keyptum handa litla sjúklingunum okkar leikritið Dýrin í Hálsaskógi á DVD. Hann fékk að horfa aðeins á það um helgina og svo var ég beðinn um að setja það aftur í tækið, einkasonurinn sagði: "hofa á vonda... " því Mikki refur getur verið svolítið ljótur þegar maður er bara 2ja ára. Enda sat hann þétt upp við mig þegar við horfðum á restina af leikritinu í dag.

Veður, veikindi og bæjarferð

Veðrið í dag var yndislegt og alveg til þess fallið að fara með einkasoninn út í góðan göngutúr og leyfa honum að leika sér í snjónum. En eins og svo oft áður þennan vetur þegar veðrið er gott þá var einkasonurinn veikur, eina ferðina enn. Okkur tókst þó að komast aðeins út um kvöldmatarleytið þegar mákona mín kom og leysti okkur af í rúmlega tvo tíma. Við gátum spókað okkur niðri í Miðbæ, farið í bókabúð og göngutúr eins og við gerðum oft á kvöldin þegar við vorum barnlaus. Einkasonurinn var heima að passa föðursystur sína, þegar þau voru kominn upp í rúm klappaði hann henni á vangann og sagði allt í lagi, mamma og pabbi koma bráðum.

Snyrtivörukynning

Fór á snyrtivörukynningu hjá frænku minni í gær og hitti fleiri frænkur . Tókst auðvitað að eyða miklu meira en ég ætlaði mér eins og vanalega. Það var virkilega gaman og það var mikið talað, hlegið og læti og fjör eins alltaf þegar systur hennar mömmu hittast og auðvitað glæsilegar veitingar líka. Þegar ég kom heim fannst eiginmanninum ég frekar æst eftir allt fjörið og það tók mig smá tíma að ná mér niður.

Árshátíðarundibúningur

Við erum á fullu í árshátíðarundirbúning í vinnunni, en ég er ein af þremur sem eru í starfsmannafélaginu. Það vinna reyndar einungis um 30 manns á vinnustað mínum þannig að þetta er nú ekkert óyfirstíganlegt. Gerum ráð fyrir að það verði um 45 manns á árshátíðinni sem hefur fengið dagsetninguna 17. mars, sami dagur og Kaupþing heldur sína árshátíð. Við fórum í dag og kíktum á Iðnó og leist ágætlega á það en líklega passar það ekki alveg fyrir það sem við erum að leita. Þá er bara að halda áfram að leita, allar ábendingar eru vel þegnar.

Febrúar

Janúar búinn og bara kominn febrúar. Alveg ótrúlegt hvað tíminn flýgur. Bráðum koma páskar og svo bara vor. Þetta finnst mér áhugavert, maður ætti kannski að taka þátt eða kannski er bara best að drífa sig á útsölulok, það fer hver að verða síðastur.