Fara í aðalinnihald

Færslur

Sýnir færslur frá desember, 2007

Áramót og geymslan

Nú árið er liðið í aldanna skaut en ég ætla nú ekki að rifja það upp hér og eina áramótaheitið sem ég ætla að gefa er að ég vona að ég eigi jafn skemmtilegt ár árið 2008 eins og árið 2007 var. Annars flæddi inn í geymsluna hjá okkur í gær og eiginmaðurinn varði frídeginum sínum í það að laga til í geymslunni og þurrka upp bleytu. Sem betur fer flæddi ekki mikið og það skemmdist ekki mikið. Það hefur staðið til í hálft ár að laga til í geymslunni þannig að þetta var svona lán í óláni en alltaf fúlt að svona komi fyrir.

Jólaboð

Jæja, núna eru jólin næstum búin. Við einkasonurinn bökuðum eina köku í dag fyrir jólaboð sem haldið var í pabbafjölskyldu og drifum okkur svo í jólaboðið. Þetta verður líklega eina jólaboðið hjá stórfjölskyldunum þessi jól þannig að það mætti segja að jólin séu að mestu búinn hjá okkur núna eða svona hér um bil. Fékk þrjár bækur í jólagjöf í ár, er hálfnuð með bókina Þúsund bjartar sólir sem mér finnst mjög spennandi, veit samt ekki hvort hún er betri en Flugdrekahlauparinn sem er eftir sama höfund. Ætla að skila einni bók sem ég fékk frá vinnunni og þá er bara að lesa þriðju bókina sem er á ensku. Úti eru spengjuglaðir Íslendingar byrjaðir að sprengja og einkasonurinn sver sig í kynið og er heldur betur spenntur yfir öllum þessum sprengjum. Spennandi að sjá hvernig hann verður á gamlárskvöld þ.e.a.s. ef við komumst út fyrir rigningu enda spáin fyrir það kvöld ekki spennandi.

Jólasnjór

Jólin voru fín eins og alltaf, skemmtilegast var að eyða í fyrsta skipti aðfangadagskvöldi heima hjá okkur. En auðvitað var líka skemmtilegt að hitta alla ættingjana, borða góðan mat og fá pakka og gefa pakka. Ég er samt mest hissa yfir þessum jólasnjó og kuldanum, alveg steinhissa enda langt síðan svona snjór og kuldi var síðast á landi elds og ísa. Samt bara skemmtilegt, miklu skemmtilegra en rigning og rok. Hef svo sem ekkert mikið að segja svona á síðustu dögum ársins, maður er eitthvað svo andlaus og að spá í eitthvað annað en að skrifa hér, en koma tímar, koma ráð.

Gleðileg jól

Litla fjölskyldan í hólmanum óskar öllum sem lesa þessa síðu gleðilegra jóla og vonum að þið hafið átt eins skemmtileg jól og við.

Þorláksmessa

Við settum upp jólatréið í gær og ó boj, ó boj. Jólatréið sem við keyptum er svo stórt að það tekur alla stofuna. Ég held bara að ég hafi aldrei séð eins "feitt" jólatré. Einkasonurinn var þó himinlifandi þegar hann sá jólatréið í morgun og byrjaði strax að raða pökkunum undir jólatréið. Hann er heldur betur kominn í jólaskap, skruppum í eina búð í dag og þegar við vorum búinn að versla þakkaði móðir hans fyrir sig og óskaði afgreiðslumanninum gleðilegra jóla. Kristófer Óli þurfti auðvitað líka gera það og kallaði hátt og snjallt yfir alla búðina gleðileg jól þannig að öllum viðskiptavinunum fannst þeir líka þurfa að óska okkur gleðilegra jóla. Annars mæli ég með því að Þorláksmessa sé alltaf á sunnudegi, miklu minna stress þegar ég fór í bæinn um hádegisbilið þá var umferðin bara mjög þægileg minnti ekkert á neitt jólastress. Annars held ég bara að jólin séu alveg að koma, hér á bæ á bara eftir að laga smá til og skreyta jólatréið.

Jólaskap

Ef þið eruð ekki ennþá komin í jólaskap, þá er hérna ein tilraun til að koma ykkur í jólaskap. Þetta er eitt af tveimur lögum sem ég kann að spila á píanó , hitt er Gamli Nói.

Afmæli, jarðaför og jólatré

Eiginmaðurinn átti afmæli í gær og við, litla fjölskyldan, héldum uppá það með því að fara saman út að borða á Ruby Tuesdays þegar hann var loksins búinn að vinna kl. 20.00 en þetta var langur og erfiður dagur þar sem það var einnig jarðaför Möggu ömmu hans Sigga. Einkasonurinn fékk að vaka sérstaklega lengi í gærkvöldi því eftir kvöldmat fórum við og kláruðum það sem einkasonurinn hefur beðið eftir alla vikuna. Við fórum og keyptum eitt stykki jólatré. Einkasonurinn hafði einhverjar áhyggjur af því að við myndum kaupa svo stórt jólatré að það kæmist ekki inn í íbúðina okkar þar sem ég lofaði honum stóru jólatréi en þær áhyggjur voru óþarfar. Einnig hafði hann hugmyndir um að kaupa nokkur lítil jólatré, t.d. eitt sem ætti að vera inni í herberginu hans og annað inni í herberginu okkar. Sem betur fer var bara keypt eitt meðalstórt jólatré og einkasonurinn bíður núna spenntur eftir því að það verði sett upp svo að hann geti hafist handa við að skreyta jólatréð.

Jólastress?

Ákvað að skella mér aftur út í brjálæðið eftir kvöldmat, já ég er Íslendingur í húð og hár. Ég fór í Smáralind og fattað þá að þangað hef ég ekki komið í örugglega tvo mánuði eða áður en ég fór út til USA. Komst að því að ein jólagjöfin sem ég var búin að ákveða er uppseld og hef ekki hugmynd um hvað ég á að kaupa í staðinn þannig að ég get byrjað að verða smá stressuð með öllum hinum.

Allt að verða brjálað

Ég fór um kl. sjö og sótti eiginmanninn í vinnuna og fyrst að ég var nú á ferðinni ákvað ég að kíkja í nokkrar búiðir í leiðinni. Hefði betur sleppt því, kolniðamyrkur í rigningunni þannig að maður varla sér út um rúðuna þúsund bílar á hverju bílastæði sem eru sko ekki að gefa manni neinn séns! The icelandic way og svo kílómetralangar raðir í búðunum og Íslendingar útúrstressaðir eftir því. Ég er ekkert smá feginn að vera búinn að kaupa flest allar jólagjafir en ég þarf víst að hafa fyrir þessum fáeinu sem ég á eftir.

Ýmislegt

Vöknuðum aftur í morgun um klukkan hálfsex þar sem einkasonurinn gerði það sama og síðustu nótt þannig að hann fór ekki í leikskólann í dag. Það var frekar þreytt móðir sem steinsofnaði með syninum eftir hádegi. Í gær vorum við að ræða hvar einkasonurinn ætti heima bæði götuheitið og að það væri í Kópavogi. Kristófer Óli fór þá að velta þessu fyrir sér. Ég útskýrði hvað gatan héti og að gatan væri í Kópavogi. Kristófer Óli hugsaði sig aðeins um en sagði svo "Nei, mamma þú ert eitthvað að ruglast, gatan heitir gata!" Í nótt kemur svo hurðaskellir. Kristófer Óli er viss um að hann kemur með stórt dót handa honum enda er hann búinn að vera voðalega góður, segir hann sjálfur. Passið þið bara hurðirnar.

Í skóinn

Ekki skemmtiegt að vera vakinn upp um kl. fimm að morgni til við það að einkasonurin sem var búinn að skríða uppí fyrr um nóttina fékk illt í magann og kastaði upp yfir allt. Þegar einkasonurinn vaknaði svo í morgun þá beið hans kartafla frá jólasveininum. Jólasveininn hafði greinilega tekið eftir frekjukasti sem einkasonurinn tók í klukkustund í gær. Hann var nú samt þokkalega ánægður með kartöfluna, vildi bara fá 10 í viðbót og var viss um að ef hann borðaði kartöfluna þá hætti honum að vera illt í maganum. Þegar á leið morguninn þá fór hann samt að sleikja okkur upp og er búinn að vera voða góður og sagði að honum langaði nú frekar í dót í skóinn en kartöflu. Ég vona að jólasveininn hafi heyrt það. Hér kemur svo vinsælasta lagið á heimilinu í dag, sungið daginn út og daginn inn. Jólasveinar einn og átta (Þjóðvísa) Jólasveinar einn og átta, ofan komu af fjöllunum, í fyrrakvöld þeir fóru að hátta, fundu hann Jón á Völlunum. Andrés stóð þar utan gátta, það átti að færa hann tröllunum....

Aðventan

Gerð heilmikið jólalegt í dag, fór m.a. og skoðaði jólalandið í Hafnarfirði en hápunktur dagsins voru jólatónleikar í Langholtskirkju . Ég held að ég hafi aldrei gert jafn mikið á aðventunni eins og í ár enda hefur þetta verið mjög skemmtilegur tími og ekki allt búið enn. Held að ein ástæðan sé að ég var búinn að kaupa flestar jólagjafir 1. desember þannig að ég hef bara getað dúllað mér og gert eitthvað skemmtilegt þó svo að mér finnist nú líka skemmtilegt að kaupa jólagjafir. Í gær var svo velheppnuð jólagleði eða litlu jólin í vinnunni með dýrindis hlaðborði og svo kom Magga Stína og söng nokkur lög fyrir okkur.

Kemur ekki á óvart...

Which Friends Character Are You? You are Monica. You have a go-all-out nature. Your friends better watch out, because you play to win. Also, when it comes to order and cleanliness, you're a bit obsessive compulsive. Your best trait, however, is your thoughtfulness. You go to great lengths to care for your friends. Find Your Character @ BrainFall.com

Óveður

Það er bara brjálað verður dag eftir dag. Öllu skólahaldi aflýst í dag á höfuðborgarsvæðinu, held að það hafi ekki gerst síðan ég var lítil en það eru mörg ár síðan ég var lítil. Ég þorði ekki annað en að halda einkasyninum inni þar sem hann er "leik"skólabarn þannig að hann er í góðu yfirlæti heima hjá mér, a.m.k. fyrir hádegi.

Piparkökur

Við einkasonurinn bökuðum nokkrar piparkökur í dag, svona frekar uppá sportið en að borða þær. Einkasonurinn er upprennandi piparkökudrengur og tók baksturinn aðeins alvarlegra en móðir hans. Hafði miklar áhyggjur af því þegar hún skrapp aðeins úr eldhúsinu og enginn var til að fylgjast með piparkökunum í ofninum. Kristófer Óla finnst nú samt piparkökur óskaplega góðar og að hans mati eru sko engin jól án þess að það séu piparkökur. Við fórum um daginn í heimsókn til vinkonu minnar og þar komst hann í piparkökuskál. Nokkrum dögum seinna vorum við að keyra heim og þá sagði einkasonurinn eitthvað á þessa leið "Mamma, eigum við ekki að hafa svona jólaskraut og piparkökur eins og hjá Gunnhildi, það er svo jólalegt".

Út á hvað ganga jólin?

Þessi vika er aðeins rólegri heldur en sú síðasta og ég er búinn að vera heima hjá mér að kvöldi til þrjá daga í röð og það er bara nokkuð næs. Í kvöld kemur Stekkjastaur í bæinn og einkasonurinn bíður spenntur eftir honum þó svo að hann sé ekki alveg 100% á þessu. Heldur t.d. að jólin komi þegar jólasveinninn kemur og hann er nú kannski ekki alveg viss um hvað þessi jól eru eiginlega en veit þó að þau hafa eitthvað með pakka að gera og jólanammi og jólaskraut og piparkökur.

Jólalegt í Heiðmörk

Þar sem við erum að mestu búinn að kaupa jólagjafir þá þurftum við ekki að vera í búðum í dag. Í staðinn fórum við í Heiðmörk og kíktum þar á jólamarkað. Það var virkilega fallegt og jólalegt þar sem snjórinn lá á gróðrinum og hægt var að kaupa m.a. lopapeysur, kakó og jólatré. Einkasonurinn hlustaði skíthræddur á sögu um skrímsli þar sem við vorum svo heppin að það var einmitt sögustund þegar við litum við.

Rómó

Þegar dimma tók fór ég að verða duglegri að kveikja á kertum. Eitt skipti sagði ég einkasyninum að það væri nú frekrar rómó hjá okkur með kveikt á kertum og slökkt ljósið. Hann greip það og eftir það segir hann iðulega við móður sína. "Mamma, eigum við að hafa rómó". Hleypur til og finnur sprittkerti handa mér sem ég kveiki svo á og svo slekkur hann ljósið og þá setjumst við í sófann og höfum við það heldur betur rómó. Sumir eiga eftir að verða góðir einhvern daginn.

Jólatónleikar

Hátið aðventunnar heldur áfram. Í kvöld fór ég á jólatónleika hjá Neskirkju þar sem ein samstarfskona mín er í kór Neskirkju. Á tónleikunum voru kórinn, einsöngvarar og barrokkhljómsveit og verkið var Oratorían L'Allegro, IL Penserose ed il Moderato eftir Händel. Virkilega skemmtilegt verk og ég naut þess að hlusta á það. Held bara að ég geti ekki komist í meira jólaskap.

Jólahlaðborð

Ég og eiginmaðurinn ákváðum að það væri kominn tími til að njóta aðventunnar og fórum í kvöld á jólahlaðborð á Lækjarbrekku með góðum vinum. Þetta var virkilega gaman, jólahlaðborðið var glæsilegt og maturinn góður og svo höfðum við að sjálfsögðu góðan félagsskap til að njóta þess með. Þetta var því hin skemmtilegasta kvöldstund sem vonandi verður endurtekin að ári. Ég er ekki frá því að ég sé bara kominn í nokkuð gott jólaskap.

Aðventukaffi

Fyrsti í aðventu í gær og að því tilefni bauð stjórn starfsmannafélagsins uppá kakó og með því í 10 kaffinu í morgun. Einnig var kveikt á fyrsta kertinu á aðventukransi vinnustaðarins sem ég frétti í vikunni að héti Spámannskerti. Þetta var kærkomin tilbreyting og minnir mann á hvað það er alltaf gaman á aðventunni. Ég er búinn að plana heilmargt á aðventunni og það er bara í þessari viku.

Sörur

Í dag voru bakaðar smákökur í tonnatali. Sigurborg og Þórunn vinkona hennar komu til mín og við bökuðum hátt um 600 Sörur sem við skiptum svo bróðurlega á milli okkar og tók þetta tæplega sex tíma, geri aðrir betur. Enda var góð yfirumsjón með bakstinum, það getur ekki klikkað þar sem sú sem með það fór er þekkt fyrir kvennlegar dyggðir og súperefni í kvenfélagskonu. Getið þið nú! Að sjálfsögðu eru þetta bestu Sörur í heimi, nú er best að koma sér í mjúkinn hjá mér til að fá að smakka.

Desember

Jólin eru á næsta leiti og það er ekki frá því að maður finni smá jólastress í loftinu. Ég er hinsvegar búinn að kaupa allar jólagjafir og þarf ekkert að gera fyrir jólin nema pakka þeim inn. Fannst smá skrítið að þurfa ekki að fara og leita á fullu að jólagjöfum í dag. Ég á nú reyndar líka eftir að skrifa jólakort og baka og laga til og, og, og... Alltaf nóg að gera fyrir jólin en ég er nú ekkert voðalega stressuð, a.m.k. ennþá. Það eru sumir sem eru ekki mikið að spá í jólastressi. Fór í Hagkaup með einkasoninn í dag og hann var svo afslappaður og ánægður (eins og í rauninn nánast allaf) með að fá að skoða allt dótið að hann trallaði hástöfum svo mikið að konunni á undan okkur í röðinni varð að orði að það væri nú gott að vera svona lítill og hafa engar áhyggjur. Hann brosti bara og hélt áfram að syngja og tralla.