Fara í aðalinnihald

Færslur

Sýnir færslur frá október, 2007

Vinkonukvöld

Í gærkvöldi fór ég út að borða og í bíó með vinkonu minni sem kærkomin tilbreyting og mjög skemmtilegt. Reyndar var svolítið fyndið að við höfðum ætlað okkur að sjá allt aðra mynd í bíó en þegar í bíóið var komið tókum við alveg svakalega áhættu og prófuðum að fara á mynd sem við vissum ekkert um. Ég hélt fyrst að við hefðum gert algjör mistök þar sem fyrstu atriði myndarinnar eru frekar ógeðsleg en skipti fljótlega um skoðun og þetta var góð mynd og ég get alveg mælt með henni. Fór út af myndinn hugsandi hvað ég hefði það nú gott.

Saman

Við mæðginin áttum ágætis dag saman í dag. Heimilisfaðirinn var að vinna þannig að höfðum það bara rólegt saman þar sem við m.a. löguðum til saman, tókum miðdegislúrinn saman og fórum í göngutúr út í Bónus saman. Nauðsynlegt að "gera ekki neitt" stundum og vera bara saman. Ég fékk a.m.k. heilmikið út úr deginum þó svo að það hafi ekki verið neitt prógram í gangi og við vorum tvö ein saman allan daginn. Ótrúlegt hvað litli strákurinn minn er orðinn stór og hægt að rabba við hann um heima og geima. Að hans sögn er hann ekki lítill strákur heldur stór strákur eða jafnvel bara kallinn enda er hann að verða þriggja ára í vikunni.

Sköllóttur?

Einkasonurinn fór í klippingu í dag enda um að gera að vera sem flottastur fyrir sína fyrstu utanlandsferð. Hann hafði þó miklar áhyggjur af því að hann kæmi sköllóttur úr klippingunni en þegar bæði ég og hárgreiðslukonan höfðum fullvissað hann um að svo myndi ekki verða róaðist hann þó að honum þætti nú öruggara að halda í hendina á mér allan tímann sem hann var í klippingu.

Vegabréf og önnur mál

Náði í vegabréf feðganna í dag og ég get nú ekki sagt að myndirnar af þeim séu uppá margar fiska. Annar bítur í neðri vörina á sér og hinn svolítið krimmalegur með hálflokuð augun. Einkasonurinn er búinn að vera bleyjulaus alla vikuna í leikskólanum þannig að ótrúlegt en satt, hann er eiginlega hættur með bleyju og það áður en hann varð þriggja ára. Það þarf reyndar aðeins að ýta á eftir honum en það varð ekkert slys í leikskólanum nema einu sinni fyrsta daginn. Númer 2 er reyndar smá vandamál ennþá og næturnar en við tökum við öllum sigrum og höldum uppá þá.

Níu dagar

Það eru níu dagar þangað til að ég fer til Florida og ég er sko fyrir löngu byrjuð að telja niður. Það verður ágætt að yfirgefa þetta verður og fara í sólina í Orlando, Florida. Ég get ekki beðið...

Ég er kallinn...

Við fórum á foreldrafund í leikskólanum í gær, sem sagt sameiginlegan fund starfsmanna og foreldrafélagsins sem var nú alveg ágætt. Gott að fylgjast með hvað barnið manns er að gera í "hinu" lífinu sínu. Einn leikskólakennarinn kom að mér og sagði ég verð nú bara að segja þér hvað Kristófer Óli var að tala um í dag. Þegar við vorum að drekka í drekkutímanum segir Kristófer Óli við mig "Ég er kallinn, ég er í rafmagnsrúmminu, ég er kallin ég drekk bjór". Drekka bjór!!!! Ég var náttúrulega eins og auli og reyndi eitthvað að útskýra þetta en tókst auðvitað ekki. Það er ekki eins og við séum að drekka bjór á hverjum degi. Reyndar fann hann bjór í morgun sem er búinn að vera inni í skáp í fjóra mánuði, já fjóra mánuði og vildi endilega drekka hann. Við sögðum honum að þetta væri bara karlar sem að drekka bjór og þaðan hefur hann þetta örugglega. Ó, já það er eins gott að passa sig hvað maður segir, það fer allt lengra.

It can happen to you

Undur og stórmerki gerðust um helgina. Við hjónin fórum út að borða og í bíó á eftir og að lokum í smá heimsókn. Ekki var verra að við vorum ánægð með matinn og veitingarstaðinn og líka bíómyndina sem við ákváðum snögglega að fara að sjá og heimsóknin var skemmtileg að vanda. Skemmtilegt og velheppnað kvöld og minnir mann á að gera þetta oftar.

Pönnukökur

Undur og stórmerki gerðust í hólmanum í dag. Húsfrúin bakaði pönnukökur í morgun en það hef ég ekki gert í mörg ár ef ekki áratugi. Einkasonurinn bað móður sína um að baka pönnukökur, var reyndar með einhverjar hugmyndir um að kasta þeim upp í loft eins og Lína langsokkur en mér tókst að skjóta mér undan því. Pönnukökubaksturinn tókst ótrúlega vel þó ég segi sjálf frá. Reyndar voru þær alltof þykkar þannig að húsmæður sjöunda áratugarins hefðu skammast sín fyrir þær pönnukökur. Ég er hinsvegar húsmóðir á nýju árþúsundi og hrikalega stollt yfir því að takast að baka nokkrar pönnukökur þó svo að þær væru þykkar og já nokkrar voru í dekkri kantinum. Hins vegar gæti verið að ég þurfi að endurskoða ákvörðun mína því við erum ekki búinn að borða eina pönnuköku af þeim sem ég bakaði. Einkasonurinn smakkaði eina pönnuköku en kláraði hana ekki og ég hef nú reyndar aldrei verið neitt sérstaklega hrifin af pönnukökum þannig að ég er ekki búinn að fá mér neina. Sjáum til hvað gerist þegar húsbónd...

Afmæli nálgast

Einkasonurinn á afmæli eftir nákvæmlega tvær vikur. Foreldrarnir hafa notað það óspart og þegar hann biður um eitthvað hefur honum verið bent á að það þýði ekkert að gefa honum það núna því hann fái það kannski í afmælisgjöf. Borvél, gítar, sverð, veiðistöng, byssa og ég veit ekk hvað. Í dag var hann hinsvegar búinn að fá nóg af því og sagðist bara ekkert vilja eiga afmæli, þá fengi hann kannski eitthvað dót strax.

Tommi og Jenni

Það eru fleiri en ég sem eru byrjaðir að telja niður. Við höfum aðeins verið að útskýra fyrir einkasyninum að við séum að fara í flugvélina til útlanda og þar geti hann m.a. hitt góðvin sinn Mikka mús. Í morgun var einkasonurinn að horfa á nýfundna vini sína Tomma og Jenna í veikindunum en við keyptum spólu (dvd disk) með þeim félögum fyrir um tveimur vikum. Þegar myndin var um hálfnuð og hann búinn að hlæja nokkuð að þeim félögum þá spyr hann mig voða fallega hvort að við getum ekki líka hitt þá Tomma og Jenna í útlöndum. Það var bara sætt. Annars er einkasonurinn víst búinn að bjóða öllum leikskólakennurunum með sér til Florida eða að minnsta kosti búinn að lofa að skila kveðju til Mikka mús.

Eyrnabarn

Er heima í dag með strákinn minn en hann er ennþá veikur. Hef sterkan grun um að eitthvað sé komið í eyrun aftur. Eigum ekki tíma fyrr en á föstudaginn hjá HNE-lækninum (háls, nef og eyrna), þá kemur þetta betur í ljós. Er nú samt að vona að honum verði batnað fyrir þann tíma. Maður má vera bjartsýnn. Skemmtilegri fréttir... ...tvær og hálf vika eða 17 dagar þangað til við förum út til Florida, USA og ég er sko byrjuð að telja niður.

Veikindi

Einkasonurinn ennþá veikur og lítið gert að viti í dag nema okkur hjónunum tókst að skreppa aðeins út í rúmlega klukkutíma í kvöld í smá afmælisboð. Takk kærlega fyrir okkur og takk kærlega fyrir pössunina.

Gengið niður Laugaveginn

Gekk niður Laugaveginn í dag með vinkonu minni frá Selfossi og það er örugglega í fyrsta skiptið á árinu sem ég geri það og nú er langt liðið á árið. Það var virkilega skemmtilegt og ég skil ekki af hverju ég fer ekki oftar. Nú þegar maður er orðin svona úthverfamús þá á ég ekki oft erindi niður á Laugaveginn og ætli úthverfamúsinni finnist það ekki of mikið fyrirtæki að setja kerruna í bílinn og klæða sig eftir veðri, utanbæjarvinkonu minni fannst það ekkert mál. Það er helst í hádeginu sem ég fer stundum með samstarfskonu minni að kíkja í einhverjar skemmtilegar búðir. Við fórum reyndar einmitt í gær í hádeginu (áður en ég fékk símtalið ) þar sem hún var að kaupa sér lopa og garn til að prjóna. Ég hef ekki prjónaði í mörg ár og jafnvel marga áratugi en ég fékk nú bara smá kitl í fingurna. Það er aldrei að vita nema ég taki upp prjónana aftur. Í öðrum fréttum var það að ég sofnaði kl. 20.00 í gær með einkasyninum og hann er ennþá veikur.

Veturinn er kominn

Það var hringt í mig í dag úr leikskólanum og mér tilkynnt að einkasonurinn væri kominn með yfir 39°C hita. Ég tók því eins og veturinn væri kominn og ný veikindahrina að byrja hjá einasyninum. Nú er ég öllu sjóvaðri í veikindum en það er nú samt alltaf erfitt að horfa á barnið sitt svona veikt. Ætla að fara að sinna barninu mínu.

Ljósmyndabók

Pantaði á netinu ljósmyndabók hjá mypublisher og fékk hana loksins í hendurnar í vikunni. Mig hefur lengi langað til að panta svona bók. Það er hægt að panta svona bók hér heima en þá er hún miklu dýrari og hugbúnaður sem fylgir því frekar stirður. Ég prófaði fyrst hjá öðru fyrirtæki í Bandaríkjunum en það kom í ljós að þeir tóku ekki íslenska stafi þannig að ég bara beið eftir betra tækifæri. Ég hélt að það hefði komið þegar ég kynntist mypublisher og gerði umrædda ljósmyndabók í júní. Þegar ég ætlaði að senda hana tók hugbúnaðurinn ekki við henni og þrátt fyrir að fá leiðbeiningar frá þjónustuborði gekk það ekki þannig ég beið róleg áfram. Í september tók ég þó eftir að það var búið a uppfæra hugbúnaðinn og viti menn ég gat loksins pantað ljósmyndabókina sem ég hafði búið til í sumar og látið senda hana af stað. Fyrir smá klaufaskap skráði ég inn vitlaust götunúmer þannig að það gekk smá erfiðlega að koma bókinni til mín. Síðan kom í ljós að það var ekki Pósturinn sem bar þetta út h...

Miðvikudagur

Þetta er búinn að vera erfiður dagur. Fundir og fundir og fundir. Þetta er einn af þeim dögum sem maður á bara að vera heima hjá sér og kveika á kertaljósum og horfa kannski á Americas Next Top Model . Ég ætla að gera það.

Ljósmyndanámskeið

Byrjaði á ljósmyndanámskeiði í dag og það besta við það er að ég fæ það frítt í gegnum stéttarfélagið. Námskeiðið stóð frá 16:30-19:30 og ég var þokkalega þreytt eftir það sérstaklega andlega. Tekur á þegar maður er orðinn óvanur að vera í skóla, jæja bæði orðin eldri og svo var ég auðvitað að vinna allan daginn. Í dag lærði ég um ljósop, hraða og white balance sem er notað til að stilla lithita. Einnig lærði ég um samspil ljósops, hraða og ISO. Hafði heyrt flest öll þessi hugtök áður en vantaði tengslin á milli. Vona að ég hafi lært eitthvað af því í dag. Á tvö skipti eftir á námskeiðinu sem verður næstu tvo þriðjudaga. Eftir þann tíma verð ég að sjálfsöguðu orðinn heimsklassa ljósmyndari eða svona næstum því.

Sunddrottning

Fór í sund í kvöld og það minnti mig á hvað ég mér finnst gaman í sundi. Nú er ég búinn að lofa sjálfri mér að fara í sund einu sinni í viku og þá á ég ekki við sundkennslu einkasonarins. Það var einnig gaman að koma aftur í "gömlu sundlaugina mína" í Kópavogi sem ég stundaði grimmt fyrir um tíu til fimmtán árum síðan. Það hafði ekkert breyst nema konurnar í afgreiðslunni voru núna pólskar. Ok, reyndar er líka verið að byggja nýja búningsklefa. Hinir voru bara til bráðabirgða sem voru byggðir fyrir um 15 árum.

Labbi labbi labb

Ég var eiginlega labbandi í allan dag. Byjaði á því að ég fór í góðan göngutúr með frænku minni fyrirhádegi um Elliðaárdalinn í frábæru veðri. Eftir hádegi fór ég í tveggja tíma göngutúr í Smáralindinni með vinkonu minni og tókst að kaupa mér einn bol. Svo seinni partinn þá skelltum við okkur fjölskyldan á Þingvelli og löbbuðum þar einn hring í haustlitunum. Enda er ég þreytt í löppunum núna.

Hvað á að hafa í matinn?

Það er alltaf jafn erfitt að ákveða hvað á að vera í matinn og hugmyndaflugið ekki uppá marga fiska. Ákvað í kvöld að prófa nýja aðferð með því að spyrja einkasoninn í bílnum þegar við vorum á leiðinni heim en bjóst svo sem ekkert við því að fá svar frá tæplega þriggja ára barni. Móðirin: "Hvað langar þig í matinn í kvöld, Kristófer?" Kristófer Óli: "Eitthvað gott." (Hugsar sig um) Kristófer Óli: "Mig langar í plokkfisk. Plokkfiskur er góður". PLOKKFISK!!! Það er eitt af því sem fer ekki inn fyrir mínar varir þó svo að mér finnist fiskur alveg ágætur þá get ég ekki sagt að plokkfiskur sé á meðal þess. Fengum okkur reyndar bara skyr og rúgbrauð en hann fær plokkfisk fljótlega. Ég ætla að fá mér eitthvað annað í matinn það kvöld.

Tagl

Ég er komin með svo sítt hár að ég get látið í tagl. Held að það hafi bara ekki gerst í 20 ár eða svo enda kann ég varla að láta hárið í tagl og finnst ég vera stórfurðuleg í útliti þegar ég prófa að setja hárið upp. Ætli það sé ekki bara kominn tími til að klippa hárið stutt.

Gönguklúbbur

Fór í þennan líka fína göngutúr í kvöld með nýstofnuðum gönguklúbb í vinnunni. Um 17% af vinnufélögunum mættu og það var sko engin rigning í kvöld heldur fínasta veður þannig að þeir sem mættu ekki misstu af miklu. Ætlunin er að labba vikulega og það var sko kraftganga og ég mátti hafa mig alla við að halda í við gönguforingjana. Bíð spennt eftir næsta miðvikudegi. Svo fyrir þá sem ekki vissu.. það er komið haust!

K eins og Kristófer Óli

Ég fór með einkasoninn í Hamraborg í dag til að láta taka passamynd af honum. Fattaði svo eftir á að ég hefði nú kannski alveg getað gert það sjálf. En í því sem við vorum að leggja bílnum í Hamraborg þá kallar einkasonurinn steinhissa. "Mamma, mamma þarna er K eins og Kristófer Óli" Ég lít í kringum mig og sé þá hvar stendur Kaupþing, loksins eftir margar vikur hefur lestur Stafakarlanna borgað sig.