Hakk og spagetti er á boðstólnum í þriðja skiptið þessa vikuna. Fengum það fyrst á sunnudaginn og svo aftur á þriðjudaginn, vorum boðin í mat í bæði skiptin. En þar sem þetta er reyndar uppáhaldið hjá feðgunum þá er það bara mjög gott mál. Ef einhverjum öðrum langar að bjóða okkur í hakk og spagetti, þá endilega bjóða sig fram. Í dag ákváðum við að elda í þriðja skiptið hakk og spagettí en það er reyndar bara handa einkasyninum (hann bað sérstaklega um það) en við ætlum að búa til eitthvað annað úr hakkinu okkar, ætli það verði ekki bara buff. Í þessum skrifuðu orðum eru feðgarnir í eldhúsinu að elda. Annar að elda og hinn að hjálpa til, einkasonurinn er nefnilega nokkuð viss um að það gangi ekki að elda nema hann hjálpi til.
Í dag eru þrjú ár síðan ég átti einkasoninn, já ótrúlega fljótt að líða. Að sjálfsögðu er ég eins og flestar mæður og segi það hiklaust að þetta sé stærsta upplifun lífsins og besta og mesta afrek sem ég hef gert. Á þessum tíma fyrir þremur árum var ég búin að vera með hríðir í rúmlega sólahring og búið að sprengja belginn, komin með dripp í æð og ljósmóðirin sem var að fara að vakt var hálf svekkt yfir því að þurfa að fara þar sem hún var viss um að barnið væri að koma. Hann leit dagsins ljós sex tímum seinna.
Ummæli