Fiskveiðar eru ofarlega á dagskrá hjá einkasyninum. Hann fékk veiðistöng í jólagjöf frá foreldrum sínum og síðan þá hefur hann dreymt um að komast í veiðiferð sem vonandi verður að veruleika í sumar. Hann er búinn að fara ófáar ferðir á bókasafnið og stefnan er þá ávallt tekinn á náttúrugripasafnið sem er einnig staðsett þar. Þegar þangað er kominn velur hann sér uppstoppaða fiska sem hann ætlar að veiða í sumar. Hann setur markið hátt, þorskur, lúsífer eða lax skal það vera. Í gær fann hann svo veiðistöngina og var upptekinn við það að veiða lax í sófanum í um klukkutíma þegar frænka hans var að passa hann.
Í dag eru þrjú ár síðan ég átti einkasoninn, já ótrúlega fljótt að líða. Að sjálfsögðu er ég eins og flestar mæður og segi það hiklaust að þetta sé stærsta upplifun lífsins og besta og mesta afrek sem ég hef gert. Á þessum tíma fyrir þremur árum var ég búin að vera með hríðir í rúmlega sólahring og búið að sprengja belginn, komin með dripp í æð og ljósmóðirin sem var að fara að vakt var hálf svekkt yfir því að þurfa að fara þar sem hún var viss um að barnið væri að koma. Hann leit dagsins ljós sex tímum seinna.
Ummæli