Við buðum tengdafjölskyldunni í mat, ekta íslenskt lambalæri með öllu tilheyrandi og eiginmaðurinn stóð sig frábærlega eldhúsinu eins og ávallt. Einkasonurinn hélt þriggja þátta sýningu fyrir gestina. Söng fullt af lögum sem hann hefur lært í leikskólanum, skipaði öllum fyrir verkum og dró valda gesti með sér inn í herbergi og hlátrasköllin heyrðust fram í stofu. Alltaf gaman að fá fjölskylduna í heimsókn, þar var m.a. rætt um sumarfrí og mig langar nú eiginlega bara að drífa mig á morgun suður á bóginn.
Í dag eru þrjú ár síðan ég átti einkasoninn, já ótrúlega fljótt að líða. Að sjálfsögðu er ég eins og flestar mæður og segi það hiklaust að þetta sé stærsta upplifun lífsins og besta og mesta afrek sem ég hef gert. Á þessum tíma fyrir þremur árum var ég búin að vera með hríðir í rúmlega sólahring og búið að sprengja belginn, komin með dripp í æð og ljósmóðirin sem var að fara að vakt var hálf svekkt yfir því að þurfa að fara þar sem hún var viss um að barnið væri að koma. Hann leit dagsins ljós sex tímum seinna.
Ummæli