Fór á mína fyrstu sinfóníutónleika í síðustu viku og það voru hvorki meira né minna en Vínartónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Það var virkilega gaman og svolítið öðruvísi en ég hef gert áður. Síðasta mánuð hef ég farið í fyrsta skipti á sinfóníutónleika, aðventutónleika og mozartónleika með óperukórnum í Reykjavík. Hef ekki mikið hlustað á sígilda tónlist en alltaf hrifist af henni, en kannski ekki fundist ég skilja hana nógu vel þar sem ég hef hvorki lært á hljóðfæri eða söng og skil ekkert í nótum. Annað hvort er smekkur minn að verða þróaðri eða ég er bara að verða gömul. Er að minnsta kosti byrjuð að snobba fyrir klassískri tónlist.
Í dag eru þrjú ár síðan ég átti einkasoninn, já ótrúlega fljótt að líða. Að sjálfsögðu er ég eins og flestar mæður og segi það hiklaust að þetta sé stærsta upplifun lífsins og besta og mesta afrek sem ég hef gert. Á þessum tíma fyrir þremur árum var ég búin að vera með hríðir í rúmlega sólahring og búið að sprengja belginn, komin með dripp í æð og ljósmóðirin sem var að fara að vakt var hálf svekkt yfir því að þurfa að fara þar sem hún var viss um að barnið væri að koma. Hann leit dagsins ljós sex tímum seinna.
Ummæli