Fara í aðalinnihald

Færslur

Sýnir færslur frá janúar, 2007

Handbolti

Jæja, þá er handboltadraumurinn búinn að mestu leiti og við getum nú alveg verið ánægð með okkar menn. Ég horfði nú ekki á marga leiki, líklega engan heilan leik en það var nú að hluta til vegna þess að ég hafði ekki taugar í þetta. Það voru víst allir fúlir út í Dani í dag og eins gott fyrir þá að hafa hægt um sig. Samstarfsmaður minn kom með nammi sem vanalega hverfur á augabragði var lítið hreyft í dag því þetta var danskt nammi. Klárast líklega á morgun.

Til augnlæknis

Einkasonurinn fór til augnlæknis í dag og hefur sem betur fer fengið augun frá pabba sínum þar sem hann var með mjög góða sjón miðað við aldur. Vissi reyndar ekki að tveggja ára börn eru með 2+, þ.e. fjarsýn. Aunglæknirinn var sérstaklega ánægð með sjónina hans þannig að við þurfum víst að hafa litlar áhyggjur af henni a.m.k. fyrst um sinn. Það er hinsvegar ekki hægt að skýra hræðslu við að hoppa í sundi með lélegri sjón. Komust æ oftar að því að hann er nú með frekar lítið ljónshjarta. Þegar einkasonurinn var búinn hjá augnlækninum fórum við og keyptum handa honum ís enda búinn að lofa því. Hann var þvílíkt ánægður með hann og sat stolltur á Stjörnutorginu í Kringlunni og sleikti sinn ís, enda búinn að vinna fyrir honum með því að vera duglegur hjá augnlækninum.

Sunnudagslæri

Við buðum tengdafjölskyldunni í mat, ekta íslenskt lambalæri með öllu tilheyrandi og eiginmaðurinn stóð sig frábærlega eldhúsinu eins og ávallt. Einkasonurinn hélt þriggja þátta sýningu fyrir gestina. Söng fullt af lögum sem hann hefur lært í leikskólanum, skipaði öllum fyrir verkum og dró valda gesti með sér inn í herbergi og hlátrasköllin heyrðust fram í stofu. Alltaf gaman að fá fjölskylduna í heimsókn, þar var m.a. rætt um sumarfrí og mig langar nú eiginlega bara að drífa mig á morgun suður á bóginn.

Sjónvarpsgláp

Það er ótrúlegt hvað það er alltaf leiðinlegt sjónvarp um helgar. Loksins þegar maður gefur sér tíma til að setjast niður og slappa af fyrir framan sjónvarpið á föstudags eða laugardagskvöldi er ekkert að sjá. Sem betur fer fékk ég lánaða fyrstu seríu af Grey's Anatomy hjá samstarfskonu minni í vikunni en ég hafði ekki séð einn þátt aðeins heyrt talað um ágæti þáttanna og það vakið forvitni mína. Þar sem það var auðvitað ekkert að sjá í sjónvarpinu í gær þá ákváðum við að byrja að horfa á seríuna í gærkvöldi og það endaði með því að við horfðum á hvorki meira né minna en þrjá þætti í röð. Þetta var hin besta skemmtun og ég hlakka til að horfa á fleiri þætti.

Bókaormur

Ég og einkasonurinn drifum okkur á bókasafn Kópavogs í gær og tókum nokkrar skemmtilegar bækur handa einkasyninum. Hann var nú á því að kaupa bækurnar á bókasafninu en mér fannst nú sniðugra að fá þær bara lánaðar. Nú eru nýjar bækur lesnar fyrir einkasoninn á hverju kvöldi honum til mikillar gleði, en mér og pabba hans finnst það nú ekki slæmt heldur. Honum finnst Herra Sterkur virkilega skemmtilegur og hlustar hugfanginn á hann. Bað mig nú um að lesa líka bókina "núð og nædu" í kvöld en við erum nýbúin að kaupa þá bók handa litla bókaorminum okkar.

Hádegisverður

Fékk skemmtilega heimsókn í hádeginu í dag. Tvo gesti sem snæddu með mér hádegisverð og vöktu almenna athygli á vinnustaðnum. Ekki var það verra að annar gesturinn kom með þessa dýrindis súpu frá súpubarnum . Þangað á ég örugglega eftir að fara aftur í hádeginu og ég sem hafði ekki hugmynd um að þessi staður væri til. Þakka bara kærlega fyrir heimsóknina og vonast til að fá svona heimsókn einhvern tíma aftur í vinnuna.

Hausverkur

Vá! Ég hef aldrei á æfinni lent í þessu. Vaknaði upp í nótt með svo mikinn hausverk að ég hélt að hausinn í mér væri að springa. Varð að taka verkjartöflu til að ég gæti sofnað aftur. Ég vorkenni þeim sem eru stöðugt með hausverk eða fá reglulega mígreni. Kannski ætti ég bara að vera ánægð að hafa fengið svona mikinn hausverk, þá finn ég hvað ég hef það gott dags daglega. Alltaf gaman í Pollýönnuleik.

Frænkur

Hitti frænku mína í gær sem er að fara til Frakklands eftir viku og aðra frænku mína sem er að fara að eiga barn eftir viku eða svo. Alltaf gaman að hitta frænkur þannig að ég vek athygli á nýjum hlekk hérna til hægri þar sem er heil heimasíða eingöngu fyrir frænkur ...mínar! Vona svo að það fari að koma að hittingi bráðum.

Langferð

Skelltum okkur austur fyrir fjall í 1 árs afmæli . Afmælisbarnið varð nú minnst var við allt umstangið en svona er það bara þegar maður er bara 1 árs. Þá skilur maður nú ekki allt. Gekk samt ágætlega að blása á kökuna enda hafði afmælisbarnið góða aðstoðarmenn. Alltaf gaman að fara í afmæli, ég tala nú ekki um 1 árs afmæli. Þau eru nú nokkuð merkileg, eða það finnst mér. Þetta er í fyrsta skipti á æfinni sem maður á afmæli.

Aftur í leikskólann

Einkasonurinn fór aftur í leikskólann í dag eftir næstum því mánaðarfrí, svo að segja. Hann fór í jólafrí 23. desember og mætti ekki aftur fyrr en 4. janúar og þá í tvo daga. Þá hófust veikindin miklu sem hann er rétt að jafna sig á núna. Hann mætti svo í dag 17. janúar eftir að hafa einungis mætt tvisvar sinnum frá því 23. desember. Ég segi bara geri aðrir betur!

Gott að búa í Kópavogi

Það er íbúð til sölu í gamla húsinu okkar á Holtsgötunni. Hún hefur staðið auð í nokkurn tíma og okkur datt nú í hug að kaupa þessa íbúð en hún kom aldrei á sölu þau ár sem við bjuggum þarna þannig að ekkert varð úr því. Það er kannski ágætt því það þarf ýmislegt að gera við hana og okkur líður nú bara mjög vel þar sem við búum núna. Veit ekki heldur hvort hefðum keypt hana ef það hefði verið í boði, en við hefðum örugglega hugsað okkur tvisvar um þar sem þetta er frábær staðsetning og íbúðin bíður uppá marga möguleika. En það er nú gott að búa í Kópavogi.

Mikill snjór

Það hefur varla farið framhjá neinum að það hefur kingt niður snjó á höfuðborgarsvæðinu, ég hef verið að mestu leiti inni vegna veikinda einkasonarins. Rétt farið á milli heimilis og vinnu alla síðustu viku. Fór aðeins út í dag og fannst bara heldur mikill snjór. Hef verið að ræða þetta við eiginmanninn og við vorum sammála um það að okkur fannst ekki hafa komið svona mikill snjór síðan við fluttum heim í desember 2001. Það kom líka á daginn að við höfðum hittum naglann á höfuðuð að þessu sinni . En það er nú gaman að hafa smá snjó úti, verst er að einkasonurinn getur lítið notið þess.

Sjónvarpsdagskráin

Guð minn góður hvað sjónvarpsdagskráin er skemmtileg á laugardagskvöldin, viku eftir viku. Eða kannski ekki. Þegar maður er með börn er ekki alltaf auðvelt að fara eitthvað laugardagskvöldum og þá er kannski notalegt að setjast fyrir framan sjónvarpið eftir erill vikunnar og horfa á góða bíómynd eða jafnvel góðan sjónvarpsþátt. Það er víst ekki í boði hérna, kannski er ráð að taka upp áhugaverða þætti sem eru á virkum dögum og jafnvel svo seint að maður er farinn að sofa og horfa svo á þá á laugardagskvöldum, fara að sofa snemma á laugardögum, lesa góða bók (gerði það í kvöld) eða... fara út að djamma.

Enn og aftur

Einaksonurinn er enn og aftur veikur. Búinn að vera með 39.5°C hita frá því á laugardagskvöldið. Hann átti að fara í sína fyrstu röraðgerð á miðvikudaginn en komst eðlilega ekki vegna veikinda. Fórum með hann til læknis og ofaná veikindinn var hann kominn með í eyrun enn og aftur og fékk enn og aftur sýklalyf. Hann er reyndar eitthvað að jafna sig núna, en það er nú ekkert gaman að vera tveggja ára veikur og hanga inni þegar allt er á kafi í snjó.

Halastjarnan

Ég fékk fyrir múgæsing í vinnunni í dag og fór og kíkti á halastjörnuna í morgun. Við keyrðum í morgunkaffinu upp að Perlunni og fundum loksins halastjörnuna eftir smá aðstoð frá stjörnufræðingi. Sé ekki eftir því að hafa drifið mig af stað. Það er nú ekki oft á ævinni sem maður sér halastjörnu.

Menningarsnobb?

Fór á mína fyrstu sinfóníutónleika í síðustu viku og það voru hvorki meira né minna en Vínartónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands . Það var virkilega gaman og svolítið öðruvísi en ég hef gert áður. Síðasta mánuð hef ég farið í fyrsta skipti á sinfóníutónleika, aðventutónleika og mozartónleika með óperukórnum í Reykjavík. Hef ekki mikið hlustað á sígilda tónlist en alltaf hrifist af henni, en kannski ekki fundist ég skilja hana nógu vel þar sem ég hef hvorki lært á hljóðfæri eða söng og skil ekkert í nótum. Annað hvort er smekkur minn að verða þróaðri eða ég er bara að verða gömul. Er að minnsta kosti byrjuð að snobba fyrir klassískri tónlist.

Blögg og ekki blögg

Það mætti segja að enginn sé maður með mönnum nema hann eigi a.m.k. eina ef ekki tvær blöggsíður í dag. Allir eru að keppast við að vera sem frumlegastir við blöggið sitt. Moggablöggið tröllríður nú þjóðfélaginu og maður getur varla komist hjá því að skoða eitt eða tvö moggablögg ef maður á annað borð skoðar mbl.is . Flott að blögga um fréttir! Svo eru blöðin og nú Ísland í dag á Stöð 2 farin að vitna í hin og þessi blögg. Greinilegt að sumar blöggsíður eru vinsælli og flottari en aðrar. Sumir eru að velta því fyrir sér hvaða frétt á að blögga um næst, hvernig best sé að vera sem frumlegastur eða segja eitthvað gáfulegt um hitamál í þjóðfélaginu og helst þarf að blögga einu sinni á dag. Ég blögga nú bara um mitt daglega líf og fyrir mig og karlana mína tvo (eiginmanninn og einkasoninn) þegar mér dettur í hug. Held þessu aðallega út sem dagbók, nokkurs konar geymslustað fyrir mig enda hef ég ekki látið marga vita af þess blöggi eins og sést kannski best á þeim griðarlega fjölda "c...

Dagurinn í dag

Afi minn hefði orðið 83 ára í dag, Elvis Presley 72 ára og David Bowie varð 60 ára. Allt merkiskarlar en fékk mig til að hugsa að það hefði nú verið skemmtilegt að kynnast afa mínum betur. Hann dó sumarið sem ég varð 17 ára og hafði þá verið rúmliggjandi í um 7 ár og mikill sjúklingur meirihluta þess tíma. Þegar ég var 10 ára þá hafði ég ekki mikið vit á því að kynnast afa mínum betur. Ég man voða lítið eftir honum veit bara að hann var bisnesskarl og átti hús hér og þar og alls staðar. Honum tókst að koma 15 systkynum til manns og var með hænsahús í miðjum Kópavogi. Man alltaf eftir því að skrifstofan hans stórt borð sem staðsett var í miðri stofunni sem var í miðju húsinu á Sunnubrautinni svo að það fór ekkert framhjá honum.

Tiltektardagur

Það gerist víst lítið fyrstu vikuna í janúar og því hefur maður kannski ekki frá miklu að segja. Það var tiltektardagur í vinnunni í dag, þar sem tekið var til í tölvupósti, möppum bæði í tölvunni og á skrifborðinu. Ég sé fram á að þurfa viku til að klára að taka allt til. Eftir tiltektina fengum við pizzu og kók. Ég verð nú að segja að eftir að Siggi fékk pizzaofninn í afmælisgjöf þá stenst ekkert pizzur eiginmannsins. Keyptar pizzur eru bara vondar í samanburðinum.

Gleðilegt nýtt ár

Áramótunum var fagnað á þessum bæ svipað og oft áður. Kalkúnn, Tobleroneís, brenna, áramótaskaup og skjóta upp flugeldum. Einkasonurinn var eins og sannur karlmaður og hélt varla vatni yfir öllum flugeldunum eða spengjunum eins og hann kallaði það. Hann vakti meira að segja til miðnættis og fór með okkur út rétt fyrir miðnætti. Þegar við vorum búinn að vera úti dágóða stund og hann búinn að setja okkur nokkrum sinnum læti, læti, læti. Bað hann ömmu sína um að koma með sér inn og skipaði henni að fara strax úr úlpunni og skónum. Fannst þá best að vera inni í öruggum höndum, enda sofnaði hann nokkrum mínútum seinna.