Fara í aðalinnihald

Færslur

Sýnir færslur frá desember, 2006

Spilakvöld

Þetta verður líklega síðasta blöggið á árinu enda fer hver að verða síðastur. Spilakvöld hjá tengdafjölskyldunni í gær en ég vann ekki neitt. Mér var svo sem sama þar sem mér finnst bara svo gaman að spila, skiptir ekki alltaf máli hvort maður vinnur þó það sé auðvitað líka skemmtilegt. Minnir mig á spilakvöldin á Sunnubrautinni forðum daga, við gátum spilað og spilað og spilað allt kvöldið, kvöld eftir kvöld. Það var skemmtilegt. Sú kjaftasaga komst þó á kreik að tvíeykið í vist LBK & SYO hefði svindlað eitthvað, en svo að allir séu með það á hreinu. NEI - við svindluðum ekki.

Flugeldasýning

Fékk þessa snilldarhugmynd kl. 19.30 í kvöld þegar við vorum í miðjum klíðum að borða kvöldmatinn að kíkja á flugeldasýninguna við Perluna kl. 20.00. Litla fjölskyldan dreif sig í útigallan og út. Við vorum komin kl. 20.01 í Sæbólshverfið í Kópavoginum á móti Fossvogskirkjugarði. Við löbbuðum niður að sjó og skemmtum okkur við að horfa á flugeldana. Einkasonurinn var ekkert hræddur við flugeldana en öskraði bara váááááá með reglulegu millibili, sama og við hugsuðum með reglulegu millibili. Gaman, gaman.

Útsölur

Nú fer hver að verða síðastur að skipta gjöfum sem þeir fengu í jólagjöf enda útsölurnar að byrja. Debenhams byrjaði í dag og Hagkaup á morgun. Ég ætla að reyna að fara á útsölur en ætli það verði ekki eins og síðustu ár þegar ég var loksins búinn að mana mig upp í að drífa mig á útsölurnar þá voru þær bara flest allar búnar og eitthvað drasl til á hinum sem eftir voru, best að drífa sig á morgun.

Jólin gerð upp

Jólin voru með besta móti í ár. Jafnvel þó að ég væri fyrir löngu búinn að kaupa flestar gjafirnar þá var allt á síðustu stundu eins og sönnum Íslendingi sæmir. Kláraði að pakka inn síðustu jólagjöfunum á aðfangadagsmorgunn. Það er nú bara eins og gengur og gerist. Jólagjafirnar voru líka skemmtilegar að vanda, fékk m.a. kerti, aðventukrans , glös , aveda sjampó o.fl., rjómasprautu , náttföt, æfingabuxur, DVD Sex & the city First Season, Kitchen aid hrærivél , kaffivél, bók frá vinnunni sem er ætluð gömlu liði yfir fimmtugt og fleira. Við erum svo búinn að fara í nokkur jólaboð og ennþá eftir að fara í nokkur. Fórum m.a. í eitt í kvöld þar sem jólasveinninn var frábær. En þá er það bara vinna á morgun...

Gleðileg jól

Óska öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Vona að þið njótið jólanna eins vel og ég ætla að gera. Jólakveðja, Lilja Bjarklind.

Að kyssa jólasvein

Einkasonurinn sem er tveggja ára sagði við mig í dag "mamma dú kyssa ólaein" en hann var búinn að syngja hin og þessi jólalög í morgun og eitt af því var "Ég sá mömmu kyssa jólasvein". Svo var hann reyndar kominn á það að hann ætlað líka að kyssa jólasvein. Horfði í gærkvöldi á sjónvarpsþáttinn Ísland í dag og sá þá að það var verið að ræða um jólalögin og hvað þau gæti verið misvísandi, kanna sem stendur á stól og gildur stafur í staðinn fyrir gylltan staf. Þetta var einmitt umræðuefni á kaffistofunni fyrir nokkrum dögum. Áhugaverð umræða en niðurstaðan var sú sama og í sjónvarpinu í gær að best væri að halda sig við það sem maður lærði í æsku og jú ef ég spáði ekki eitthvað í það af hverju mamma væri eiginlega að kyssa jólasveininn. Ekkert skrítið að börnin ruglist eitthvað.

Jólakortin

Búinn að skrifa öll jólakort og í kvöld fórum við smá jólaljósarúnt. Þ.e. skoðuðum jólaljósin og fórum með jólakort í hús í næsta nágrenni. Þ.e.a.s. í Kópavogi, Garðabæ og Breiðholtinu. Hin jólakortin fengu á sig frímerki fyrir nokkrum dögum og fóru í póst. Jólaljósin voru flott og gott að vera búinn að losa sig við öll jólakortin. Ætli jólin séu ekki bara handan við hornið, ég væri allavega ekki hissa á því.

Hvað ertu gamall?

Greinilegt að margir í mínu lífi eiga afmæli í lok ársins, einkasonurinn, faðirinn og nú er það eiginmaðurinn. Og hvað varð hann svo gamall? Í morgun sagði ég einkasyninum frá því að pabbi hans ætti afmæli og bað hann um að óska honum til hamingju með afmælið. Hann fór fram til föður síns og óskaði honum nú ekki til hamingju með afmælið en spurði í staðinn: "Pabbi, hvað dú gamall?" og fékk svar á móti sem hann skildi ekki alveg. Hann var hinsvegar kominn með það á hreint í kvöld þegar fjölskyldan kom í afmæliskaffið, sagði öllum sem spurðu að pabbi sinn væri hundrað ára.

HNE og rör

Litlar sem engar fréttir af jólaundirbúningi en stefnt á að pakka jólapökkunum inn í kvöld. Fór hinsvegar með einkasoninn til HNE læknis (og þeir sem ekki vita hvað HNE þýðir, tja your bad luck!) í dag og hann öskraði svo mikið á biðstofunni að ég var vinsamlegast beðin um að fara með barnið fram á gang þangað til það kæmi að okkur eða ég væri búinn að róa barnið! Tókst að múta honum með nammi og inn fórum við aftur, nú er stefnan tekin á fyrstu aðgerðina og fyrstu rörin í eyrun þann 10. janúar næstkomandi. Púff!!!

Jólagjafirnar

Ég er búinn að kaupa jólagjafirnar, jibbí!!! Á reyndar eftir að pakka þeim flest öllum inn en ég hef viku í það þannig að ég vonast til að það verði ekki byrjað á því að pakka jólagjöfunum kl. 23.45 á Þorláksmessu. Held að ég hafi sjaldan eða aldrei verið búinn svona snemma að kaupa jólagjafirnar. Nú er bara að slappa af og njóta aðventunnar, skreppa í klippingu og hafa það notalegt. Við fjölskyldan fórum einnig í dag og keyptum okkur eitt stykki jólatré og nýjar alvöru seríur á jólatréð. Jólin eru því alveg að verða tilbúin hjá fjölskyldunni, enda korter í jól eða svona hér um bil.

Jólagleði

Jólagleði eða litlu jólin voru í vinnunni í dag og hepnuðust bara vel þó ég segi sjálf frá. Ég er ein af þremur sem eru í starfsmannafélaginu og sáum við um skipulagningu dagsins. Dagurinn byrjaði með því að við buðum uppá kökur og heitt súkkulaði í 10 kaffinu til að mynda smá jólastemmingu. Síðan byrjaði jólaskemmtunin kl. 16.00 en við þruftum að gera allt tilbúið áður og safna saman pökkum í jólapakkaleikinn fyrir þann tíma. Við fengum aðkeyptan mat, hljóðfæraleikara og deildum út gjöfum í pakkaleiknum. Síðan fengum við jólapakka frá vinnunni. Skemmtunin tókst virkilega vel og allri skemmtu sér konunglega, vona ég að minnsta kosti. Ég fór úr vinnunni kl. 19 og nú er ég sko þreytt.

Jólaundirbúiningur

Nóg að gera í jólaundirbúningnum og því minna um það að setjast fyrir framan tölvuna. Í gær var ég í jólakortavinnubúðum. Fór til frænku minnar og við skrifuðum saman jólakort. Klukkan tíu var ég búinn að skrifa sjö jólakort og alvega að gefast upp. Ætlaði bara heim að sofa. Sem betur fer dreif frænka mín mig áfram og um tólf leitið var ég búinn að skrifa rúmlega þrjátíu jólakort (á ca. fimmtán stykki eftir) og kom heim kl. 00.30. Geri aðrir betur. Skrapp svo í Smáralindina kl. 21.00 í kvöld til þess að kaupa litla jólagjöf fyrir jólagjafaleik á jólagleði í vinnunni á morgun. Bjóst við því að ég hefði Smáralindina svo til út af fyrir mig. Svo var nú ekki og ég þurfti að leita að bílastæði, greinilegt að jólaösin er byrjuð með stæl og ég á tvær jólagjafir eftir!

Svefntíminn

Sofnaði tvo daga í röð með einkasyninum þegar ég var að svæfa hann enda glaðvaknaði ég kl. 6.15 í morgun. Hvað gat ég gert annað en að fara á fætur og blögga aðeins. Kennir manni að svæfa barnið ekki í okkar rúmmi. Hann er reyndar voða duglegur að sofna í sínu rúmmi en fær stundum að kúra hjá okkur. Í gær var hann ekki á því að fara að sofa og kjaftaði af honum hver tuskan. Ég sagði honum að hann ætti að fara að sofa og ekki tala meira og snéri mér frá honum og hann þagnaði. Tíu eða fimmtán mínútum seinna snéri ég mér að honum aftur og þá byrjaði hann strax að kjafta aftur og hann talaði og talaði. Hann sofnaði loksins með mér eins og áður segir. Jólasveinarnir hafa kíkt til einkasonarins síðustu tvær nætur eins og hjá öllum börnum landsins. Hann er ekki alveg að fatta þetta en samt voða gaman að fylgjast með honum. Jólasveinarnir voru virkilega örlátur þessi tvö skipti og í fyrra skiptið fékk hann litla bók frá Stekkjastaur og seinna skiptið Bubba byggir spólu frá Giljagaur.

Breytingar

Við löguðum til í herberginu hans Kristófers Óla í dag. Færðum stóru hilluna hans og settum upp nýja vegghillu. Ætlunin er svo að fara í Ikea og kaupa fleiri vegghillur. Létum loksins nýja bílateppið á gólfið hjá honum sem hann fékk í afmælisgjöf því nú var miklu betra pláss fyrir það. Hann var voða ánægður með nýja teppið, bílakarlinn sjálfur. Svo sá hann sá hann gamla teppið frammi á gangi áður en við vorum búinn að ganga frá því og var skíthræddur um að við myndum taka nýja teppið og láta gamla teppið í staðinn. Nú er betra pláss fyrir meira dót hjá honum, ekki seinna vænna enda jólin handan við hornið.

Jólastress

Ég er svo feginn... að ég er búinn að kaupa allar jólagjafirnar nema þrjár. að ég er búinn að ákveða þessar þrjár jólagjafir sem ég á eftir. að ég á ekki eftir að fara í margar búðir fyrir jólinn. að ég ég er búinn að baka eina smákökutegund fyrir jólin og ætla bara að baka fleiri ef mig langar til. að ég er búinn að skreyta fyrir jólin heima hjá mér (nema jólatréð) þurfa ekki að fara út í jólastressið. Verst er þó að ég er ekki byrjuð að skrifa jólakortin. Best að byrja á þeim í kvöld.

Ekki frídagur

Ég var í fríi í vinnunni í dag en samt stoppaði ég ekki allan daginn, nema kannski í hádeginu þegar ég hitti vinkonur mínar ásmat mökum og við fengum okkur jólahlaðborð á Grand Hótel . Það var virkilega skemmtilegt. Annars er ég búinn að vera í búðum í allan dag og bara kaupa eina jólagjöf. Nú jæja, þá eru bara fjórar eftir. Fór í fimm búiðir til að leita að jólagjöf handa einkasyninum en fann ekki það sem ég var að leita að. Í morgun var svo helgileikur í leikskólanum og ég mætti auðvitað til að til að fylgjast með leiksigri einkasonarins. Hann var reyndar bara í aukahlutverki en var auðvitað stjarna dagins, að mínu mati.

Nýtt dót

Móðursystir mín gaf Kristófer Óla dót sem sonur hennar er hættur að nota þar sem hann er að sigla inn á unglingsaldurinn. M.a. er Fisher Price krani sem stendur á plastkletti, því fyglja svo vörubíll, ýta og plaststeinn. Kristófer Óli sá það fyrst á miðvikudagsmorguninnn og ég hef sjaldan séð hann svona ánægðan. Hann hefur svo varla vikið frá því síðan. Dundar sér að leika með það í tíma og ótíma. Kristófer Óli er aldeilis heppinn að fá svona skemmtilegt dót, og jú foreldranir eru líka ánægðir með hvað hann dundar sér mikið með dótið.

Jólin koma

Ég, jólabarnið sjálft er kominn í þetta voðalega jólaskap. Enda var ég að komast að því að það eru bara tvær og hálf vika til jóla þannig að það er ekki seinna vænna. Aðeins byrjuð að skreyta heima hjá mér. Allir kassarnir með jólaskrautinu eru a.m.k. komnir upp úr geymslunni og aðventuljósið komið í eldhúsgluggann. Þetta gæti ekki verið betra og ég hlakka svo til jólanna.

Tónleikar á aðventunni

Aðventan er tími tónleikahalda og framboð á tónleikum hefur sjaldan verið meira. Auglýsingar um hina og þessa tónleika tröllríða nú þjóðfélaginu og enginn er maður með mönnum nema þeir fari á tónleika á aðventunni. Ég verð að sjálfsögðu að standa undir nafni og er þegar búinn að fara á eina tónleika í gær í Neskirkju og er á leiðinni á aðra tónleika í nótt. Tónleikarnir í gær voru með kirkjukór Neskirkju sem ein samstarfskona mín syngur með. Tónleikarnir í kvöld eru afmælistónleikar Mozarts sem verða kl. 00.30. Ég er nú svolítið smeik þar sem ég er gömul húsmóðir og vön því að fara í háttin fyrir miðnætti. Ætlunin er að leggja sig núna eftir nokkrar mínútur með einkasyninum og vakana um kl. 23.00 í kvöld. Verst hvað ég verð alltaf ómöguleg þegar ég sofna svona. Vil þá helst bara sofa alla nóttina. Er ekki þeim hæfileika gædd að geta tekið mér kríu og vera endurnærð á eftir. Sjáum hvernig gengur en ég er voða spennt fyrir nóttina.

Sörur

Bakaði alveg glás af Sörum Bernhards kökum í dag ásamt frænku minni. Við vorum eins og verksmiðja og mér telst til að ég hefði grætt 13000 í dag þegar ég er búinn að draga frá efniskostnað. Mér var nefnilega sagt að gangverðið á 50 heimabökuðum sörum væri tæplega 3000 kr. Mínar Sörur eru samt ekki til sölu heldur handa mér og mínum og þeim sem nenna að koma í heimsókn. Ef þú kemur í heimsókn til mín á aðventunni þá skal ég bjóða þér uppá Söru, lofa því.

Jóla jóla jóla

Fór með nokkrum kerlingum í vinnunni og kíkti á jólamarkaðinn á Kjalarnesi. Það var mjög gaman, ekkert smá flott hús, mæli með því að kíkja þangað. Þetta var eins og að komast í nammiland fyrir jólasjúka einstaklinga eins og mig. Enda tókst mér að kaupa jólaskraut fyrir allt of mikið af peningum. Best að kaupa ekki meira jólaskraut þessi jólin.