Fara í aðalinnihald
Svaðilförin mikla
Jæja, jæja við komumst loksins í bústaðinn en ekki fyrr en á laugardaginn þar sem á föstudaginn var alveg brjálað verður. Reyndar var nú ekkert frábært veður á laugardaginn heldur. Við komumst auðveldlega næstum því að Kömbunum en þá fór gamanið nú heldur betur að kárna. Við sáum varla á milli stika og ég hélt á tímabili að við værum komin af veginum og á leiðinni niður fjallið vitlausu megin, ó boj. Komumst svo að því seinna að Kömbunum var lokað stuttu eftir að við keyrðum þar í gegn eða réttara sagt skriðum áfram.
Þegar við vorum komin á láglendið þá héldum við nú að okkur væri borgið en alls ekki. Undir Ingólfsfjalli var einnig brjálaður bylur eða réttara sagt þæfingur eins og þeir segja hjá Vegagerðinni. Við sáum að einn jeppi hafði farið útaf í skurð og lögreglubíll og sjúkrabíll að reyna að komast til hans. Þegar við nálguðumst Selfoss, rétt við fyrsta hringtorgið sást ekki neitt við þurftum að stoppa og bílar fastir á víð og dreif. Reyndum beyja út af á afleggjarann að Laugarvatni en þurftum frá að hverfa og fara aftur á Selfoss. Biðum í svona 1/2 til 1 klst og þegar við reyndum í þriðja skiptið þá komumst við loksins áleiðis enda hafði þæfingurinn batnað mikið.
Við komumst svo loksins í Miðhúsaskóg 18 km. fyrir utan Laugarvatn og undum okkur vel í sumarbústaðnum þar sem við átum, slöppuðum af, kjöftuðum og fórum í heita pottinn - ekki endilega í þessari röð.
Leiðin heim gekk eins og í sögu, þurftum ekki að stoppa einu sinni alla leiðina.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Þrjú ár

Í dag eru þrjú ár síðan ég átti einkasoninn, já ótrúlega fljótt að líða. Að sjálfsögðu er ég eins og flestar mæður og segi það hiklaust að þetta sé stærsta upplifun lífsins og besta og mesta afrek sem ég hef gert. Á þessum tíma fyrir þremur árum var ég búin að vera með hríðir í rúmlega sólahring og búið að sprengja belginn, komin með dripp í æð og ljósmóðirin sem var að fara að vakt var hálf svekkt yfir því að þurfa að fara þar sem hún var viss um að barnið væri að koma. Hann leit dagsins ljós sex tímum seinna.

Níu dagar

Það eru níu dagar þangað til að ég fer til Florida og ég er sko fyrir löngu byrjuð að telja niður. Það verður ágætt að yfirgefa þetta verður og fara í sólina í Orlando, Florida. Ég get ekki beðið...

Mikilvægasta heimilistækið

Við endurnýjuðum mikilvægasta heimilistækið í dag eftir miklar vangaveltur um hvort það borgaði sig því okkur fannst það heldur dýrt. Hinsvegar ef maður skoðar tölfræðina og kr/notkun þá mætti segja að þetta heimilistæki sé alveg peningana virði. Á þessu heimili er þetta heimilistæki notað daglega. Gamla útgáfan var orðinn úr sér gengin eftir margra ára notkun og misgóða meðferð. Allir fjölskyldumeðlimir nota þetta heimilistæki og það er stöðug barátta um yfirráð á því og eins og algengt er, vinnur oftast sá frekasti. Spurning dagsins er því, hvaða heimilistæki er hér verið að lýsa? Ég þreytist seint á að segja sögur af einkasyninum og í dag fór hann með okkur að velja heimilistækið. Í búðinni rakst hann á ísskáp og opnaði hann og sagði svo "enginn matur" og hrissti hausinn og fannst lítið varið þannig ísskáp.