Fara í aðalinnihald

Letidagur og ekki

Í gær var letidagur. Eiginmaðurinn fór að vinna og ég og einkasonurinn gerðum barasta ekki neitt allan daginn, það var næs!

Við fórum og sóttum eiginmanninn í vinnuna og kíktum loksins á litla frænda hann Þórir Ingólfsson sem er orðinn tveggja vikna gamall. En þar sem ég er búinn að vera slöpp með hina og þessa kvilla í rúmlega viku þá hætti ég ekki á að kíkja á hann fyrr. Hann er að sjálfsögðu svaka flottur og glæsilegur strákur. Langflottastur.

Í gærkvöldi fórum við svo á jólagleði með vinnufélögum eiginmannsins. Ég varð frekar svekkt þegar ég komst að því að ekki var um jólahlaðborð að ræða heldur kvöldverð þar sem ég var búinn að hlakka svaka til að fara loksins á jólahlaðborð alla vikuna. En maturinn var svo sem ekki síðri og svo var happadrætti. Síðast þegar happadrætti var á árshátíðinni hjá vinnunni hans þá unnum við ekki neitt þó svo að vinningarnir væru yfir 50%. Ég fór auðvitað að hugsa, jæja maður vinnur aldrei neitt en svo ákvað ég að taka SECRETIÐ á þetta og að sjálfsögðu röðuðum við inn vinningunum eftir það, já við unnum bæði! Ég glæsilegan konfektkassa og eiginmaðurinn flotta kaffihitakönnu. Ekki amalegt.

Í dag var svo jólaball leikskólans sem foreldrafélagið sá um. Það tókst þetta svakalega vel þó að ég segi sjálf frá. Gerði nú mest lítið þar sem við erum með svakalega duglegan formann en ég tók þó aðeins til eftir að ballinu var lokið. Tveir jólasveinar kíktu á ballið við mikinn fögnuð þeirra yngstu.

Við drifum okkur svo í Bónus og keyptum jólamatinn. Nú eigum við bara eftir að kaupa jólatréið og skreyta það, pakka gjöfunum og svo geta jólin bara komið. Á reyndar eftir að skrifa jólakort en er að spá í að sleppa því þetta árið en er þó ekki alveg búinn að gera það upp við mig.

Eftir að ég kom heim hef ég verið að laga til í plastkössunum endalausu og já, mér hefur orðið eitthvað ágengt aldrei þessu vant. Ætli það sé ekki best að halda því áfram.

Það var sem sagt alveg fullt gert þessa helgi og ég sem hélt bara að þetta hefði verið letihelgi!

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Þrjú ár

Í dag eru þrjú ár síðan ég átti einkasoninn, já ótrúlega fljótt að líða. Að sjálfsögðu er ég eins og flestar mæður og segi það hiklaust að þetta sé stærsta upplifun lífsins og besta og mesta afrek sem ég hef gert. Á þessum tíma fyrir þremur árum var ég búin að vera með hríðir í rúmlega sólahring og búið að sprengja belginn, komin með dripp í æð og ljósmóðirin sem var að fara að vakt var hálf svekkt yfir því að þurfa að fara þar sem hún var viss um að barnið væri að koma. Hann leit dagsins ljós sex tímum seinna.

Níu dagar

Það eru níu dagar þangað til að ég fer til Florida og ég er sko fyrir löngu byrjuð að telja niður. Það verður ágætt að yfirgefa þetta verður og fara í sólina í Orlando, Florida. Ég get ekki beðið...

Mikilvægasta heimilistækið

Við endurnýjuðum mikilvægasta heimilistækið í dag eftir miklar vangaveltur um hvort það borgaði sig því okkur fannst það heldur dýrt. Hinsvegar ef maður skoðar tölfræðina og kr/notkun þá mætti segja að þetta heimilistæki sé alveg peningana virði. Á þessu heimili er þetta heimilistæki notað daglega. Gamla útgáfan var orðinn úr sér gengin eftir margra ára notkun og misgóða meðferð. Allir fjölskyldumeðlimir nota þetta heimilistæki og það er stöðug barátta um yfirráð á því og eins og algengt er, vinnur oftast sá frekasti. Spurning dagsins er því, hvaða heimilistæki er hér verið að lýsa? Ég þreytist seint á að segja sögur af einkasyninum og í dag fór hann með okkur að velja heimilistækið. Í búðinni rakst hann á ísskáp og opnaði hann og sagði svo "enginn matur" og hrissti hausinn og fannst lítið varið þannig ísskáp.