Síðustu tvo daga höfum við Kristófer Óli átt stefnumót í sundlaugum bæjarins eða kannski á höfuðborgarsvæðinu. Í fyrradag fórum við alla leið upp í Mosó og hittum þar frænku mína ásamt börnum. Kristófer Óli prófaði allar rennibrautirnar ásamt frænda sínum sem er jafn gamall og hann, þetta var ein stór rennibrautarferð í rúmlega klukkutíma (renna sér og hlaupa í næstu rennibraut) enda voru sumir þreyttir í lok dagsins. Í gær fórum við svo aðeins nær og kíktum á gömlu/nýju sundlaugina í Kópavogi ásamt vinkonu minni og syni hennar. Nú er bara spurning í hvaða sundlaug við förum í dag, tja kannski bara Laugardalslaugina...
Í dag eru þrjú ár síðan ég átti einkasoninn, já ótrúlega fljótt að líða. Að sjálfsögðu er ég eins og flestar mæður og segi það hiklaust að þetta sé stærsta upplifun lífsins og besta og mesta afrek sem ég hef gert. Á þessum tíma fyrir þremur árum var ég búin að vera með hríðir í rúmlega sólahring og búið að sprengja belginn, komin með dripp í æð og ljósmóðirin sem var að fara að vakt var hálf svekkt yfir því að þurfa að fara þar sem hún var viss um að barnið væri að koma. Hann leit dagsins ljós sex tímum seinna.
Ummæli