Fara í aðalinnihald

Færslur

Sýnir færslur frá júlí, 2008

Það er næs...

... að vera í sumarfríi. Ég nýt þess í botn að vera í sumarfríi og bongóblíðunnar. Dagurinn í dag var hálfgerður letidagur en endaði með því að ég fór í dótabúð (ferð sem einkasonurinn var búinn að bíða eftir alla vikuna), til læknis og svo í kjörbúðina. Reyndar hef ég bæði þurft að fara bæði til tannlæknis og læknis í vikunni og það út af sama vandamálinu, getið þið nú. NB. Bæði tannlæknirinn minn og læknirinn minn eru í sumarfrí og því ekki hægt að ná í þau. Það er greinilega eitthvað með mig og skipulögð sumarfrí, enda alltaf hjá læknum! sbr. sumarfríið í fyrra.

Óhappadagur

Ég get ekki sagt annað en dagurin í dag eða réttara sagt gærdagurinn því klukkan er orðin meira en tólf hafi verið óhappadagur. Ég átti tíma hjá tannlækni sem eitt og sér gerir daginn frekar óspennandi. Á leiðinni til tannlæknis, NB yfirleitt ekki lengur en 5 mínútur að keyra þangað lenti ég á öllum rauðum ljósum, alls sex, þar af einu gönguljósi. Ég hugsaði með sjálfri mér hvað væri eiginlega í gangi en dreif mig til tannlæknis. Það kom svo í ljós þegar ég labbaði út af tannlæknastofunni og ætlaði inni í bílinn. Þá var sprungið á einu dekki og ég ákvað því að labba frekar heim og bíða þangað til í kvöld til að fá aðstoð frá eiginmanninum þegar hann kæmi heim úr vinnunni. Í kvöld var ég svo á leiðinni í grillpartý með vinnufélögunum og ákvað að dressa mig upp og fara í pils, aldrei þessu vant. Jæja, ég gafst upp á því þegar ég var búinn að eyðileggja einar sokkabuxur og einar leggings og fór bara í buxum og kom rúmlega hálftíma of seint. Grillpartýið gekk sem betur fer áfallalaust fyri...

Hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór?

Sáum lögregluna vera að mæla hraðann í dag þegar við vorum að keyra, við vorum að sjálfsögðu á löglegum hraða. Við spurðum þá einkasoninn hvort hann ætlaði ekki að verða lögga, það var lítið um svör svo ég spurði hann aftur: "Hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór?" Þá stóð ekki á svörum. "Bubbi, ég ætla að verða Bubbi og syngja Rómeo og Júlía" Þá vitið þið það.

Bíóvikan

Var að koma heim núna (sem er mjög seint svona á laugardagskvöldi fyrir úthverfamömmuna) og auðvitað þurfti ég aðeins að kíkja í tölvuna og hendað hér. Fór í þriðja skiptið í bíó í þessari viku, geri aðrir betur. Jæja, ætli maður fari nokkuð aftur fyrr en eftir einhverja mánuði. Allar myndirnar þrjár voru góðar hver á sinn hátt. Síðasta myndin sem ég sá í bíó þessa vikuna var stórmyndin The Dark Knight en við hjónin fórum saman á bíóstefnumót og sáum skemmtilega mynd. Og já það var líka uppselt á þessa mynd - eins gott að við höfðum vit á að kaupa okkur miða á netinu áður en við lögðum af stað því þegar við komum NB 25 mínútum áður en myndin átti að byrja var uppselt, og já við biðum í röð við innganginn að salnum - 2x í sömu vikunni, geri aðrir betur. En endilega drífið ykkur að sjá myndina með BATMAN!

Búðarferðir

Ekkert varð úr sundferð í dag þar sem við héldum okkur í hinum ýmsu búðum, á heitasta degi ársins hér á höfuðborgarsvæðinu. Hefði kannski verið gáfulegra að gera eitthvað annað, dagurinn var engu að síður skemmtilegur í skemmtilegum félagsskap og auðvitað rakst maður á ýmsa sem maður þekkti. Dagurinn byrjaði þó með Ikea rúmlega 10.00 þar sem hádegisverður var einnig snæddur áður en við héldum lengra, ódýrasti veitingarstaður bæjarins. Næst fórum við í Smáralindina, þá til Reynis bakara, í sérbúðina Kjöt og Fisk og loks í Bónus. Það var nú ekki mikið keypt, aðallega í Bónus en það voru þreytt mæðgin sem komu heim í dag rúmlega fjögur. Enda höfum við bara verið að slappa af síðan.

Stefnumót í sundi

Síðustu tvo daga höfum við Kristófer Óli átt stefnumót í sundlaugum bæjarins eða kannski á höfuðborgarsvæðinu. Í fyrradag fórum við alla leið upp í Mosó og hittum þar frænku mína ásamt börnum. Kristófer Óli prófaði allar rennibrautirnar ásamt frænda sínum sem er jafn gamall og hann, þetta var ein stór rennibrautarferð í rúmlega klukkutíma (renna sér og hlaupa í næstu rennibraut) enda voru sumir þreyttir í lok dagsins. Í gær fórum við svo aðeins nær og kíktum á gömlu/nýju sundlaugina í Kópavogi ásamt vinkonu minni og syni hennar. Nú er bara spurning í hvaða sundlaug við förum í dag, tja kannski bara Laugardalslaugina...

Bíókvöld

Það eru örugglega fimmtán til tuttug ár síðan ég beið í svona bíóröð eins og í kvöld. Fór fyrst í Smárabíó en þar var uppselt á myndina, keypti því miða í Háskólabíó á staðnum og brunaði svo vestur í bæ. Þar þurfti ég að bíða í röð fyrir utan bíósalinn í um 15 mínútur áður en við komumst inn. Minnti mig á bíóferð hérna um árið í gömlu Bíóborginni (Austurbæjarbíói) þegar ég var í menntaskóla og var að fara á Dick Tracy. Verð nú að segja að þetta var alveg þess virði myndin var mjög skemmtileg, kemur manni í gott skap. Mæli með henni. Þið getið séð það betur hérna... Að hlusta á lögin minnti mig á aðra tíma, jæja ég er ekki svo gömul að ég muni eftir því þegar Abba vann Eurovision, en á mínum djammárum þá var Abba í tísku og ég kann því einhver Abbalög, reyndar furðu mörg komst ég að í kvöld.

Nýtt hjól

Einkasonurinn var dekraður í tætlur í dag. Fórum í bíó á Kung Fu Panda og svo keyptum við einnig nýtt hjól handa honum, reyndar fyrsta hjólið sem við kaupum handa honum og fyrsta tvíhjólið hans. Það er í stærra lagi en við vonumst til að hann muni einhverntíma stækka upp í það. Það er nokkuð ljóst að næstu dagar og vikur fara í hjólaferðir.

Útilega

Sumarfríið byrjaði með stæl. Drifum okkur í útilegu á föstudagsmorgninum og enduðum í Þjórsárdal í bongóblíðu.

Sumarfrí

Þessi síða er greinilega komin í sumarfrí, aðeins á undan mér en ég byrja að í "stóra" sumarfríinu mínu 17. júlí er þó búinn að taka nokkra daga í júní. Það er svo sem ágætt að vera ekki að hanga í tölvunni þegar veðrið er svona gott. Ég þarf þó að koma að gullkorni frá einkasyninum, svona þannig að ég gleymi því ekki. Faðir hanns fór í golf í gær og við vorum bara tvö að borða kvöldmatinn. Það var frekar mikið að gera hjá Kristófer Óla og ég var alveg að missa þolinmæðina. Hann kom þá með gullkorn sem fékk mig til að skellihlæja. Einkasonurinn: "Af hverju ertu alltaf að skamma mig" Móðirin (þreytt): "Ef þú hlustaðir á mig og færir eftir því þá þyrfti ég ekki að vera alltaf að skamma þig" Einkasonurinn : "Æ, ég heyri stundum ekki nógu vel" Til hamingju með afmælið í dag Magga!