Fara í aðalinnihald

París - ferðasaga, dagur 2

Eldhúsdagsumræður Alþingis í sjónvarpinu og tími til kominn að halda áfram með ferðasöguna...
Varúð langt!!!

Dagur 2 - Föstudagurinn 16. maí
Við vöknuðum sem betur fer ekkert allof snemma en heldur ekki alltof seint og drifum okkur niður í morgunmat sem var alveg ágætur. Ekkert súperflottur en það vantaði samt ekki neitt og það sem var í boði var bragðgott. Ég drakk örugglega 1 líter af appelsínusafa þar sem ég var svo þyrst og fann ekki vatnið strax. (NB. drekk ekki kaffi og sjaldan te). Við ákváðum að dagurinn í dag væri dagurinn sem við færum upp í Effelturninnn, allt annað mætti mæta afgangi þannig að ef það tæki allan daginn væri það bara allt í lagi. Við sáum að það væri erfiðara fyrir okkur að skipta um Metro á þeirri stöð var næst hótelinu enda var þetta ágætis tækifæri til að byrja daginn á smá göngu og labba yfir Signu. Við drifum okkur þá á þarnæstu Metrostöð sem var hjá Orly safninu. Þegar við komum að stöðinni þá keyptum við okkur þriggjadaga Metropassa en þá hófst leitin að Metro. Við fundum bara ekki innganginn, sáum reyndar lestarinngang en töldum að það væri bara fyrir lestir sem færu út úr París enda merkt þannig. Konan sem seldi okkur miðana talaði enga litla sem enga ensku þannig að lítið var að hafa uppúr henni. Eftir að hafa ráfað þarna um í smá stund þá byrjuðum við að elta einhver skilti sem beindu okkur að metrostöð í þarnæstu götu. Þegar við komum þangað þá kom í ljós að þetta var alls ekki stöðin sem við ætluðum að taka þannig að við löbbuðum til baka og prófuðum að fara inn í lestarstöðina við Orly safnið þar sem aðrar lestir fóru (þ.e. ef maður var að fara út úr París). Það gekk þó ekki þrautarlaust fyrir sig. Ég prófaði að setja miðann í gegn en þá opnaðist hliðið ekki og ég þorði ekki að fara í gegn. Komst seinna að því að maður átti bara að ýta hressilega á það og þá opnaðist það. Þegar ég reyndi svo aftur að fara inn þá kom bara villa og ég komst ekki neitt. Siggi prófaði sinn miða og ýtti hressilega á hliðið þannig að hann komst inn en ekki ég. Í öllum æsingnum sá ég mann sem komst ekki út úr lestarkerfinu og voru vinir hans að reyna að hjálpa honum. Þá kom ég færandi hendi og rétti honum miðann minn, hann komst út og ég prófaði miðann aftur og þá var ég loksins kominn inn. Á eftir okkur voru þá tvær ítalskar stelpur sem voru einmitt í sömu vandræðum og við og mér tókst með minni flottu ítölskublönduðu ensku að segja þeim að senda miðann í hring þannig að hún gæti notað hann aftur. Maður bara farinn að redda túristum hægri vinstri!

Þegar við vorum kominn inn í lestarkerfið sáum við auðvitað fljótlega Metro og hoppuðum upp í næstu lest og vorum fljótlega komin að Effelturninum. Þetta litla ævintýri okkar gerði það þó að verkum að við vorum greinilega á háannatíma í röðinni. Á undan okkur voru m.a. 30 skólabörn frá Bretlandi, þýskur verkfræðingur með mottu og ítölsk hjón með fimm ára stelpu og örugglega 3ja vikna strák. Við biðum róleg í röðinni að miðasölunni sem tók örugglega einn og hálfan tíma og fórum uppá aðra hæð með lyftunni, sem betur fer var veðrið mjög gott, ekki of heitt 15-20 hiti og smá sól (ekki of mikil). Þegar við vorum búinn að skoða okkur um þar þá tók við önnur röð í örugglega 45 mínútur til að komast efst upp í Effelturninn og ó boj, ó boj, það er sko hátt uppi. Sérstaklega fyrir lofthræddar konur með lítið hjarta. Þegar við komum efst upp litum við í kringum okkur og tókum myndir, fundum íslenska fánann og drifum okkur svo niður aftur. Þurftum auðvitað að standa í smá röð til að komast niður á aðra hæð þar sem við settumst aðeins niður, fengum okkur að drekka og hvíldum okkur. Það var virkilega mikið ævintýri að fara í Effelturninn og alveg þess virði að bíða samanlagt í 3 tíma til að komast í hinar og þessar lyftur. Mér fannst ég nú agnarsmá þarna efst uppi og var nú ekki alveg sama þegar turninn dúaði. Ég held nú að ferðin uppí Effelturninn sé eitt af því sem standi uppúr í Parísarferðinni og hefði sko alls ekki vilja sleppa því.

En þegar við komum úr Effelturninum vorum við orðin svo þreytt á því að standa og standa í biðröðum að við hoppuðum upp í næsta túristastrætó sem keyrði okkur um helstu markverðustu staðina í París. Þar er hægt að hoppa í og úr en við ákváðum að sitja bara allan hringinn, hvíla okkur aðeins og njóta útsýnisins. Maður sér auðvitað miklu meira svona en að labba og labba þó að það sé nú líka skemmtilegt. Það var gaman að heyra ýmsar sögur um marga merkilega staði. Ótrúlegt að maður sé á sama stað og fólk sem maður hefur lesið um í sögubókunum eða slúðurblöðunum (Nánast það sama). T.d. sáum við torgið þar sem allir voru hálshöggvnir í fallöxinni við byltinguna og fengum að vita að Napoleon var krýndur í Notre Dame þar sem við höfðum verið daginn áður. Einnig sáum við Ritz hótelið þar sem Diana prinsessa fór í sína hinstu ökuferð. Við fórum að lokum út á útsýnispalli hjá Effelturninum og tókum nokkrar túristamyndir, drifum okkur svo uppá hótel með Metro og í bað. Þá tók ég eftir að ég var komin með útbrot fleiri út um allan líkamann en hafði fyrst tekið eftir nokkrum útbrotum kvöldið áður. Útbrotin voru upphleyft og litu út fyrir að vera einhver ofnæmisviðbrögð en þar sem ég er nú ekki læknislærð þá var ég alls ekki viss og sendi samstarfskonu minni sem hefur greiðan aðgang að læknum sms um hvernig Pensilínofnæmi lýsti sér því það var eiginlega það eina sem mér datt í hug og jú kannski ofþornun þar sem við gleymdum að drekka nóg vatn daginn áður.

Þá var kominn tími til að hitta frönsku frænkuna og systir hennar en þær voru einmitt staddar í París sömu helgi og við. Við löbbuðum því aftur að Notre Dame og hittum þær systur ásamt einni dóttur þar og fórum svo í Latínuhverfið til að finna okkur eitthvað að borða. Fljótlega kom þjónn til okkar og dró okkur inn af götunni á grískan veitingarstað þar sem við fengum þríréttaðan franskan matseðil. Maturinn var hinn ágætasti og systurnar smökkuðu snigla og Siggi ostrur en ég hélt mig við lauksúpuna og dóttirin fékk sér salat. Allir fengu sér nautasteik í aðalrétt og margir Creme Bruleé í eftirrétt. Eftir matinn löbbuðum við svo um Latinuhverfið og franska frænkan sýndi okkur Mýrarnar og nýlistasafnið Pompedu (líklega rangt skrifað og ég kallaði það Skúbídú eins og versti túristi því ég gat ekki munað hvað það hét), auk verslunargötunnar Rivoli (tja næstum eins og Tivoli). Þarna var ég orðinn viðþolslaus af kláða og eftir að hafa ráðfært mig við systurnar sem báðar höfðu fengið pensilín ofnæmi og fengið sms til baka frá samstarfskonu minni endaði með því að ég ákvað að hætta á pensilíninu og franska frænkan fór með mig í eitthvað apótek þar sem við keyptum einhverjar töflur við kláða, mér var þar sagt að frakkar eiga lyf við öllu. Þá var kominn tími til að drífa sig uppá hótel og hvíla sig fyrir átök morgundagsins.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Ég hlakka til að vita hvort ofnæmistöflurnar virkuðu... geri ráð fyrir að það komi fram í næsta kafla :-)

Sú franska

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Þrjú ár

Í dag eru þrjú ár síðan ég átti einkasoninn, já ótrúlega fljótt að líða. Að sjálfsögðu er ég eins og flestar mæður og segi það hiklaust að þetta sé stærsta upplifun lífsins og besta og mesta afrek sem ég hef gert. Á þessum tíma fyrir þremur árum var ég búin að vera með hríðir í rúmlega sólahring og búið að sprengja belginn, komin með dripp í æð og ljósmóðirin sem var að fara að vakt var hálf svekkt yfir því að þurfa að fara þar sem hún var viss um að barnið væri að koma. Hann leit dagsins ljós sex tímum seinna.

Níu dagar

Það eru níu dagar þangað til að ég fer til Florida og ég er sko fyrir löngu byrjuð að telja niður. Það verður ágætt að yfirgefa þetta verður og fara í sólina í Orlando, Florida. Ég get ekki beðið...

Mikilvægasta heimilistækið

Við endurnýjuðum mikilvægasta heimilistækið í dag eftir miklar vangaveltur um hvort það borgaði sig því okkur fannst það heldur dýrt. Hinsvegar ef maður skoðar tölfræðina og kr/notkun þá mætti segja að þetta heimilistæki sé alveg peningana virði. Á þessu heimili er þetta heimilistæki notað daglega. Gamla útgáfan var orðinn úr sér gengin eftir margra ára notkun og misgóða meðferð. Allir fjölskyldumeðlimir nota þetta heimilistæki og það er stöðug barátta um yfirráð á því og eins og algengt er, vinnur oftast sá frekasti. Spurning dagsins er því, hvaða heimilistæki er hér verið að lýsa? Ég þreytist seint á að segja sögur af einkasyninum og í dag fór hann með okkur að velja heimilistækið. Í búðinni rakst hann á ísskáp og opnaði hann og sagði svo "enginn matur" og hrissti hausinn og fannst lítið varið þannig ísskáp.