Það var ganga í kvöld hjá gönguhópnum og metþáttaka, alls fimm konur sem örkuðu af stað. Við löbbuðum upp Elliðarárdalinn að sundlauginni í Árbænum og til baka aftur. Skemmtileg leið, flugurnar voru aðeins að stríða okkur en ekki mikið, og ótrúlega mikið af fólki í góða veðrinu. Ég settist nú bara fyrir framan sjónvarpið þegar ég kom heim og er búinn að sitja þar síðan, ánægð með að hafa drifið mig af stað með þeim. Mig langar í nýja gönguskó!
Í dag eru þrjú ár síðan ég átti einkasoninn, já ótrúlega fljótt að líða. Að sjálfsögðu er ég eins og flestar mæður og segi það hiklaust að þetta sé stærsta upplifun lífsins og besta og mesta afrek sem ég hef gert. Á þessum tíma fyrir þremur árum var ég búin að vera með hríðir í rúmlega sólahring og búið að sprengja belginn, komin með dripp í æð og ljósmóðirin sem var að fara að vakt var hálf svekkt yfir því að þurfa að fara þar sem hún var viss um að barnið væri að koma. Hann leit dagsins ljós sex tímum seinna.
Ummæli