Fara í aðalinnihald

Færslur

Sýnir færslur frá janúar, 2008

Sjónvarpssjúklingur

Mér var bent á skemmtilega síðu um daginn þar sem hægt er að fylgjast með hvaða sjónvarpsþætti maður er búinn að sjá og hvaða sjónvarpsþætti maður á eftir að sjá. Það er mjög gott fyrir mig sem er bæði sjónvarpssjúk og skipulagssjúk enda skráði ég mig strax á þessa síðu og get nú skipulagt mig enn betur við sjónvarpsglápið. Það sem mér fannst hinsvegar fyndnast á þessari síðu var að þar var hægt að sjá hve miklum tíma ég hafði eytt í áhorf á hinum og þessum sjónvarpsþætti og í heildina með því að velja "Time I've wasted". Ég ætla nú ekki að gefa upp neinar tölur en ég er aðeins búin að láta inn nokkra þætti og það er komið upp í daga ef ekki vikur af mínu lífi sem tengjast hinum og þessum sjónvarpsþáttum. Þá er annað hvort hægt að fá samviskubit yfir sjónvarpsglápi og að hætta því alveg að horfa á sjónvarpið eða njóta þess að eiga góðar stundir með félögum mínum í kassanum góða. Ég tók að sjálfsögðu síðari kostinn.

Snjór, snjór, snjór og aftur snjór

Það hefur ekki verið svona snjór samfellt hér í höfuðborginni í manna minnum, en veðurminnið er reyndar eitthvað gloppótt hjá flestum. Ég man a.m.k. ekki eftir því hvenær það var svona mikill snjór og svona lengi, en það gæti svo sem hafa verið í fyrra því mitt veðurminni nær ekki langt aftur. Einkasonurinn er að sjálfsögðu himinlifandi yfir þessu og foreldrarnir fjárfestu í ægifagurri (not) grænblárri Stiga snjóþotu og nú er einkasonurinn að uppgötva hvað það getur verið skemmtilegt að þeytast niður snæviþaktar brekkurnar. Hann og faðir hans fóru aðeins út fyrir kvöldmat og renndu sér niður brekkuna hér á bakvið en þar sem ég er ennþá með hálsbólgu þó svo að röddin sé komin aftur þá að ég held mig meira innandyra. Ég skrapp þó út á svalir og vinkaði þeim. Önnur ferð er plönuðu fyrir kvöldmat á morgun - svo framarlega að það verði ennþá snjór.

Sólarhringurinn

Gáfulegar samræður í bílnum á leiðnni heim úr leikskólanum í dag þegar við sáum sólina reyna að gæjast framhjá skýjunum: Einkasonurinn: "Mamma segðu mér þegar sólin kemur" Móðirin: "Þegar sólin kemur þá kemur dagur, svo kemur kvöld, síðan nótt og svo þegar sólin kemur aftur þá kemur morgun og loks dagur aftur. Einkasonurinn: "Segðu mér aftur". Móðirin: "Fyrst er dagur, síðan kvöld og svo þegar sólin sest þá kemur nótt." Einkasonurinn: "Sólin getur ekki setjast! Hún er ekki með neinn rass!".

Síðasta vikan

Sem betur fer er síðasta vika janúarmánaðar að byrja. Sem betur fer segi ég, þar sem þó að janúar sé nú sjaldan skemmtilegasti mánuður ársins þá er þessi búinn að vera í verra lagi. Þar sem mér hefur tekist að vera meira og minna veik eða drulluslöpp allar helgar, já líka þessa helgi. Þetta er nú að breytast í einhverja veikindadagbók þannig að ég læt staðar numið hér og gleðst yfir því að janúar sé að verða búinn.

Svaðilför upp í sveit

Þurfti bara aðeins að setjast við tölvuna til að ná mér niður en ég var að koma úr Grafarvoginum og hélt bara að ég yrði úti enda kyngdi niður snjó á meðan ég var þar í heimsókn. Þegar ég kom út var "risastór" skafl við hliðina á bílnum og ekkert gekk að sópa og skafa snjó af bílnum þar sem allt einu fór að blása og ég sá eiginlega ekki neitt. Ég tók til við að skafa allan bílinn en þegar því var lokið lá við að ég þyrfti að byrja uppá nýtt. Ég sá fram á að ég yrði föst einhverstaðar uppi í sveit (þ.e. í Grafarvoginum) í alla nótt. Mér tókst svo að komast út úr bílastæðinu en þá blöstu við mér blá lögguljós og var viss um að það væri bara búið að loka öllum götum vegna óveðurs. Loks beygði ég út úr botnlanganum og þá sá ég að löggan var bara að stoppa einhvern ungling og það var hið besta veður og enda komst ég fljótt og auðveldlega heim í Kópavoginn. Heimferðin var kannski ekki eins svakaleg og á horfði í fyrstu. Ekki misskilja mig, mér finnst snjórinn og frostið voða kósí...

Tommi og Jenni

Tommi og jenni eru uppáhalds sjónvarpsefni einkasonarins og helst vill hann horfa á spólur sem við eigum ekki. Yfirleitt er ekki leyfilegt að horfa á auka sjónvarpsefni á virkum dögum en í undantekningartilvikum, þegar maður kemur dauðþreyttur heim úr vinnunni, þá er nú ágætt að eiga eina spólu af Tomma og Jenna. Það var gert í dag.

Austur fyrir fjall

Vá hvað það var fallegt veður á sunnudaginn. Við fórum austur fyrir fjall í tveggja ára afmæli og það var alveg rennifæri og svaka fjör í afmælinu.

Af hverju?

Mamma afhverju... ...verður jarðskjálfi? ...er barbapabbi búinn að breyta sér í baðkar? ...er pabbi svona sterkur? ...snjóar? ...er himinninn blár? Ó, já einkasonurinn er farinn að taka betur eftir umhverfi sínu og hvað þar gerist og vill fá að vita ALLT . Ég hef því miður ekki alltaf svörin, t.d. hvernig útskýrir maður fyrir þriggja ára barni hvernig jarðskjálfti veður til. Ég byrjaði á flóknu fræðilegu skýringunni sem ég lærði í landafræði í Háskólanum hérna um árið. Sá þó fljótlega að það dugði nú ekki og notaði því einfaldari útgáfuna. "Það er af því að jörðin verður stundum svo þreytt!!!!!!!!".

Leti

Pestirnar eru á bak og burt í augnablikinu, við virðumst þó vera að kvefast mæðginin, vona að það sé nú bara þar sem við höfum verið að leika okkur úti í öllum þessum snjó sem er núna á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. stór Kópavogssvæðinu. Það helsta sem hrjáir mig þessa daga er leti en það fylgir nú líka árstímanum, kem engu í verk en koma tímar, koma ráð. Jæja, einkasonurinn var að vakna og kom labbandi fram hálfsofandi. Best að drífa sig inn og kúra hjá honum.

Skríða saman

Ég er enn að jafna mig eftir magakveisuna miklu en líður þó betur en í gær. Tókst meira að segja að fara aðeins út eftir hádegi þó svo að ég hafi nú kannski ekki getað gert mikið en ég var bara búinn að fá nóg af því að vera inni, þótt þetta hafi bara verið tveir sólahringar sem ég var búinn að eyða hér innan dyra. Samt er ég glöð að aðal stuðið stóð bara yfir í 12 tíma en ekki 24 eins og hjá sumum sem ég þekki. (Alltaf gott að vera í Pollýönnuleik). Labbaði einn lítinn hring í húsdýragarðinum með einkasyninum og dreif mig svo heim aftur, frekar lottuleg. Það kemur dagur eftir þennan dag.

Pestabæli

Eiginmaðurinn var búinn að vera veikur með hita og beinverki í þrjá daga, hann sem verður aldrei veikur. Í gær, föstudag fór hann aftur í vinnuna en þá þurfti ég að fara heim úr vinnunni eftir að hafa verið þar í klukkutíma og meirihlutann að tefla við páfann. Lá svo heima nánast sofandi allan daginn á milli þess sem ég telfdi við páfann og kastaði upp. Einkasonurinn var samt hin hressasti en þegar hann var sofnaður í gærkvöldi NB í okkar rúmmi tókst honum að kasta upp yfir allt rúmmið. Ó, já það er sko ekki þorandi að heimsækja okkur þessa dagana.

Gleðilegt nýtt ár og áramótaheit

Ég hef lengið undir feld til að hugsa hvernig ég ætti að gera upp árið og komst að þeirri niðurstöðu að það hentaði mér best að gera það með myndum. Ákvað að skrifa ekki neitt fyrr en það væri tilbúið en stóðst þó ekki mátið í gær að setja inn eitt heilræði til að minna mig á það einhvern tíma seinna. Við fjölskyldan óskum öllum gleðilegs nýs árs og þakka kærlega fyrir allt sem liðið er með Krónikunni árið 2007. Mæli með að kveikt sé á hátölurunum og ef þú skoðar þetta og endilega skilja eftir skilaboð þar sem ég var alveg heillengi að búa þetta til. Ég nú ekkert voðalega dugleg við að setja áramótaheit og hvað þá standa við þau. Ég valdi því bara að gera eitt áramótaheit og það var að reyna að koma með nesti að heiman í hádeginu en ekki kaupa alltaf eitthvað í Hagkaup. Skemmst er frá því að segja að ég fór í Hagkaup í hádeginu í dag. Jæja, ég er búinn að búa mér til nesti fyrir morgundaginn þannig að ekki er öll von úti.

Heilræði

Til umhugsunar: Lífið er fullt af vandamálum. Það er best að horfast í augu við það og ákveða að vera hamingjusamur þrátt fyrir það.