Fara í aðalinnihald

Færslur

Sýnir færslur frá júlí, 2007

Sjúklingurinn mikli

Já, sjúklingurinn ég er að skríða saman. Er þó alls ekki orðinn nógu góð og þegar ég lagði mig í dag með einkasyninum glaðvaknaði ég eftir korter við hóstann í sjálfum mér. Gat að minnsta kosti gert smá húsverk í dag þannig að batahorfurnar eru loksins í rétta átt. Nú hef ég ekki komið út fyrir hússins dyr í heila viku og er ekki viss um að ég geti farið út á morgun. Þetta sumarfrí verður því þekkt sem innifríið mikla og ég HATA hósta.

Pakki

Lilja er á leiðinni heim til sín í dag og keyrir eins og fín frú rólega niður brekkuna að heimili sínu. Allt í einu sér hún glitta í póstbílinn við stigaganginn hjá sér og sér póstmanninn labba út úr stigaganginum. Lilja gefur í eins og versti ökuníðingur, skrensar við dyrnar, hoppar út úr bílnum og grípur póstinn rétt áður en hann sest inn í bílinn. "Ertu nokkuð með pakka handa Lilju?" Að sjálfsögðu var þar pakki handa Lilju og hún er núna stolltur eigandi af Harry Potter and the Deathly Hollows . Næsta mál á dagskrá er að lesa bókina. Núna er ágætt að vera í sumarfríi.

Myndavélar

Það hefur varla farið fram hjá neinum sem ég þekki að ég hef mikinn áhuga á ljósmyndun og hef haft lengi. Miklu lengur en stafrænar myndavélar voru almannaeign. Eignaðist mína fyrstu myndavél um 10 ára aldur og hef verið að taka myndir alveg síðan. Ég á þó ekki ennþá stafræna speglamyndavél en á gamla Canon EOS 500 N myndavél (Svipuð og Canon EOS REBEL XS ) með 35mm filmu þar sem hægt er að skipta um linsur. Hef hinsvegar tekið eftir því að frá því að ég eignaðist mína fyrstu stafrænu myndavél fyrir um fjórum árum síðan, hefur notkun á henni farið minnkandi, þó svo að myndirnar sem koma úr henni eru ennþá betri en úr stafrænu myndavélinni. Nú er svo komið að hún er nánast ekkert notuð og ég held bara að það sé kominn tími til að kaupa sér nýja stafræna myndavél . Mig hefur langað í svona myndavél í tvö ár og vonandi get ég látið drauminn rætast. Hef þó ákveðið að kaupa hana ekki fyrr en ákveðnar forsendur ganga upp. Þangað til get ég gert eins og ég gerði í þessari viku. Fundið 1 ár...

Galdraveröld Potters

Ég er eins og allir hinir. Ég verð víst að viðurkenna það að ég hef nú aldeilis látið plata mig með auglýsingum og fjölmiðlaáróðri. Núna er ég að endurlesa sjöttu bókina af Harry Potter og í þetta skiptið á íslensku. Er búinn að panta mér sjöundu bókina sem er líklega á leiðnni til mín í pósti. Og í kvöld fór ég og sá bíómynd sem gerð er eftir fimmtu bókinni af Harry Potter. Ég taldi mig nú ekki vera neinn svakalegan Harry Potter aðdáanda en ég hef lesið allar bækurnar og séð allar myndirnar. Það segir nú eitthvað.

Andabær og æskuminningar

Var að skoða gamalt 20-25 ára dót hjá foreldrum mínum í dag ásamt einkasyninum. Fannst því við hæfi að setja hérna inn lag sem minnir á fyrri tíma, sérstaklega handa bróður mínum sem horfði á þetta oft og mörgum sinnum á sínum yngri árum.

Heimadagur

Það er nú líka yndislegt að vera í sumarfríi og gera nákvæmlega ekki neitt, tja tókst nú að laga til eitthvað til og horfði á gamla Disneymynd með einkasyninum. Hakuna matata.

Rigning og sund

Fyrsti rigningadagur sumarsins og fyrsti sumarfrísdagur minn. Leit ekki vel út þegar ég kíkti út í morgun en dagurinn snarbatnaði við símatal um hádegisbilið og uppúr hádegi vorum ég og einkasonurinn kominn í sund með vinkonu minni. Fór í fyrsta skiptið örugglega í 15 ár í Sundhöll Reykjavíkur og þar hefur ekkert breyst frá því að ég kom þangað síðast, nema kannski sturturnar. Ég er nú alltaf frekar veik fyrir gömlum byggingum þannig að það var mjög gaman að koma aftur í Sundhöllina. Seinnipart dagsins síðan var eytt á Bergþórugötunni og svo fór ég meira að segja að æfa í kvöld, ó já hvað ég ætla að gera mikið í sumarfríinu.

Einn dagur í sumarfrí

Á bara eftir að vinna í einn dag og þá er ég farinn í þriggja og hálfsvikna sumarfrí. Næssss.... Geri ráð fyrir að þá fari að rigna, en það er svo sem ágætt því ég hef ekki gert handtak hér innanhúss í þennan mánuð sem er búinn að vera sól og aftur sól. Ekki misskilja mig, ég er samt líka alltaf til í sól.

Svefnvenjur barna og foreldra

Við erum að æfa einkasoninn á því að sofna einan enn eina ferðina. Gefumst alltaf upp þegar hann verður veikur og leyfum honum að kúra hjá okkur. Svolítið erfitt þar sem hann nú búinn að vera meira og minna veikur í allan vetur og langt fram á sumar. Ég hefði nú aldrei trúað því að mér fyndist erfitt þegar hann liggur í rúmminu sínu og grætur, en meyrt er móðurhjartað. Ég er sem sagt búinn að múta honum í kvöld (eitthvað sem maður á ekki að gera) og núna liggur hann uppi í rúmminu sínu og hlustar á Mikka ref = Dýrin í hálsaskógi á iPod og heldur fast utan um risastóran bangsa sem heitir Stóri-Friður í höfuðið á öðrum bangsa sem heitir bara Friður. Þessi nútímabörn, tja eða kannski þessir nútímaforeldrar.

Varið ykkur á hjólreiðarþjófum

Eigimaðurinn fékk lánað hjól hjá vinnufélaga sínum í gærkvöldi og setti það inni í hjólageymslu. Í morgun þegar hann fór niður í hjólageymslu þá var búið að stela því. Ég er brjáluð!!! Þetta eru allt druslur og hyski. Hjólið var sett í hjólageymsluna kl. 21 föstudaginn 13. júlí og var ekki þar þegar þess var vitjað kl. 11 laugardagsmorguninn 14. júlí. Greinilegt að föstudagurinn þrettándi slær í gegn. Hjólið er vínrautt Wheeler fjallahjól. Ef einhver hefur orðið var við hjólferðir umrædda nótt í nágrenninu hjá okkur þá endilega látið okkur vita.

Vinnuvikan

Þegar veðrið er svona gott þá nennir maður ekki að hanga í tölvunni daginn út og daginn inn. Því var lítið um blögg í vinnuvikunni. Hinsvegar var meira gert en vanalega eftir að vinnu lauk. Vikuskýrslan er svona: Mánudagur: Göngutúr í Garðabænum og kjaftað á eftir. Þriðjudagur: Grillaðar pylsur hjá tengdó. Miðvikudagur: Þá héngum við reyndar heima allan daginn þar sem verið var að skipta um hurð út á stigaganginn. En var lítið í tölvunni (aldrei þessu vant), aðallega að laga til og það er allt komið í drasl aftur. Fimmtudagur: Grillpartý með nokkrum vinnufélögum úti á Álftanesi og göngutúr í dalnum. Föstudagur: Einkasonurinn í klippingu, hamborgar grillaðir heima. Sem sagt 3x grillað í vikunni, 2x göngutúr og 1x í klippingu, það eru afrek vikunnar auk þess að njóta góða veðursins.

Selfoss á Spáni

Við fórum í heimsókn á Selfoss í dag en hefðum alveg eins getað verið á Spáin. Ekki amalegt að geta keyrt til Spánar. Um leið og við vorum kominn yfir heiðina hækkaði hitastigið og sólin tók á móti okkur. Við sátum úti í garði mest allan daginn og þurftum meira að segja að standa upp og kæla okkur í skugganum. Þökkum gestgjöfununum kærlega fyrir góðar móttökur, glæsilegar veitingar og skemmtilegan félagsskap.

Í bíó

Litla fjölskyldan fór í fyrsta skipti saman í bíó í dag. Einkasonurinn fékk að fara í sína fyrstu bíóferð að sjá Shrek the third . Eina athugsemdin sem hann lét frá sér þegar við sátum inni í bíósal og spurðum hann hvort að það væri gaman í bíó. "Það er mikið af krökkum í bíó" , hélt greinilega að bíó væri bara fyrir fullorðna. Mér sýndist hann þó skemmta sér vel enda yfirleitt gaman í bíó.

Kóngulóin ógurlega

Þegar við komum heim í dag var kónguló búinn að gera sig heimakomna fyrir utan eldhúsgluggann. Í staðinn fyrir að opna gluggan eins og ég geri alltaf þegar ég kom heim, ákvað ég bara að hafa hann lokaðan en sýndi einkasyninum kóngulónna. Honum varð svo mikið um að hann fór inn í herbergið sitt og vildi helst hafa lokað þar inn svo að kóngulóin kæmist ekki inn. Það skal tekið fram að ég hef ekki alið á ótta hans við kóngulær, mér er svo sem ekki vel við þessi kvikindi en ef þau eru ekki alltof nálægt mér (t.d. gluggi á milli sem er lokaður) þá get ég alveg skoðað þau án þess að stressast upp. Ég ákvað því að leyfa eiginmanninum að kljást við kóngulónna. Um kvöldmatarleytið fór eiginmaðurinn hinsvegar út að hlaupa þannig að kóngulóin var á sínum stað en eldhúsborðið er alveg við gluggan þar sem kóngulóin var. Þegar komið var að því að borða kvöldmatinnn fékkst einkasonurinn ekki fyrir sitt litla líf til þess að sitja við eldhúsborðið þar sem köngulóinn var úti í glugga og hélt sem fastas...

Bóndabrúnka

Ég er kominn með bóndabrúnku. Sem sagt orðinn smá brún í andliti og hálsi og á handleggjum upp að stuttermunum. Þegar ég fer úr stuttermabolnum þá er eins og ég sé í hvítum bol með brúna handleggi, háls og andlit! Já, nýlega (í raun rétt áður en góða veðrið byrjaði) var lögð sétt í eitt hornið við vinnustaðinn minn, núna sitjum við þar úti allan hádegismatinn í staðinn fyrir að hýrast inni á kaffistofunni. Ég hef hins vegar ekki haft vit á því að koma í hlýrabol og er því kominn með þessa fínu bóndabrúnku. Verð flott þegar ég fer að stunda sundið á hverjum degi í sumarfríinu. Ég er hinsvegar mjög fljót að verða hvít aftur þannig að ég hef reyndar ekki alltof miklar áhyggjur af þessu.

Það fæst í Byko

Einkasonurinn er að uppgötva að kynin eru ekki eins. Hann hefur á hreinu hver er með "sprella" og hver er það ekki. Hann hefur hinsvegar nokkrar áhyggjur af því að móðir hans sé ekki með sprella og bað um að fá að sjá hvað hún væri eiginlega með. Móðir hans var hins vega ekki eins hrifinn af því. Kristófer Óli: Mamma, þú ekki með sprella, má ég sjá? Mamma: Ég held ekki. Finnst þér að ég ætti að kaupa mér svoleiðis, í Bónus? Kristófer Óli: Bara kaupa mat í Bónus. (Frekar hneykslaður en hugsar sig svo aðeins um). Kristófer Óli: Kannski í Byko?

Út úr húsi á virku kvöldi

Þar sem við fengum þessa fínu barnapíu til að líta eftir einkasyninum í kvöld tókst okkur hjónakornunum að fara saman út að kvöldi til þar sem okkur var boðið í þessa fínu afmælisveislu. Óska hér með afmælisbarninu enn og aftur til hamingju með daginn (þú veist hver þú ert).

Engin helgarflétta

Hálfur mánuður í sumarfrí og ég er farinn að telja niður, geri fastlega ráð fyrir að þá farið að rigna. Ætluðum eiginega í útilegu um helgina en vorum svo ekki stemmd fyrir það og í staðinn þá áttum við yndislega helgi í rólegheitum heima hjá okkur og í göngutúrúm um nágrennið þar sem við rákumst meðal annars á þetta (sjá mynd) . Sem sagt gerðum bókstaflega ekki neitt og það var gaman.