Fara í aðalinnihald

Færslur

Sýnir færslur frá maí, 2009

Auglýsingar

Við vorum að keyra um daginn og þá sér Kristófer Óli kjúklingastaðinn KFC. Hann segir, mamma veistu hvað þau segja alltaf í sjónvarpinu, "KFC, núll grjón af tans bitum". Hahaha, segið svo ekki að auglýsingar hafi ekki áhrif. Eiginlega of mikil áhrif á þessu litlu kríli. Maður fattar það ekki alltaf.  Annars er Kristófer Óli einnig heima í dag, en hann er orðinn eldhress og fer í leikskólann á morgun. 

Rör í eyrun og nefkirtlar

Einkasonurinn fór í aðgerð í morgun. Það voru teknir úr honum nefkirtlarnir og sett rör í annað eyrað. Ég var nú að vonast til þess að hann væri vaxinn uppúr þessu enda örugglega tvö ár síðan hann fékk síðast rör en því miður. Ég dauðkveið fyrir aðgerðinni en hún gekk ágætlega. Hann var þó ekki sáttur þegar hann vaknaði og þá grét minn maður bara og grét svo mikið að okkur var bara hent út, hahaha! Jæja, kannski ekki alveg en svona næstum því. Eins og ég nefndei þá grét hann bara og grét og þegar hann sagði að hann vildi ekki vera þarna lengur þá sagði hjúkkan bara að hann mætti alveg fara, dauðfeginn að losna við okkur. Við hlupum því út með grátandi strák og hann jafnaði sig ekki fyrr en við vorum komin heim.  Ég var því heima með honum í dag. Hann er óskup lítill ennþá þannig að við sjáum til hvort að hann fer í leikskólann á morgun. 

Sveitaferð

Við fórum með foreldrafélagi leikskólans í sveitaferð á Hraðastaði í dag. Kristófer Óla fannst skemmtilegast að leika sér á gömlum traktór og gefa kindunum hey enda bílakarl og vinnumaður með meiru. Gaf sér þó tíma til að skoða aðeins kettlingana og hvolpana. Meðfylgjandi er ein sæt mynd af honum að kíkja á kettling.

20 ára gagnfræðingur

Já, það eru sem sagt 20 ár síðan ég útskrifaðist úr gagnfræðaskóla og reiknið þið bara nú! Í gær voru svo endurfundir eða Reunion. Ég var búinn að velta því mikið fyrir mér hvort að ég ætti að fara því að ég hef ekki sé flesta í 20 ár. Á síðustu stundu ákvað ég að drífa mig og skemmti mér bara konunglega. Dagurinn byrjaði snemma eða uppúr hádegi þar sem við fórum í ratleik, síðan fengum við að skoða Hvolsskóla en þangað hef ég ekki farið í 20 ár. Að lokum var kvöldveður á Hótel Hvolsvelli. Bara hið skemmtilegasta Reunion og hér eru nokkrar myndir sem sýna það.   Í "kaupfélaginu" með viðskiptavinum. Í ratleiknum við kirkjuna á Hvolsvelli. Heima hjá Einari kennara. Á hótel Hvolsvelli um kvöldið. 

Vorferðin sem aldrei var farin

Í fyrra hafði starfsmannafélagið skipulagt vorferð í maí en það fór þannig að hún var aldrei farinn. Ástæða þess er sú að sama dag og ætlunin var að fara í vorferð austur fyrir fjall kom Suðurlandsjarðskjálfti, aðeins klukkutíma áður en áætluð brottför var hjá okkur, þannig að ferðinni var aflýst. Ætlunin var að fara á Stokkseyri og borða humar, á leiðinni var m.a. ætlunin að skoða hella. Ég hefði nú ekki gefið mikið fyrir það að vera inni í helli þegar skjálftinn reið yfir.  Í gær fórum við svo í vorferðina sem aldrei var farin í fyrra. Þetta var hin skemmtilegasta vorferð og við stoppuðum í Hellisheiðavirkjun og kíktum á veiðisafnið á Stokkseyri áður en við hámuðum í okkur humar við Fjöruborðið.  Við Hellisheiðarvirkjun Siggi í lopapeysunni sem ég kláraði í byrjun maí. Fyrsta fullorðins lopapeysan sem ég prjóna! Stjórn starfsmannafélagsins Við hjónin mætt á veitingarstðinn Við fjöruborðið Nammi, namm, humar

Hreinsunardagur og maíveður

Hreinsunardagurinn við blokkina okkar. Kristófer Óli á Austurvelli Mæðginin niðri í miðbæ. Það er búið að vera yndislegt veður síðustu daga, svona á veðrið að vera. Við vorum svo heppin að það var svona gott veður á hinum árlega hreinsunardegi í blokkinni, þ.e. í gær þannig að við nutum bara dagsins og reyndum að taka aðeins til.  Seinna um daginn þá drifum við okkur aðeins niður í miðbæ til að njóta veðurblíðunnar og það var krökkt af fólki þar.  Um kvöldið var svo Eurovision og Ísland bara í öðru sæti! Það kom mér skemmtilega á óvart ég var í alvöru búinn að spá 16. sætinu. Áfram Jóhanna. En ég er með norska lagið á heilanum, ó já á heilanum!

Af hverju er himininn blár?

Einkasonurinn er að uppgötva heiminn núna og það er bara sætt, þó svo að sakleysið minnki aðeins fyrir vikið.  Hann er mikið að spá í úr hverju hlutirnir eru búinir til eða hvernig þeir verða til. Um daginn elduðum við heila kjúkling og hann var mest hissa á því hvar hausinn væri. Mikið er spáð í allt sem við borðum og t.d. er spurt úr hverju hakk sé búið til úr, af hverju við borðum naut, úr hverju ananas úr dós sé búinn til úr o.s.frv. Í kvöld þegar við vorum að fara að sofa spurði hann úr hverju sápa er búinn til úr?

Maí, Eurovision og eynabólga

Maður blikkar bara augunum og það er allt í einu kominn maí.  Við vorum að horfa á undankeppnina í Eurovision þar sem íslenska lagið var auðvitað langflottast. Núna bíður maður bara eftir úrslitunum, spurningin er hvort að það komist uppúr undankeppninni eða ekki, ég er alls ekki viss. Kristófer Óli fékk eyrnabólgu en hann hefur ekki fengið það í marga mánuði ef ekki mörg ár. Það þýðir bara að hann þarf að fá aftur rör, fékk síðast þegar hann var tveggja ára púff og ég dauðkvíði fyrir því. Það hefur því orðið minna úr sundnámskeiðinu sem hann er skráður í. Hann fer núna í sundnámskeið hjá Breiðablik, finnst það ekkert voðalega gaman en lætur sig hafa það þar sem foreldrarnir gefa ekkert eftir, þ.e.a.s. nema þegar hann er með eyrnabólgu.  -------------------------- Uppfært: Ísland komst áfram! Núna tökum við þetta... ...eins og svo oft áður.