Fara í aðalinnihald
Matargestir og jólaskap
Í gær buðum við Ingólfi bróður og Ingu kærustunni hans í mat. Það kom nú eiginlega bara til að við tókum óvart út þrjár kjúklingabringur úr frystinum þannig að það var alltof mikið handa okkur tveimur. Hefðum kannski bara tekið afganginn með okkur í vinnuna í dag en svo var Ingólfur svo heppinn að hringja og mér datt bara í hug að bjóða honum í smá mat. Þau voru náttúrulega fegin að sleppa við að elda. Svo voru þau svo heppin að ég hafði búið til eplarétt daginn áður þar sem að ég og Siggi áttum tveggja ára brúðkaupsafmæli þann 24. nóvember og fengu þau afganginn af því.

Annars var ég að lyfta borði í gær og fékk í bakið þannig að í dag er ég skakki turninn í Pisa! Var meira að segja að spá í hvort að ég ætti að vera heima í dag, liggja fyrir og reyna að ná þessu úr mér en nennti því sko ekki og beit bara á jaxlinn og dreif mig í vinnuna þar sem að ég gat á annað borð hreyft mig, en það get ég ekki alltaf þegar að ég fæ í bakið.

Næstu fréttir eru þær að ég er alveg að komast í jólaskap. Var búin að ákveða að næstkomandi föstudag ætla ég að byrja í jólaskapi og ég held bara að það muni takast! Ekki skemmir fyrir að núna er allt hvítt úti og virkilega jólalegt. Þá er bara að taka fram jólaskrautið og byrja að skreyta um helgina.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Þrjú ár

Í dag eru þrjú ár síðan ég átti einkasoninn, já ótrúlega fljótt að líða. Að sjálfsögðu er ég eins og flestar mæður og segi það hiklaust að þetta sé stærsta upplifun lífsins og besta og mesta afrek sem ég hef gert. Á þessum tíma fyrir þremur árum var ég búin að vera með hríðir í rúmlega sólahring og búið að sprengja belginn, komin með dripp í æð og ljósmóðirin sem var að fara að vakt var hálf svekkt yfir því að þurfa að fara þar sem hún var viss um að barnið væri að koma. Hann leit dagsins ljós sex tímum seinna.

Níu dagar

Það eru níu dagar þangað til að ég fer til Florida og ég er sko fyrir löngu byrjuð að telja niður. Það verður ágætt að yfirgefa þetta verður og fara í sólina í Orlando, Florida. Ég get ekki beðið...

Mikilvægasta heimilistækið

Við endurnýjuðum mikilvægasta heimilistækið í dag eftir miklar vangaveltur um hvort það borgaði sig því okkur fannst það heldur dýrt. Hinsvegar ef maður skoðar tölfræðina og kr/notkun þá mætti segja að þetta heimilistæki sé alveg peningana virði. Á þessu heimili er þetta heimilistæki notað daglega. Gamla útgáfan var orðinn úr sér gengin eftir margra ára notkun og misgóða meðferð. Allir fjölskyldumeðlimir nota þetta heimilistæki og það er stöðug barátta um yfirráð á því og eins og algengt er, vinnur oftast sá frekasti. Spurning dagsins er því, hvaða heimilistæki er hér verið að lýsa? Ég þreytist seint á að segja sögur af einkasyninum og í dag fór hann með okkur að velja heimilistækið. Í búðinni rakst hann á ísskáp og opnaði hann og sagði svo "enginn matur" og hrissti hausinn og fannst lítið varið þannig ísskáp.