Fara í aðalinnihald

Færslur

Sýnir færslur frá júní, 2008

Pabbi Siggi og mamma Lilja

Þegar eiginmaðurinn fór með einkasoninn á leikskólann í morgun kom besta vinkona einkasonarins til þeirra og segir, "ert þú pabbi Siggi"? Eiginmaðurinn greinilega þekktur í leikskólanum. Kristófer Óli hefur nefnilega tekið uppá því að kalla okkur "pabba Sigga" og "mömmu Lilju" þannig að það hljómar stundum eins og hann eigi marga pabba og margar mömmur. Ef hann þarf viriklega að fá athygli hjá mér þá segir hann stundum "Lilja mín", "Lilja mín", spurning hvort það virkar vel. En ef hann á bágt þá kallar hann nú bara á mömmu og pabba.

Austur fyrir fjall

Fór í stutta og skemmtilega ferð austur fyrir fjall eftir vinnu í dag, já maður getur víst líka gert eitthvað skemmtilegt á virkum dögum! Ég og samstarfskona mín fórum til vinkonu minnar sem á fullt af kisum á Selfossi. Samstarfskona mín hafði nefnilega nýlega fengið kisu hjá henni og var spennt að sjá fleiri kisur. Við kíktum á kisurnar og krakkarnir léku sér á meðan. Við vorum auðvitað alltof lengi í heimsókninni enda alltaf gaman að koma til Selfoss þannig að þegar henni var lokið var komið að matartíma og allir svangir. Við rúntuðum um Selfoss en fundum ekkert spennandi, ég hringdi meira að segja í eina vinkonu mína í Hveragerði til að kanna veitingarhúsaflóruna þar. Þá fengum við þá snilldarhugmynd að fá okkur humarsúpu á Stokkseyri og það sló í gegn, a.m.k. hjá okkur konunum, krakkarnir fengu sér nú bara skinkusamloku og nagga. Það er ekki að því að spyrja krakkarnir sofnuðu áður en við komum til höfuðborgarinnar.

Í bústað

Búinn að vera í bústað við Laugarvatn alla helgina og rúmlega það, halda uppá eitt stykki sextugsafmæli, fara í fjallgöngu, á Sólheima og í minigolf. Við komum heim í kvöld og ég fer strax að vinna í fyrramálið. Búinn að þvo tvær vélar og ganga frá flestu. Held að það sé kominn tími til að fara að sofa. Gleðilega þjóðhátíð!

Beauty is pain

Tók mér sumarfrísdag í dag og fór í klippingu og strípur fyrir hádegi. Ég mætti kl. 9.30 og labbaði út af hárgreiðslustofunni kl. 12.09!!! Já rúmlega tveir og hálfur tími og mörgum þúsundköllum fátækari. Verð þó að segja að ég er nokkuð ánægð með útkomuna, en "Beauty is pain".

Vífilsstaðavatn

Labbaði tvo hringi í kringum Vífilsstaðavatn í kvöld. Skrítið fyrir um mánuði síðan hafð ég aldrei labbað í kringum þetta vatn en keyrt fram hjá því ótal mörgum sinnum. Núna er ég búinn að labba þrisvar sinnum í kringum það.

Krökkt af fólki

Ég ákvað að fara frekar út í góða veðrið en í sveittan leikfimissal og tók eina göngu í dalnum. Þar var allt krökkt af fólki sem var labbandi, hlaupandi, hjólandi og á línuskautum. Svo ekki sé talað um þá fjölmörgu hópa sem voru að spila fótbolta, hafnarbolta eða blak. Það er náttúrulega bara gaman að vera til á svona dögum. Fyrr um daginn fórum við einkasonurinn aftur í Kópavogslaug og hann var farinn að gera sig nokkuð heimakominn þar. Við vorum ekki einu sinni búinn að fara úr skónum heldur stóðum fyrir utan klefann þar sem skótauið er geymt þegar minn maður bara girti niður um sig, já hann var að fara í sund og að drífa sig úr fötunum og það strax. Baráttukveðjur til þeirra sem voru í þessari vél , grunar að þetta hafi ekki verið skemmtilegt.

Nú er úti verður gott

Ég er ekki frá því að það sé loksins komið sumar og 17. júní í næstu viku. Verst að mér finnst alltaf sumarið vera hálfnað þegar 17. júní búinn og reyni að flýta mér að gera eitthvað. Sem betur fer er búið að vera nóg að gera í maí og júní þannig að ég hef nýtt það sem af er sumri og vetri vel. En bara ef þið hafið ekki tekið eftir því, þá er bongóblíða úti, sumarhátíð leikskólans (sem foreldrafélagið stendur fyrir) á fimmtudaginn og nóg að gerast. Fór í smá leiðangur með einkasoninn að kíkja á tvíhjól. Hann vildi þó ekki fá tvíhjól, bara hjól með hjálparadekkjum, hahahah! Í þær tvær búðir sem ég fór voru bara til bleik stelpuhjól í hans stærð. Reyndar er hann á milli stærða þar sem hann er alltof langur en það er önnur saga. Hann var þó alveg sáttur við að fá bleikt hjól en móðir hans ákvaða að bíða í nokkur ár með það að láta hann ráða því og tekur stefnuna á fleiri búðir á morgun.

Minningar

Ég var að skoða gamlar færslur eins og uppáhals blöggarinn minn . Þá rakst ég á þetta hérna . Ég var búinn að steingleyma þessu en gaman að sjá að maður lætur nú stundum draumana rætast þar sem við fórum einmitt til Parísar núna í maí.

Lýtaaðgerð

Ég fór í lýtaaðgerð í dag. Var búinn að kvíða fyrir því í tvö ár og svo tók það ekki nema 5 mínútur og 6000 kr. Ég var með nokkra húðsepa á hálsinum sem ég fékk þegar ég var ófrísk og ákvað loks að láta taka í dag. Lækninum fannst þú þetta ekki mikið mál og svona eftirá þá verð ég að viðurkenna að það var það nú ekki. Núna er ég kominn með þennan fína háls og get farið að safna fleiri húðsepum, maður fær þá víst oftast á miðjum aldri en það er auðvitað mörg, mörg ár ef ekki áratugir í það hjá mér.

Sundlaug Kópavogs

Sundlaug Kópavogs er sundlaugin mín. Allt frá því ég var lítil stelpa og fór í sund í pinku lítilli sundlaug og fékk mér hálft fransbrauð á eftir í bakaríinu á móti eða labbaði í sund á menntaskólaárunum á meðan ég bjó hjá ömmu minni eða þegar ég gerði mér ferð í Kópavoginn á þeim tíma sem ég bjó í höfuðborginni. Ég á góðar minningar um þessa sundlaug og hef alltaf verið nokkuð heimakominn þar. Ég hef ekki farið mikið í þessa sundlaug hin síðustu ár, kannski dofnaði sjarminn, eða ég var kannski bara að gera eitthvað annað! Fyrr í vetur fór ég svo nokkrum sinnum aftur í þessa sundlaug en tókst kannski ekki að standa við stóru orðin, þ.e. fara í sund 1x í viku í vetur. Ég stend þó við það að þetta er lang besta laugin fyrir sundæfingar. Fyrir stuttu var Sundlaug Kópavogs svo opnuð enn og aftur með hátíðarhöldum, endurbætt með nýjum pottum, innisundlaug og nýjum klefum í stað "bráðabirgðaklefanna" sem stóðu í 15 eða 20 ár. Ég og einkasonurinn fórum og vígðum nýja hlutann í dag ...